Málsnúmer 2018010252Vakta málsnúmer
Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 15. maí 2019:
Lagðar fram tvær tillögur að breytingum á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis Rangárvalla. Breytingarnar eru eins nema hvað varðar stærð og afmörkun lóðar nr. 4 og byggingarreits sem á henni er. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir endurskoðun skilmála, afmörkun byggingarreits á lóð nr. 3 vegna stækkunar núverandi húss auk þess sem gert er ráð fyrir að lóð nr. 6 falli út.
Þá er jafnframt lagt fram minnisblað skipulagsráðgjafa dagsett 27. mars 2019 þar sem farið er yfir viðbrögð við umsögnum sem borist hafa frá Landsneti, Rarik, Norðurorku, heilbrigðisnefnd, SS Byggi og hverfisnefnd Giljahverfis.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkt verði að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga sem gerir ráð fyrir stækkun á lóð nr. 4 og byggingarreit sem á henni er.
Málið var áður á dagskrá bæjarstjórnar 21. maí sl. og var afgreiðslu þá frestað og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að kalla eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um tillögu skipulagsráðs.
Ingibjörg Ólöf Isaksen kynnti tillögu skipulagsráðs og lagði jafnframt til, fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar, að tillögu skipulagsráðs um breytingu á deiliskipulagi sem heimilar stækkun á stærð og afmörkun lóðar nr. 4 og byggingarreits sem á henni er verði hafnað. Þess í stað verði samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi sem gerir ekki ráð fyrir stækkun á lóð og byggingarreit lóðar nr. 4 skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Að auki verði gert ráð fyrir að í kafla 5.3.1. í greinargerð deiliskipulagsins verði eftirfarandi setningu bætt við: Vegna nálægðar við háspennumannvirki Landsnets og Rarik og vegna nálægðar við íbúðabyggð Giljahverfis er rykmyndandi starfsemi, s.s. steypustöð, ekki heimil á svæðinu.
Í umræðum tóku til máls Þórhallur Jónsson, Hilda Jana Gísladóttir, Hlynur Jóhannsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Þórhallur Jónsson (í annað sinn) og Ingibjörg Ólöf Isaksen.
Hildur Betty Kristjánsdóttir L-lista mætti í forföllum Andra Teitssonar.
Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista mætti í forföllum Gunnars Gíslasonar.
Í upphafi fundar las forseti eftirfarandi minningarorð:
Heimir Björn Ingimarsson fyrrverandi bæjarfulltrúi lést 7. júní síðastliðinn og var útför hans gerð frá Akureyrarkirkju í dag. Hann fæddist á Bíldudal 19. janúar 1937.
Heimir var menntaður húsasmiður en starfaði lengi sem framkvæmdastjóri.
Heimir gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í stjórnmálum. Hann sat í bæjarstjórn Akureyrarbæjar fyrir Alþýðubandalagið á árunum 1986-1998, samtals í 12 ár. Jafnframt átti hann sæti í ýmsum nefndum og ráðum á vegum bæjarins, m.a. í bæjarráði, bygginganefnd, atvinnumálanefnd, framkvæmdanefnd, hafnarstjórn og stjórn veitustofnana.
Eiginkona Heimis til 61 árs var Stefanía Rósa Sigurjónsdóttir en hún lést 15. febrúar sl. Þau eignuðust fjögur börn.
Bæjarstjórn vottar aðstandendum Heimis Ingimarssonar samúð sína um leið og honum eru þökkuð fórnfús störf í þágu bæjarfélagsins.
Forseti bað fundarmenn að heiðra minningu Heimis Ingimarssonar með því að rísa úr sætum.