Öryggi nemenda á bílastæði - erindi frá réttindaráði Giljaskóla

Málsnúmer 2024030440

Vakta málsnúmer

Fræðslu- og lýðheilsuráð - 48. fundur - 11.03.2024

Erindi frá réttindaráði Giljaskóla dagsett 29. febrúar 2024 varðandi öryggi nemenda á bílastæðum.

Áheyrnarfulltrúar: Anna Lilja Sævarsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Hanna Dóra Markúsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Helga Jónasdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Helena Kristín Gunnarsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Jóhanna María Agnarsdóttir fulltrúi grunnskólastjóra og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.
Fræðslu- og lýðheilsuráð þakkar réttindaráði Giljaskóla fyrir erindið og tekur undir áhyggjur þess varðandi öryggismál og bílaumferð á bílastæði Giljaskóla, Kiðagils og Íþróttamiðstöð Giljaskóla. Fræðslu- og lýðheilsuráð vísar málinu til umhverfis- og mannvirkjaráðs.

Ungmennaráð - 49. fundur - 03.04.2024

Fræðslu- og lýðheilsuráð tók fyrir erindi frá réttindaráði Giljaskóla varðandi öryggi nemenda á bílastæðum og sendi málið til kynningar til ungmennaráðs. Mikilvægt er að nauðsynleg gögn fylgi þegar málum er vísað til ungmennaráðs, í þessu tilfelli erindi réttindaráðsins. Gildi áheyrnarfulltrúa ungmennaráðs í fræðslu- og lýðheilsuráði sannaði sig og viðkomanid gat nálgast gögnin.

Ungmennaráð sendi fyrirspurn vegna málsins til fræðslu- og lýðheilsuráðs og umhverfis- og mannvirkjaráðs.
Mikilvægt er að þetta mál sé sett í forgang og farið verði í úttekt á öryggis- og bílastæðamálum við Giljaskóla. Ungmennaráð fundaði fyrir stuttu með nemenda- og réttindaráði Giljaskóla þar sem fulltrúarnir lýstu yfir áhyggjum sínum um málið en sögðu einnig frá því að þau hafi sent inn fyrirspurn á bæinn en ekki hafa fengið ný svör.

Ungmennaráð hvetur umhverfis- og mannvirkjaráð til þess ráðast í aðgerðir sem fyrst þar sem öryggi barna og ungmenna á þeirra vinnustað sé um að ræða. Að sama skapi telur ungmennaráð mikilvægt að viðeigandi ráð haldi nemendum upplýstum um stöðu mála. Ungmennaráð vonast einnig til þess að umhverfis- og mannvirkjaráð skoði af alvöru aðrar áhyggjur og óskir sem réttindaráðið ber upp í myndbandi sínu sem fylgdi erindi þeirra.


Einnig vill ungmennaráð bera upp þá spurningu til viðeigandi ráða hvers vegna engin svör hafi hingað til borist vegna fyrirspurna réttindaráðs Giljaskóla þar sem málið hefur verið áhyggjumál síðan 2020?

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 164. fundur - 18.06.2024

Liður 6 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 11. mars 2024:

Erindi frá réttindaráði Giljaskóla dagsett 29. febrúar 2024 varðandi öryggi nemenda á bílastæðum.

Áheyrnarfulltrúar: Anna Lilja Sævarsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Hanna Dóra Markúsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Helga Jónasdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Helena Kristín Gunnarsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Jóhanna María Agnarsdóttir fulltrúi grunnskólastjóra og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.

Fræðslu- og lýðheilsuráð þakkar réttindaráði Giljaskóla fyrir erindið og tekur undir áhyggjur þess varðandi öryggismál og bílaumferð á bílastæði Giljaskóla, Kiðagils og Íþróttamiðstöð Giljaskóla. Fræðslu- og lýðheilsuráð vísar málinu til umhverfis- og mannvirkjaráðs.
Umhverfis- og mannvirkjaráð þakkar réttindaráði Giljaskóla fyrir erindið og tekur undir áhyggjur þess varðandi öryggismál og bílaumferð á bílastæði Giljaskóla, Kiðagils og Íþróttamiðstöð Giljaskóla.

Umhverfis- og mannvirkjaráð vísar málinu til fjárhagsáætlunargerðar fræðslu- og lýðheilsuráðs þar sem verkið er ekki á framkvæmdaáætlun 2024-2027.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista óskar bókað:

Síðastliðin 4 ár hefur ítrekað verið vakin athygli á áhyggjum af öryggismálum og bílaumferð á bílastæði Giljaskóla, Kiðagils og Íþróttamiðstöð Giljaskóla. Þrátt fyrir það eru slíkar umbætur ekki á framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar næstu þrjú árin. Það ætti hins vegar að vera forgangsmál að tryggja öryggi barna og því nauðsynlegt að fara í umbætur á svæðinu án tafar.