2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 15. janúar 2014:
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst frá 13. nóvember til 27. desember 2013.
Umsagnir voru sendar til 19 umsagnaraðila og bárust 9 umsagnir um deiliskipulagstillöguna:
1) Norðurorka dags. 20. nóvember 2013. Norðurorka gerir ekki athugasemd við tillöguna.
2) Skotfélag Akureyrar dags. 23. desember 2013.
a) Veruleg truflun yrði á starfsemi riffilvallarins ef aksturssvæðið yrði stækkað eins og tillagan gerir ráð fyrir.
b) Ekki hefur verið gerð úttekt af lögreglu á hættu vegna fyrirhugaðrar stækkunar á svæði KKA en svæðið er að hluta til í skotlínu riffilbrautar. Slíka úttekt þyrfti að gera áður en tillaga um stækkun KKA svæðisins yrði samþykkt.
c) Nýr vegur liggur í gegnum verðandi aksturssvæði og þyrfti að leysa það með undirgöngum.
3) Bílaklúbbur Akureyrar dags. 20. desember 2013.
a) Gerð er athugasemd við göngustíg meðfram Glerá og spurt hvort ekki sé nauðsynlegt að girða hann af þannig að ekki verði hægt að horfa á keppnir BA án þess að greiða aðgangseyri.
b) BA hefur áhyggjur af landsvæði vegna vatnstanks Norðurorku sem klúbburinn telur að þrengi að svæði BA við enda brautar vegna vegar sem þarf að komast fyrir þar.
c) BA hefur áhyggjur af hvernig staðið verði að drenlögnum á svæðinu og hvaða raski það muni valda á lóð BA.
4) Skipulagsstofnun dags. 18. desember 2013.
a) Stofnunin telur umhverfisskýrslu ófullnægjandi hvað varðar umfjöllun um hljóðvist. Í viðauka við reglugerð um hávaða nr. 724/2008 eru viðmiðunarmörk fyrir hávaða, m.a. á frístundasvæðum og að mati stofnunarinnar þarf að koma fram hver þau mörk eru og að leggja eigi mat á hvort hægt verði að uppfylla þau mörk, með eða án hljóðmana. Ef óvissa ríkir um hvort hægt sé að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar, þótt bætt verði við hljóðmönum, þarf að koma fram hvernig brugðist verði við starfsemi á skipulagssvæðinu, svo sem varðandi takmörkun á starfstíma.
b) Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir vöktun á hávaða, en ekki kemur fram hvað sú vöktun hefur þegar leitt í ljós.
c) Bent er á að gerð hljóðmana á síðari stigum geti kallað á frekari breytingar á deiliskipulagi.
5) Vegagerðin dags. 18. desember 2013.
Vegagerðin gerir ekki athugasemd við tillöguna.
6) Vetraríþróttamiðstöð Íslands dags. 27. desember 2013.
Viðbótarsvæði KKA, sem verið er að leggja til að stækki, mun hindra frekari uppbyggingu skíðasvæðisins neðar í fjallinu. Með því að skipuleggja lyftu á umræddu svæði myndu möguleikar skíðasvæðisins margfaldast. Er því óskað eftir að tekið verði tillit til hugsanlegra framtíðaráforma Vetraríþróttamiðstöðarinnar um lyftuframkvæmdir á viðbótarsvæði KKA.
7) Umhverfisstofnun dags. 3. janúar 2013.
Stofnunin leggur áherslu á hljóðvist og að ekki verði meiri hávaði en svo að hægt verði að stunda þá útivist sem er í boði í nágrenninu. Einnig telur stofnunin mikilvægt að áhersla verði lögð á nýtingu staðargróðurs við uppgræðslu.
8) Íþróttaráð dags. 23. nóvember 2013.
Íþróttaráð gerir ekki athugasemd við tillöguna.
9) Umhverfisnefnd dags. 11. desember 2013.
Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við tillöguna.
Engar athugasemdir bárust við deiliskipulagstillöguna á auglýsingartíma.
Svör við umsögnum:
1) Gefur ekki tilefni til svars.
2) a) Í deiliskipulagstillögunni eru sýnd öryggismörk skotsvæðis og þurfa því skot frá riffilbrautum og "skeet" svæðum að lenda innan þeirra marka. Því er gerð krafa um að öryggismön vestan riffilbrautar Skotfélagsins verði nægilega há til þess að tryggja öryggi vegfarenda um göngustíg norðan og vestan skotsvæðisins og gagnvart svæði KKA. Þá er gerð krafa um að öryggiskröfur um skotsvið í skothúsum riffilbrauta verði uppfylltar samkvæmt stöðlum. Einnig er gerð krafa um öryggisgirðingu á milli göngustígs og skotsvæðis.
b) Ef viðeigandi öryggiskröfur er uppfylldar sbr. lið 2a) ætti ekki að vera þörf á sérstakri úttekt lögreglu á svæðinu. Sjá nánar svar við nr. 2a).
c) Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir undirgöngum (röri) undir nýja aðkomu að svæði KKA og SA.
3) a) Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir að svæði BA verði girt af frá göngustígnum meðfram Glerá en Bílaklúbbnum er heimilt að skerma svæði sitt tímabundið frá stígnum ef talin er þörf á því.
b) Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir svokölluðum "tilbaka vegi" meðfram öryggissvæði bremsubrautar sem á að fullnægja þörf ökutækja til þess að komast af brautinni.
c) Fyrirhugaðar drenlagnir ofan svæðis og innan svæðis BA eru nauðsynlegar til þess að hindra ofanflóð vegna vatnsflaums. Sem stendur eru farvegir ofanjarðar fyrir þessa læki sem fyrirhugað er að koma fyrir í drenrörum sem lögð verða í jörðu. Þannig er reynt að tryggja að ekki verði skemmdir á aðstöðusvæði BA.
4) a) Ítarleg umhverfisskýrsla var unnin við gerð deiliskipulagsins 2008 og heldur hún gildi sínu. Komi í ljós að neikvæð áhrif á nærumhverfi frá stækkuðu svæði KKA á hljóðvist séu umfram viðmiðunarmörk 4. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008, töflu 1 í viðauka, verði hljóðmön framlengd til mótvægis meðfram Hlíðarfjallsvegi og upp fyrir frístundabyggðina í Hálöndum. Samhliða verði sett ákvæði í starfsleyfi svæðisins til að uppfylla kröfur um viðmiðunarmörk um hávaða. Vegna sérstakra viðburða félaganna á skipulagssvæðinu verði stuðst við ákvæði og viðmið 10. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.
b) Starfsemi á svæðinu er nú mjög takmörkuð þar sem framkvæmdum er langt því frá lokið. Ekki er því talið rétt að viðhafa vöktun á svæðinu þar sem slíkar niðurstöður myndu ekki gefa rétta mynd af heildaráhrifum þess á umhverfið í framtíðinni.
c) Gefur ekki tilefni til svars.
5) Gefur ekki tilefni til svars.
6) Starfsemi KKA hefur vaxið mikið á síðustu misserum og því nauðsynlegt að mæta þeim kröfum sem kalla á aukið landsvæði til íþróttarinnar, sem dregur að sér ferðamenn ekki síður en skíðaáhugafólk. Því er talið nauðsynlegt að úthluta félaginu stærra svæði. Tekið skal fram að um afturkræfa framkvæmd er að ræða og ætti því ekki að fyrirbyggja hugsanlegar hugmyndir um lyftuframkvæmdir tengdar skíðasvæðinu í framtíðinni.
7) Skipulagsnefnd tekur undir umsögnina sem gefur að öðru leyti ekki tilefni til svars.
8) Gefur ekki tilefni til svars.
9) Gefur ekki tilefni til svars.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Edward H. Huijbens V-lista sat hjá við afgreiðsluna og óskaði bókað að stækkun akstursíþróttasvæðis KKA og skotsvæðis SA sé misráðin og að huga þurfi að annarri staðsetningu fyrir starfsemi klúbbanna. Edward minnir á ítrekaðar bókanir V-lista um nauðsyn þess að skipuleggja útivist og afþreyingu í Hlíðarfjalli heildstætt. Ljóst má vera að vaxandi frístundabyggð og fjölgandi útivistarmöguleikum á svæðinu er skorinn of þröngur stakkur með því að stækka svæði undir aksturs- og skotíþróttir. Fyrirsjáanlegt er að til árekstra komi í framtíðinni og því stækkun svæðanna misráðin.
Erindum KKA og BA um lóðarstækkanir er vísað til umsagnar umhverfisnefndar.
Afgreiðslu málsins er frestað að öðru leyti.