Málsnúmer 2024050988Vakta málsnúmer
Liður 8 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2025:
Lagt fram minnisblað þar sem settir eru fram nokkrir kostir varðandi tímabil á lokun gatna í miðbænum sumarið 2025, byggt á reynslu síðasta sumars og fyrirliggjandi óskum um stækkun lokunarsvæðis. Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Steindór Ívar Ívarsson forstöðumaður viðhalds á umhverfis- og mannvirkjasviði kynntu ástand yfirborðs efna í göngugötunni.
Skipulagsráð þakkar Guðríði og Steindóri fyrir kynninguna. Skipulagsráð tekur jákvætt í að göngugötunni verði lokað frá 1. maí til 30. september vegna slæms ástands yfirborðs götunnar og komu skemmtiferðaskipa á þessu tímabili. Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að gerð verði breyting á verklagsreglum fyrir tímabundnar lokanir gatna sem felur í sér lengingu á tímabili lokunar til samræmis við það. Ráðið leggur jafnframt til að settar verði þungatakmarkanir á götuna og að notkun nagladekkja verði bönnuð. Meirihluti skipulagsráðs felur skipulagsfulltrúa í samstarfi við umhverfis- og mannvirkjasvið að vinna að útfærslu þessa. Varðandi hugmyndir um lokanir á hluta Skipagötu þá felur ráðið skipulagsfulltrúa að senda fyrirliggjandi tillögur til hagsmunaðila við götuna og óska eftir áliti þeirra.
Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista samþykkir bókunina nema bann við notkun nagladekkja.
Sindri S. Kristjánsson S-lista óskar bókað: Fulltrúi Samfylkingarinnar styður heilshugar áform meirihluta skipulagsráðs um að halda áfram á þeirri gæfubraut sem mörkuð var síðasta sumar með lokun göngugötunnar og nú með lengingu tímabilsins. Á sama tíma eru það vonbrigði að meirihlutinn sjái sér ekki á þessum tímapunkti fært að koma til móts við hugmyndir og óskir rekstraraðila að loka litlum hluta Skipagötu á sama tímabili. Sami rekstraraðili hefur ítrekað sýnt vilja sinn í verki til að glæða miðbæinn okkar lífi yfir sumarmánuðina með frumlegu viðburðahaldi utandyra þar sem komið er til móts við alla aldurshópa og fjölbreytta flóru ferðamanna. Á meðal bæði bæjarbúa og þeirra sem okkur heimsækja heyrist stundum að ekki sé úr mikilli afþreyingu eða fjölbreyttri menningu í bænum að moða. Bæjaryfirvöld eiga að styðja við frumkvæði lítilla fyrirtækja í bænum sem reyna hvað sem þau geta til að gera bæinn okkar skemmtilegri. Það má hafa gaman.
Halla Björk Reynisdóttir kynnti.
Til máls tók Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og lagði fram svofellda tillögu:
Að sá hluti Hafnarstrætis sem í daglegu tali er vísað til sem göngugötu sé lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja allan ársins hring að undanskildum P-merktum bílum, ökutækjum viðbragðsaðila sem og að aðföng rekstraraðila komist að á afmörkuðum tíma dags.
Þá tóku til máls Hlynur Jóhannsson, Heimir Örn Árnason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir og Jón Hjaltason.