Málsnúmer 2017110379Vakta málsnúmer
8. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 14. febrúar 2018:
Erindi dagsett 23. nóvember 2017 þar sem Ómar Ívarsson fyrir hönd Hafnasamlags Norðurlands, kt. 650371-2919, sækir um heimild til að leggja fram breytt deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Breytingin felst í stækkun Torfunefsbryggju. Breytt erindi var lagt fram í skipulagsráði 10. janúar 2018. Skipulagsráð heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi.
Tillagan er dagsett 14. febrúar 2018 og unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi.
Skipulagsráð leggur áherslu á að í deiliskipulaginu skuli vera ákvæði um að almennt skuli vera fullt aðgengi að bryggjunni. Lokunum skal beitt í undantekningatilfellum.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Edward Hákon Huibens V-lista óskar bókað:
Eðlilegt væri að meta umhverfisáhrif af fyrirhugaðri hafnarframkvæmd. Ekki er það síst til að meta umfang loftmengunar af skemmtiferðaskipum sem fyrirhugað er að nýti viðlegukantinn. Helst verða það minni skip (svo kölluð könnuðarskip) sem vill svo til að eru jafnan meðal þeirra elstu sem sækja Ísland heim. Vegna aldurs og stærðar eru sístar líkur á mengunarvörnum um borð og mengun þannig hlutfallslega verst frá þessum skipum. Erlendis eru staðfestar mælingar á t.d. nituroxíð (NOx) yfir heilsuverndarmörkum í útblæstri skipa og engin ástæða til að ætla að málum sé öðruvísi farið hér við land. Svo kölluð könnuðarskip eru einnig líkleg til að dveljast lengur í höfn, jafnvel eina til tvær nætur og því staðbundin mengun enn meiri. Þetta verður að teljast sérstakt áhyggjuefni vegna nálægðar byggðar við Austurbrú og vegna fyrirhugaðrar byggðar á Skipagötureit. Þessu verður að gera ítarlega grein fyrir og þá samhliða hvaða mótvægisaðgerða skal grípa til, s.s. viðvarandi mælinga og rafmagnstengingar við land. Auk þessa þarf að gera vandlega grein fyrir hvernig móttöku úrgangs verður háttað á þessum viðlegukanti.