Hlíðarfjall - skýrsla

Málsnúmer 2025011903

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 179. fundur - 18.02.2025

Lögð fram og kynnt aðgerðaáætlun dagsett í janúar 2025 fyrir verkefni í Hlíðarfjalli sem myndu bæta snjósöfnun og snjóframleiðslu í Hlíðarfjalli.

Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli og Jónas Stefánsson svæðisstjóri í Hlíðarfjalli sátu fundinn undir þessum lið.
Umhverfis- og mannvirkjaráð felur sviðsstjóra að vinna áfram að forgangsröðun aðgerða og gera kostnaðargreiningu sem nýtist við fjárhagsáætlunargerð.

Ungmennaráð - 61. fundur - 25.03.2025

Bjarki Orrason fjallaði um Hlíðarfjall og færði rök fyrir því af hverju bæta eigi aðstöðu Skíðafélags Akureyrar í Hlíðarfjalli. Aðstaða fyrir iðkendur til að skipta yfir í skíðabúnaðinn er ekki nógu góð. Bæta þarf og stækka rými fyrir iðkendur. Rýmið þyrfti að vera vel loftræst, með gúmmímottum á gólfinu til að koma í veg fyrir hálku. Einnig væri hægt að huga að huggulegri aðstöðu í Strýtuskálanum með sófum þar sem hægt væri að bíða þegar lyftur stöðvast vegna veðurs.


Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Þakkaði fyrir yfirferð Bjarka og tók undir orð hans. Benti á að þegar nýja vélaskemman verður tekin í notkun gætu skíðaiðkendur mögulega fengið aðgengi og afnot af hluta gömlu vélageymslunnar. Telur að það sé mikilvægt að taka samtal við stjórnina og finna lausnir. Mikilvægt að öryggisnet séu til staðar. Mikilvægt að svæðið sé aðlaðandi fyrir skíðakrakkanna svo að þá langi að æfa í Hlíðarfjalli.

Ungmennaráð - 61. fundur - 25.03.2025

Sigmundur Logi Þórðarson fjallaði um mikilvægi þess að bæta opnunartíma Hlíðarfjalls og tryggja almenningssamgöngur upp í fjallið. Núverandi opnunartími er alltof takmarkandi, sérstaklega fyrir þau sem stunda skóla eða vinnu. Með lengri opnunartíma myndi aðsókn í fjallið aukast. Annað stórt vandamál er að komast upp í fjallið, með því að hafa strætó eða rútu væri hægt að draga úr notkun einkabílsins og þar með svifryki. Strætó í fjallið myndi auka aðgengi fyrir öll. Þetta myndi tryggja aukna aðsókn og minni mengun.


Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir gott erindi. Benti á að þetta hefur verið rætt og snýst því miður um peninga. Hlíðarfjall er rekið með miklum halla. Ekki nægilega markvissar tekjur af rútum sem hafa verið að keyra upp í fjall. Vert að kanna aftur hvort hægt er að fá rútur til að keyra í fjallið.


Til máls tók Bjarki Orrason. Benti á að það væri búið að vera ágætlega oft opið í fjallinu þrátt fyrir slæman vetur og ekkert sem kemur í veg fyrir að það myndi ganga upp að hafa rútu í fjallið. Óskaði frekari útskýringa frá bæjarfulltrúa Heimi Erni Árnasyni.


Til máls tók Heimir Örn Árnason og útskýrði að þetta snerist um rútufyrirtækið sem sá ekki hag sinn í að keyra upp í fjall þannig að það þyrfti að skoða hvort bærinn myndi taka að sér niðurgreiðslu rútuferða.


Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og ítrekaði mikilvægi þess að hafa góðar almenningssamgöngur í fjallið.


Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason og hvatti bæjarstjórn til að skoða samstarf við rútufyrirtæki til að tryggja almenningssamgöngur í fjallið.