Bæjarstjórn

3560. fundur 18. mars 2025 kl. 16:00 - 17:21 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Heimir Örn Árnason
  • Hlynur Jóhannsson
  • Jón Hjaltason
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir
  • Gunnar Már Gunnarsson
  • Andri Teitsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá

1.Breytingar í nefndum - skipulagsráð

Málsnúmer 2025030020Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Jóns Hjaltasonar óflokksbundins, um breytingu á skipan varamanns í skipulagsráði. Halla Birgisdóttir Ottesen verði varamaður í stað Skarphéðins Birgissonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2025-2028 - viðauki

Málsnúmer 2024040694Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 13. mars 2025:

Lagður fram viðauki 2.

Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir viðauka 2 og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

Heimir Örn Árnason kynnti.

Bæjarstjórn samþykkir viðauka 2 með 11 samhljóða atkvæðum. Viðaukinn er fyrst og fremst til kominn vegna kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands. Útgjaldaaukning vegna viðaukans er samtals 436 m.kr.

3.Norðurslóð - umsókn um lóð fyrir stúdentagarða

Málsnúmer 2025030249Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2025:

Lagt fram erindi Jóhannesar B. Guðmundssonar dagsett 6. mars 2025, f.h. Fésta þar sem formlega er sótt um lóð D við Norðurslóð á Háskólasvæðinu til samræmis við nýsamþykkta deiliskipulagsbreytingu.

Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið en þar sem um er að ræða úthlutun lóðar án auglýsingar er afgreiðslu málsins vísað til bæjarstjórnar.

Andri Teitsson kynnti.

Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að lóð D við Norðurslóð verði úthlutað til Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri án auglýsingar með vísun í heimild í gr. 2.3 í reglum bæjarins um úthlutun lóða.

4.Hafnarstræti Göngugatan - sumarlokun frá júní - ágúst

Málsnúmer 2024050988Vakta málsnúmer

Liður 8 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2025:

Lagt fram minnisblað þar sem settir eru fram nokkrir kostir varðandi tímabil á lokun gatna í miðbænum sumarið 2025, byggt á reynslu síðasta sumars og fyrirliggjandi óskum um stækkun lokunarsvæðis. Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Steindór Ívar Ívarsson forstöðumaður viðhalds á umhverfis- og mannvirkjasviði kynntu ástand yfirborðs efna í göngugötunni.

Skipulagsráð þakkar Guðríði og Steindóri fyrir kynninguna. Skipulagsráð tekur jákvætt í að göngugötunni verði lokað frá 1. maí til 30. september vegna slæms ástands yfirborðs götunnar og komu skemmtiferðaskipa á þessu tímabili. Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að gerð verði breyting á verklagsreglum fyrir tímabundnar lokanir gatna sem felur í sér lengingu á tímabili lokunar til samræmis við það. Ráðið leggur jafnframt til að settar verði þungatakmarkanir á götuna og að notkun nagladekkja verði bönnuð. Meirihluti skipulagsráðs felur skipulagsfulltrúa í samstarfi við umhverfis- og mannvirkjasvið að vinna að útfærslu þessa. Varðandi hugmyndir um lokanir á hluta Skipagötu þá felur ráðið skipulagsfulltrúa að senda fyrirliggjandi tillögur til hagsmunaðila við götuna og óska eftir áliti þeirra.

Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista samþykkir bókunina nema bann við notkun nagladekkja.

Sindri S. Kristjánsson S-lista óskar bókað: Fulltrúi Samfylkingarinnar styður heilshugar áform meirihluta skipulagsráðs um að halda áfram á þeirri gæfubraut sem mörkuð var síðasta sumar með lokun göngugötunnar og nú með lengingu tímabilsins. Á sama tíma eru það vonbrigði að meirihlutinn sjái sér ekki á þessum tímapunkti fært að koma til móts við hugmyndir og óskir rekstraraðila að loka litlum hluta Skipagötu á sama tímabili. Sami rekstraraðili hefur ítrekað sýnt vilja sinn í verki til að glæða miðbæinn okkar lífi yfir sumarmánuðina með frumlegu viðburðahaldi utandyra þar sem komið er til móts við alla aldurshópa og fjölbreytta flóru ferðamanna. Á meðal bæði bæjarbúa og þeirra sem okkur heimsækja heyrist stundum að ekki sé úr mikilli afþreyingu eða fjölbreyttri menningu í bænum að moða. Bæjaryfirvöld eiga að styðja við frumkvæði lítilla fyrirtækja í bænum sem reyna hvað sem þau geta til að gera bæinn okkar skemmtilegri. Það má hafa gaman.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Til máls tók Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og lagði fram svofellda tillögu:

Að sá hluti Hafnarstrætis sem í daglegu tali er vísað til sem göngugötu sé lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja allan ársins hring að undanskildum P-merktum bílum, ökutækjum viðbragðsaðila sem og að aðföng rekstraraðila komist að á afmörkuðum tíma dags.

Þá tóku til máls Hlynur Jóhannsson, Heimir Örn Árnason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir og Jón Hjaltason.


Fyrst voru greidd atkvæði um tillögu Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur.

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir greiddi atkvæði með tillögunni, Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson sitja hjá, Heimir Már Árnason, Halla Björk Reynisdóttir, Hlynur Jóhannsson, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Andri Teitsson og Jón Hjaltason greiddu atkvæði gegn tillögunni. Tillagan var felld.


Þá voru greidd voru atkvæði um tillögur skipulagsráðs.

Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að gerð verði breyting á samþykkt Akureyrarbæjar um verklagsreglur fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja sem felur í sér að göngugatan verði lokuð frá 1. maí til 30. september 2025.

Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að þungatakmarkanir sem miðast við þriggja tonna heildarþunga, verði settar á göngugötuna.

Halla Björk Reynisdóttir og Jón Hjaltason greiddu atkvæði með því að óheimilt væri að aka göngugötuna á nagladekkjum. Heimir Örn Árnason, Hlynur Jóhannsson, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Andri Teitsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson greiddu atkvæði gegn tillögunni. Jana Salóme Ingibjargar Jósepdóttir og Hilda Jana Gísladóttir sitja hjá. Tillagan var felld.


Fulltrúar L-lista, D-lista og M-lista óska bókað:

Við teljum í ljósi jákvæðrar reynslu á lokun göngugötunnar yfir sumarmánuði á síðasta ári, næsta skref vera að lengja það tímabil til samræmis við komur skemmtiferðarskipa til bæjarins. Frekari lokun þarfnist meiri undirbúnings og sé ekki tímabær.


Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óskar bókað:

Í ljósi ástands þess hluta Hafnarstrætis sem í daglegu tali er vísað til sem göngugötu tel ég ekki forsvaranlegt að halda áfram að hleypa umferð vélknúinna ökutækja í gegn. Þá tel ég einnig að það sé gott fyrir blómlega bæinn okkar að loka fyrir umferð vélknúinna ökutækja allan ársins hring. Ég fagna þó lengingu á tímabili lokunar og tel það farsælt skref þó ég hefði viljað ganga lengra.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað:

Við erum opin fyrir því að skoða lokun göngugötunnar árið um kring en aðeins að undangengnu samráði við hagaðila í miðbænum, þar sem mismunandi sjónarmiðum er stefnt saman og þau vegin. Við teljum mikilvægt að taka ákvörðun um framtíðarskipulag göngugötunnar og svæðisins í kring, svo umhverfis- og mannvirkjasvið geti hafið hönnun og ráðist í mikilvægar endurbætur. Vegna ástandsins á götunni þá er nauðsynlegt að setja á hana þungatakmarkanir, og má benda á að um allt land tíðkast að setja slíkar takmarkanir á vegi þegar þörf krefur. Við teljum það hins vegar ekki raunhæft að banna notkun nagladekkja í þessari einu götu, hvorki hvað varðar eftirfylgni né þegar kemur að því að miðla slíku banni til bæjarbúa og gesta.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista óskar bókað:

Tillaga skipulagsráðs að verklagsreglum fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja er enn eitt skref í jákvæðri þróun. Vonandi verður einnig vilji til þess að loka litlum hluta Skipagötu á sama tímabili, enda gæti það aukið gæði útiveru og möguleika til viðburðarhalds að sumarlagi.

Hins vegar er yfirborð göngugötunnar orðið það slæmt að ekki er lengur hægt að viðhalda umferð á henni án umfangsmikilla viðgerða. Verði slíkum viðgerðum ekki lokið fyrir haustið er erfitt að sjá hvernig hleypa á umferð vélknúinna ökutækja um götuna á ný án þess að hætt sé við því að t.a.m. snjóbræðslukerfi eyðileggist enn frekar.

Löngu tímabært er að fara í allsherjar endurbætur á göngugötunni og Ráðhústorgi, á grundvelli heildarsýnar, fremur en að reyna í sífellu einhvers konar bútasaum með minni háttar lagfæringum.Tryggja þarf nauðsynlegt fjármagn til þess að svo geti orðið.

5.Miðbær - uppbygging

Málsnúmer 2025030773Vakta málsnúmer

Rætt um skipulagsmál og helstu framkvæmdir í miðbæ Akureyrar.

Málshefjandi er Halla Björk Reynisdóttir.

Til máls tóku Gunnar Már Gunnarsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Jón Hjaltason, Hlynur Jóhannsson, Hilda Jana Gísladóttir og Halla Björk Reynisdóttir.

6.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2023010626Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 7. mars 2025
Bæjarráð 6. og 13. mars 2025
Skipulagsráð 12. mars 2025
Umhverfis- og mannvirkjaráð 4. mars 2025
Velferðarráð 24. febrúar 2025


Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:21.