Liður 17 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 24. maí 2023:
Umsagnarfrestur um tillögu að breytingu á 2. gr. samþykktar Akureyrarbæjar um verklagsreglur vegna tímabundinna lokana gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja rann út þann 18. maí sl. Fjölmargar athugasemdir og umsagnir bárust á kynningartíma, bæði frá rekstraraðilum við Hafnarstræti og almenningi.
Tillagan gerir ráð fyrir að sá hluti Hafnarstrætis sem kallast göngugata verði lokaður vélknúnum ökutækjum í júní, júlí og ágúst.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista leggur fram eftirfarandi tillögu:
Göngugatan verði lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst en aðgengi verði á þeim tíma tryggt fyrir P-merkta bíla, ökutæki viðbragðsaðila og aðföng rekstraraðila.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Þórhallur Jónsson D-lista, Þorvaldur Helgi Sigurpálsson M-lista og Jón Hjaltason óflokksbundinn greiddu atkvæði gegn tillögunni og var hún felld.
Formaður skipulagsráðs leggur fram eftirfarandi tillögu:
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hlustað verði á núverandi rekstraraðila í miðbænum sem telja sig þurfa að flytja sig um set ef af meiri lokun verður og þurfi lengri frest til þess en tæpa tvo mánuði. Skipulagsráð leggur því til við bæjarstjórn að halda sig við núverandi reglur um lokun, en telur að bæta megi við núgildandi lokun sambærilegri lokun á sunnudögum í júní og ágúst. Þá er heldur ekki hægt að horfa fram hjá því að heilsugæslustöðin kemur ekki til með að flytja fyrr en um næstu áramót og aðgengi að henni þarf að vera gott fyrir öll. Skipulagsráð leggur til að haustmánuðir 2023 verði nýttir til þess að undirbúa frekari tillögur að lokun og að gerð verði skoðanakönnun á meðal bæjarbúa. Hvað varðar tillögu um tíðari lokun í Gilinu þá telur skipulagsráð ekki þörf á að bæta við lokunardögum að sinni.
Loks leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að hún samþykki að orðalag í Samþykkt Akureyrarbæjar um verklagsreglur fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja verði samræmt við heiti verklagsreglna með þeim hætti að þar sem talað er um lokanir fyrir umferð sé átt við um lokanir fyrir umferð vélknúinna ökutækja.
Tillagan var samþykkt með atkvæðum Höllu Bjarkar Reynisdóttur L-lista, Þórhalls Jónssonar D-lista, Þorvalds Helga Sigurpálssonar M-lista og Jóns Hjaltasonar óflokksbundins.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista situr hjá við atkvæðagreiðslu og óskar bókað eftirfarandi:
Ég harma að fulltrúar Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins, L-lista og óháðra hafi fellt tillögu mína um að göngugötunni verði lokað fyrir vélknúnum ökutækjum yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst, á sama tíma og aðgengi verði á þeim tíma tryggt fyrir P-merkta bíla, ökutæki viðbragðsaðila og aðföng rekstraraðila. Göngugatan í hjarta bæjarins á að iða af mannlífi, ekki síst að sumri til, þar sem notalegt er að dvelja um lengri og skemmri tíma. Það gefur augaleið að slíkt er betra án bílaumferðar auk þess sem það eykur fjölbreytni í aðgengi bæjarbúa og gesta að verslun og þjónustu.
Halla Björk Reynisdóttir kynnti og lagði fram svofellda tillögu fyrir hönd meirihlutans:
Lagt er til að Samþykkt Akureyrarbæjar um verklagsreglur fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja verði breytt þannig að í 2.gr. verði bætt við lokun á sunnudögum í júní og ágúst kl. 11 - 19 sumarið 2023. Jafnframt er lagt til að sá hluti Hafnarstrætis sem í daglegu tali er kallað göngugata verði lokað alla daga, allan sólarhringinn í júní, júlí og ágúst árið 2024. Aðgengi skal tryggt fyrir P-merkta bíla, ökutæki viðbragðsaðila og aðföng rekstraraðila líkt og áður.
Til máls tók Hilda Jana Gísladóttir.