Vegagerðin hefur að undanförnu kynnt tillögu um nýjan stofnveg, svonefnda Húnavallaleið, sem myndi stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 14 km.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista og Njáll Trausti Friðbertsson D-lista fóru á fund umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, 8.mars sl.
Tilgangur fundarins var að koma sjónarmiðum Akureyrarbæjar á framfæri varðandi styttingu leiðarinnar á milli Akureyrar og Reykjavíkur, en umhverfisráðherra á eftir að úrskurða um málið. Rætt var um umhverfislegan ávinning sem og fjárhagslegan ávinning íbúa Akureyrar í formi flutningskostnaðar, en ekki hvað síst um umferðaröryggi á umræddum köflum leiðarinnar.
Bæjarráð Akureyrarbæjar lýsir yfir vonbrigðum með að í tillögum að aðalskipulagi Húnvatnshrepps og Blönduósbæjar er ekki gert ráð fyrir að leggja megi nýjan veg um svonefnda Svínavatnsleið (Húnavallaleið) í Austur-Húnavatnssýslu.
Þessi vegur myndi stytta leiðina milli Norðausturlands og vesturhluta landsins um tæplega 14 km og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi, skemmri aksturstíma, minni eldsneytiseyðslu og mengun og lægri flutningskostnaði og þar með aukinni samkeppnishæfni Norðausturlands. Þetta er vafalítið eitt af stærstu hagsmunamálum fyrirtækja og íbúa á Akureyri.
Bæjarráð skorar á fyrrgreind sveitarfélög að endurskoða tillögurnar.