Fræðsluráð

18. fundur 24. september 2018 kl. 13:30 - 17:03 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen formaður
  • Heimir Haraldsson
  • Rósa Njálsdóttir
  • Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir
  • Marsilía Dröfn Sigurðardóttir
  • Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Árni Konráð Bjarnason forstöðumaður rekstrardeildar
  • Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs
Dagskrá
Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir L-lista sat fundinn í forföllum Hildar B. Kristjánsdóttur.
Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista sat fundinn í forföllum Þórhalls Harðarsonar.

Sigurður Freyr Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara og Jóhann Gunnarsson fulltrúi foreldra grunnskólabarna mættu ekki til fundar.

Í upphafi fundar leitaði formaður fræðsluráðs afbrigða frá fundarsköpum um að fundarliður 2 verði tekinn á dagskrá í lok fundar. Engar athugasemdir voru gerðar við tillöguna.

1.Gæðamat skólaárið 2017-2018

Málsnúmer 2018080766Vakta málsnúmer

Lagt var fram til kynningar bréf frá framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar um gæðamat á starfi skólanna þar sem fjallað er um styttingu vinnuvikunnar, kannanir til foreldra, starfsánægju og gæðainnlit í skólana.

2.Viðauki vegna aukins stuðnings í leikskólum

Málsnúmer 2018090324Vakta málsnúmer

Elva Haraldsdóttir kennsluráðgjafi kom á fundinn og gerði grein fyrir erindinu.

Vegna fjölgunar barna sem þurfa á sérúrræðum að halda er óskað eftir viðbótarfjármagni að upphæð kr. 10.500 þús. Einnig er óskað eftir fjármagni að upphæð 1.300 þús vegna aukningar stöðuhlutfalls sérkennslustjóra. Samtals hljóðar viðaukinn upp á 11.800 þús.
Málinu er vísað til 2. umræðu í fræðsluráði skv. verklagsreglum Akureyrarkaupstaðar.

3.Viðauki vegna Lautarinnar á Tröllaborgum

Málsnúmer 2018090325Vakta málsnúmer

Árni Konráð Bjarnason forstöðumaður rekstrar skýrði ástæður viðaukans sem eru vegna villu í launa- og dreifingaráætlun 2018. Óskað er eftir viðbótarfjárhæð kr. 6.066 þús.
Málinu er vísað til 2. umræðu í fræðsluráði skv. verklagsreglum Akureyrarkaupstaðar.

4.Gjaldskrár fræðslusviðs 2019

Málsnúmer 2018080863Vakta málsnúmer

Árni Konráð Bjarnason forstöðumaður rekstrar fór yfir tillögur um gjaldskrár fyrir árið 2019.

Gert er ráð fyrir hækkun á vistunar- og fæðisgjöldum í leik- og grunnskólum um 3,0%. Þá er einnig lagt til að gjaldskrá Tónlistarskólans hækki um 3,0%.
Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista gera svohljóðandi tillögu að breytingu á framlagðri tillögu að gjaldskrá fræðslusviðs:

Lagt er til að ávaxta- og mjólkuráskrift í grunnskólum Akureyrarbæjar verði gjaldfrjáls frá og með 1. janúar 2019. Einnig verði boðið upp á frían hafragraut í morgunmat í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar. Jafnframt er lagt til að ekki verði heimiluð hækkun á gjaldskrá vegna hádegisverðar í grunnskólum Akureyrarbæjar.

Meirihluti fræðsluráðs hafnar tillögu fulltrúa M-lista, V-lista og D-lista á þeim forsendum að áætlaður kostnaður tillögunnar liggur ekki fyrir og því ekki hægt að taka afstöðu til málsins.

Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista gera svohljóðandi tillögu að breytingu á framlagðri tillögu að gjaldskrá fræðslusviðs:

Lagt er til að ekki verði heimiluð hækkun á gjaldskrá vegna fæðis í grunnskólum Akureyrarbæjar.

Meirihluti fræðsluráðs hafnar tillögunni með þremur atkvæðum gegn atkvæðum Rósu Njálsdóttur M-lista og Marsilíu Drafnar Sigurðardóttur D-lista.

Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Lækkun eða afnám fæðisgjalda í grunnskólunum er einn þáttur í því að koma til móts við barnafjölskyldur hvað varðar útgjöld, minnka álag á heimilum og stuðla á þann hátt að því að öll börn myndu hefja sinn skóladag mett og í góðu jafnvægi. Það myndi samrýmast þeim áherslum sem Barnasáttmáli Unicef felur í sér, en eitt af markmiðum hans er að tryggja réttindi barna í daglegu lífi. Akureyri verður fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að nýta sér innleiðingarlíkan Barnasáttmálans og tekur þátt í tilraunaverkefni við þróun þess.

Meirihluti fræðsluráðs gerir svohljóðandi bókun:

Gengið hefur verið út frá því að gjaldskrá mötuneyta í leikskólum standi undir hráefniskostnaði og gjaldskrá mötuneyta í grunnskólum standi undir bæði hráefnis- og rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir að 3% hækkunin sem lögð er fram muni mæta auknum hráefniskostnaði í leikskólum og grunnskólum árið 2019. Nú þegar er hafragrautur í boði fyrir grunnskólanemendur í byrjun dags í flestum skólum. Sviðsstjóra hefur verið falið að gera úttekt á málinu og kanna möguleikann á að bjóða upp á hafragraut í öllum grunnskólum bæjarins.

Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagðar tillögur um 3% hækkun á vistunargjöldum í leik- og grunnskólum. Fulltrúar M-lista og D-lista sátu hjá við afgreiðslu málsins. Fræðsluráð vísar tillögunni til bæjarráðs.

Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagða tillögu um 3% hækkun á fæðisgjöldum í leik- og grunnskólum. Fulltrúi M-lista og D-lista greiddu atkvæði gegn tillögunni. Fræðsluráð vísar tillögunni til bæjarráðs.

Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagða tillögu um 3% hækkun á gjaldskrá Tónlistarskólans. Fulltrúi M-lista og D-lista sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar. Fræðsluráð vísar tillögunni til bæjarráðs.

5.Fjárhagsáætlun fræðslusviðs 2019-2022

Málsnúmer 2018060289Vakta málsnúmer

Lögð var fram tillaga að fjárhagsáætlun fræðslu- og uppeldismála fyrir árið 2019 ásamt starfsáætlun. Tillagan gerir ráð fyrir því að það vanti kr. 54.636.000 upp á að rekstur ársins rúmist innan útgefins ramma sem er kr. 7.303.275.000.
Fræðsluráð samþykkir samhljóða framlagða starfsáætlun fyrir árið 2019.

Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að opnunartími leikskóla Akureyrarbæjar verði frá kl. 7:40 - 16:30 frá 1. janúar 2019.

Fulltrúar M-lista og D-lista greiddu tillögunni atkvæði. Meirihluti fræðsluráðs greiddi atkvæði gegn tillögunni á þeim forsendum að áætlaður kostnaður tillögunnar liggur ekki fyrir né heldur greining á þörf foreldra fyrir auknum opnunartíma.

Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að sumarlokun leikskóla Akureyrarbæjar verði 2 vikur sumarið 2019 og skoðað í framhaldi af því hvort framhald verði á ef vel tekst til.

Tillagan er felld með þremur atkvæðum fulltrúa meirihlutans gegn tveimur atkvæðum fulltrúa M-lista og D-lista.

Rósa Njálsdóttir M-lista, Marsilía Dröfn Sigurðardóttir D-lista og Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi V-lista gera svohljóðandi bókun:

Í ljósi þess að tillögum varðandi rýmri opnunartíma leikskólanna var hafnað vill minnihlutinn árétta að með þessu móti hefði verið hægt að koma til móts við fjölskyldur ungra barna sem vegna atvinnu sinnar hafa oftar en ekki knappan tíma til að koma börnum í og úr vistun leikskólanna. Sumarlokun í tvær vikur hefði þau jákvæðu áhrif að foreldrar gætu á þann hátt skipulagt sumarfrí sín yfir lengra tímabil en verið hefur.

Meirihluti fræðsluráðs gerir svohljóðandi bókun:

Kannanir hafa sýnt að mikill meirihluti foreldra er ánægður með núverandi fyrirkomulag auk þess sem lenging á opnunartíma leiðir til óhagræðis í mönnun og rekstri leikskóla. Jafnframt liggur ekki fyrir kostnaðarmat á tillögunni.

Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagða tillögu að fjárhagsáætlun 2019. Fulltrúar M-lista og D-lista sátu hjá við afgreiðslu málsins. Tillögunni er vísað til bæjarráðs.
Jón Baldvin Hannesson vék af fundi meðan á afgreiðslu 5. liðar stóð, kl. 15:58.

Fundi slitið - kl. 17:03.