Sigmundur Logi Þórðarson fjallaði um mikilvægi þess að bæta opnunartíma Hlíðarfjalls og tryggja almenningssamgöngur upp í fjallið. Núverandi opnunartími er alltof takmarkandi, sérstaklega fyrir þau sem stunda skóla eða vinnu. Með lengri opnunartíma myndi aðsókn í fjallið aukast. Annað stórt vandamál er að komast upp í fjallið, með því að hafa strætó eða rútu væri hægt að draga úr notkun einkabílsins og þar með svifryki. Strætó í fjallið myndi auka aðgengi fyrir öll. Þetta myndi tryggja aukna aðsókn og minni mengun.
Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir gott erindi. Benti á að þetta hefur verið rætt og snýst því miður um peninga. Hlíðarfjall er rekið með miklum halla. Ekki nægilega markvissar tekjur af rútum sem hafa verið að keyra upp í fjall. Vert að kanna aftur hvort hægt er að fá rútur til að keyra í fjallið.
Til máls tók Bjarki Orrason. Benti á að það væri búið að vera ágætlega oft opið í fjallinu þrátt fyrir slæman vetur og ekkert sem kemur í veg fyrir að það myndi ganga upp að hafa rútu í fjallið. Óskaði frekari útskýringa frá bæjarfulltrúa Heimi Erni Árnasyni.
Til máls tók Heimir Örn Árnason og útskýrði að þetta snerist um rútufyrirtækið sem sá ekki hag sinn í að keyra upp í fjall þannig að það þyrfti að skoða hvort bærinn myndi taka að sér niðurgreiðslu rútuferða.
Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og ítrekaði mikilvægi þess að hafa góðar almenningssamgöngur í fjallið.
Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason og hvatti bæjarstjórn til að skoða samstarf við rútufyrirtæki til að tryggja almenningssamgöngur í fjallið.