5. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. ágúst 2013:
Deiliskipulagstillagan var auglýst frá 12. júní 2013 með athugasemdarfresti til 24. júlí 2013 í Lögbirtingablaðinu, Dagskránni og Fréttablaðinu. Gögnin voru aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar Akureyrarkaupstaðar, í þjónustuanddyri og hjá Skipulagsstofnun.
Umsagnir um skipulagslýsinguna bárust frá Skipulagsstofnun og Norðurorku.
Beiðni um umsögn um deiliskipulagstillöguna var send til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Isavia ohf og Vegagerðinnar. Umsagnir hafa ekki borist.
Ein athugasemd barst frá Stefáni Jóhannessyni, Aðalstræti 30.
a) Óskað er eftir að búseta verði leyfð í iðnaðarhverfinu þar sem aðstaða leyfir.
b) Gerð er athugasemd við að gámasvæði séu staðsett innan lóðar en slíkt fækkar bílastæðum innan lóða.
c) Mótmælt er að kostnaður vegna girðingar skuli allur lenda á lóðarhöfum. Hann telur að Akureyrarbær eigi að bera kostnað vegna þessa þar sem ekki var gerð krafa um girðingu við úthlutun lóðanna á sínum tíma.
Svör við athugasemdum:
a) Samkvæmt Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er búseta ekki heimiluð á athafnasvæðum.
b) Eitt af meginverkefnum deiliskipulagsins var að koma böndum á fjölda og staðsetningar gáma innan lóða en þeir eru fjölmargir á svæðinu. Þess vegna eru ákvæði um fjölda þeirra og staðsetningar sýndar á uppdrætti. Bent er þó á að lóðareigendum er í sjálfsvald sett hvort þeir nýti þau svæði undir gáma eða sem bílastæði.
c) Skipulagsnefnd fellst á að fella út kvöð um girðingu en hvetur þó eigendur til að virða lóðarmörk.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 7. lið fundargerðar bæjarstjórnar 4. júní 2013.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna.