Bæjarstjórn

3505. fundur 01. febrúar 2022 kl. 16:00 - 16:50 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Andri Teitsson
  • Hlynur Jóhannsson
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Heimir Haraldsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Tryggvi Már Ingvarsson
  • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Tryggvi Már Ingvarsson B-lista mætti í forföllum Gunnfríðar Elínar Hreiðarsdóttur.
Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista mætti í forföllum Gunnars Gíslasonar.

Í upphafi fundar las forseti bæjarstjórnar upp eftirfarandi minningarorð:

Ingibjörg Ragnheiður Magnúsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi á Akureyri og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, andaðist á Hjúkrunarheimilinu Grund að kvöldi 20. janúar sl., 98 ára að aldri.
Ingibjörg fæddist 23. júní 1923 á Akureyri. Hún lauk gagnfræðaprófi frá MA, íþróttakennaranámi frá Íþróttaskóla Björns Jakobssonar á Laugarvatni 1943 og húsmæðraskólanámi í Uppsölum í Svíþjóð 1948. Þá lauk hún prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1961 og stundaði framhaldsnám í hjúkrunarkennslu og spítalastjórn við Sygeplejeskolen í Árósum 1964-1965. Síðar lauk hún stúdentsprófi við öldungadeild MH.
Ingibjörg kenndi fimleika á Siglufirði og í Reykjavík, sund á Suðureyri, í Miðfirði og víðar. Hún tók við stöðu hjúkrunarforstjóra við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þegar hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræðináminu og var þar í tíu ár. Hún kom á fót fyrsta sjúkraliðanámi hér á landi og brautskráði fyrstu sjúkraliðana vorið 1966 og fann raunar upp nafnið sjúkraliði. Hún var einn af brautryðjendum námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og gegndi stöðu námsbrautarstjóra 1975-1990. Árið 1971 hóf hún störf í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og var skrifstofustjóri 1989-1993.
Ingibjörg var varabæjarfulltrúi á Akureyri kjörtímabilið 1966-1970 og var kosin aðalfulltrúi í bæjarstjórn Akureyrar 1970 og gegndi því þar til hún réðst til starfa í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu um mitt ár 1971.
Bæjarstjórn vottar aðstandendum Ingibjargar samúð sína, um leið og henni eru þökkuð störf í þágu bæjarfélagsins.

1.Hofsbót 2 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2021110347Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 26. janúar 2022:

Auglýsingu deiliskipulagstillögu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er lokið. Fjórar athugasemdir bárust auk umsagna frá Minjastofnun Íslands og Norðurorku.

Í ljósi athugasemda við auglýsta skipulagstillögu leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að hún samþykki fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar með þeirri breytingu að fimmta hæð fyrirhugaðrar byggingar við Hofsbót 2 verði felld út úr tillögunni. Er skipulagsfulltrúa falið að útbúa drög að umsögn um efni athugasemda í samræmi við umræður á fundinum sem lögð verða fram við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar með þeirri breytingu að fimmta hæð fyrirhugaðrar byggingar við Hofsbót 2 verði felld út úr tillögunni.

2.Safnastefna Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2014110087Vakta málsnúmer

Liður 8 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 2. desember 2021:

Safnastefna Akureyrarbæjar lögð fram til afgreiðslu.

Stefnan var samþykkt af stjórn Akureyrarstofu 9. júní sl. og vísað til umfjöllunar í bæjarráði. Bæjarráð frestaði afgreiðslu stefnunnar á fundi sínum 10. júní sl. og vísaði henni til umsagnar öldungaráðs og ungmennaráðs. Þær umsagnir liggja nú fyrir.

Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður Akureyrarstofu sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir safnastefnuna og aðgerðaáætlunina fyrir sitt leyti með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum og vísar henni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Hilda Jana Gísladóttir kynnti stefnuna.

Í umræðum tóku til máls Eva Hrund Einarsdóttir, Andri Teitsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Hilda Jana Gísladóttir.
Bæjarstjórn samþykkir safnastefnuna og aðgerðaáætlunina með 11 samhljóða atkvæðum, þó með þeirri breytingu að í kaflanum um móttöku nýrra safna bætist við í a lið eftirfarandi: „Hópurinn skilar skriflegu rökstuddu áliti til bæjarráðs að lokinni vinnu sinni.“

3.Húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2019020182Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 27. janúar 2022:

Lögð fram endurskoðuð húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar.

Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 16. desember sl.

Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð vísar húsnæðisáætlun til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti húsnæðisáætlunina.

Í umræðum tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir, Andri Teitsson, Þórhallur Jónsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Eva Hrund Einarsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir húsnæðisáætlunina með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2022010392Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá því hún flutti skýrslu á fundi bæjarstjórnar í desember síðastliðnum.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 14., 20. og 27. janúar 2022
Bæjarráð 20. og 27. janúar 2022
Fræðslu- og lýðheilsuráð 24. janúar 2022
Skipulagsráð 26. janúar 2022
Umhverfis- og mannvirkjaráð 21. janúar 2022

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 16:50.