4. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 16. apríl 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 21. febrúar með athugasemdafresti til 6. apríl 2014. Samhliða var auglýst aðalskipulagsbreyting vegna virkjunar á Glerárdal, sjá málsnr. 2013110020. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á heimasíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Deiliskipulagstillagan var kynnt á opnum íbúafundi í Ráðhúsi 3. febrúar 2014.
Innkomnar þrjár umsagnir:
1) Skipulagsstofnun, dags. 7. mars 2014. Umsögn vegna umhverfisskýrslu.
a) Skipulagsstofnun bendir á að tilgreina þarf í umhverfisskýrslu hvort gert sé ráð fyrir vöktunaráætlun.
b) Sýna þarf á uppdrætti allt svæðið á náttúruminjaskrá þ.m.t. þann hluta sem er innan lóðar geymslusvæðis jarðefna.
2) Minjastofnun, dags. 20. mars 2014.
a) Bent er á að fornleifaskráning á svæðinu uppfyllir ekki skilyrði og þurfi því að skrá fornleifar á svæðinu á fullnægjandi hátt þar sem staðsetningu á minjum frá þessum árum getur skeikað um tugi metra og er því nauðsynlegt að mæla aftur upp minjar á svæðinu.
3) Vegagerðin, dags. 21. mars 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
Svör við umsögnum:
1a) Ekki er talin þörf á vöktunaráætlun vegna mögulegra umhverfisáhrifa og er það tilgreint í umhverfisskýrslu.
1b) Tekið er tillit til athugasemdarinnar og viðeigandi lagfæringar gerðar á uppdrætti.
2) Samráð mun verða haft við Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjast og svæðið skoðað með það í huga að forðast að skerða huganlegar fornleifar á svæðinu.
3) Gefur ekki tilefni til svars.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Edward H. Huijbens V-lista óskar bókað:
Ég vil lýsa yfir stuðningi við uppbyggingu fyrirhugaðrar Glerárvirkjunar II til eflingar sjálfbærrar orkuvinnslu í þágu íbúa á Akureyri. Samtímis vil ég ítreka að ganga skuli sem lengst til að tryggja vernd umhverfis verðandi fólkvangs bæjarbúa. Þannig geri ég kröfu um að farið verði í heildstætt umhverfismat vegna framkvæmdarinnar, sem er til þess fallið að skapa frekari sátt um framkvæmdina og mun kortleggja grunnstöðu vistkerfa til viðmiðunar vegna mats á mögulegum framtíðaráhrifum af virkjun og skapa þannig forsendur vöktunar. Að lokum er fullt tilefni til að ítreka mikilvægi þess að aldrei verði lokað alfarið fyrir rennsli Glerár, eins og dæmi eru um nú frá Djúpadal.
Skipulagsnefnd þakkar fulltrúum Landslags fyrir kynninguna.
Lagt fram til kynningar.