Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 11. maí 2023:
Liður 5 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 8. maí 2023:
Lagður fram til kynningar samningur um uppbyggingu á félagssvæði Knattspyrnufélags Akureyrar.
Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fundinn undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúar: Helga Björg Ingvadóttir framkvæmdastjóri ÍBA og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.
Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir samninginn við KA fyrir sitt leyti með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar honum til bæjarráðs.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Ellert Örn Erlingsson fostöðumaður íþróttamála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs samþykkir framlagðan samning um uppbyggingu á félagssvæði KA og vísar honum til umræðu í bæjarstjórn.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir situr hjá.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað:
Sit hjá vegna ófullnægjandi gagna. Ég er ekki á móti þessari viðbót við fyrrum uppbyggingarsamning, það eru ákveðin rök fyrir því að klára félagsaðstöðuna samhliða en ákvörðun um það verður að vera byggð á faglegri vinnu. Enn er mörgum spurning ósvarað. Það er óábyrg fjármálastjórnun að ekki liggi til grundvallar minnisblað um rekstrarkostnað og hvaða áhrif þessi fjárfesting hefur á aðrar áætlaðar fjárfestingar og getu til fjárfestinga á næstu árum. Eins sýnir það skort á faglegum vinnubrögðum að hvorki fylgi gögnunum þarfagreining né heildar framtíðarsýn á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Fulltrúar B-lista hafa talað fyrir því fyrir síðustu kosningar að dusta rykið af umræðu um þriggja kjarna starfsemi og skipuleggja uppbyggingu á KA og Þórssvæðinu samhliða því, það á enn við.
Það er óásættanlegt að ekki sé tímasett í samningnum hvenær viðunandi frágangi eigi að ljúka né kostnaðargreining á því. 7. gr. um bindingu Akureyrarvallar samræmist ekki nýsamþykktri húsnæðisáætlun.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óskar bókað:
Mér finnst skorta framtíðarsýn varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum og að horft sé til þess að við erum 20.000 manna sveitarfélag í því samhengi. Eins þarf að meta hvaða áhrif þessi samningur hefur á aðrar áætlaðar fjárfestingar sveitarfélagsins og fjárfestingar til framtíðar sem og að rekstrarkostnaður sé ljós.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista óskar bókað:
Mikilvægt er að tryggja að úthlutun lóða á Akureyrarvelli geti átt sér stað í samræmi við húsnæðisáætlun árið 2026, til að tryggja sveitarfélaginu tekjur til að standa straum af hluta þess kostnaðar sem um ræðir. Þá er mikilvægt að vinna að nýrri áætlun um framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja, enda ljóst að einnig er þörf á uppbyggingu mannvirkja annarra íþróttafélaga sveitarfélagsins. Þá er mikilvægt að horfa til heildarsamhengis í framkvæmdaáætlun næstu ára, enda töluverð þörf á uppbyggingu mannvirkja tengt öðrum málarflokkum, ekki síst á velferðar- og fræðslusviði.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista og Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista óska bókað:
Ánægjulegt er að nú liggi fyrir samningur um uppbyggingu á KA svæðinu. Við teljum ekkert í samningnum koma í veg fyrir uppbyggingu á Akureyrarvelli og hann því í samræmi við nýsamþykkta húsnæðisáætlun.
Samningur er lagður fram til samþykktar í bæjarstjórn.
Andri Teitsson kynnti.
Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Andri Teitsson og Hlynur Jóhannsson.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir og og Gunnar Már Gunnarsson B-lista leggja fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarstjórn vísar til bæjarráðs að koma á þverpólitískum vinnuhópi ásamt fulltrúum íþróttahreyfingarinnar sem heldur utan um það verkefni að skapa framtíðarsýn í íþróttamálum á Akureyri. Kanna fýsileika þess að taka aftur upp viðræður um þriggja kjarna uppbyggingu og skipuleggja uppbyggingu í samræmi við það. Fengin yrði verkfræðiskrifstofa til að kortleggja það húsnæði sem bærinn á, viðhaldsþörf og möguleikana á nýtingu þess. Í framhaldinu yrði unnin skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri og ákjósanlega röðun samkvæmt fyrirfram ákveðnum breytum. Vinnuhópnum yrði gert að skila af sér lokaafurð til samþykktar fyrir vorið 2024.
Það hefur áður komið til tals hér inni að meðfram kostnaðaráætlun á uppbyggingu mannvirkja sé rekstur mannvirkisins kostnaðargreindur. Ég hvet Akureyrarbæ til þess að fara í þá vinnu núna og meðfram allri uppbyggingu í framtíðinni og fækka þannig óvissuþáttum í þeim útgjöldum sem uppbyggingu fylgir.