Málsnúmer 2011030090Vakta málsnúmer
Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri sagði frá námskeiði sem hann sótti um kynjaða fjárhagsáætlanagerð.
Einnig lögð fram eftirfarandi tillaga Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur V-lista sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 15. mars sl. að vísa til bæjarráðs:
Í tilefni af umræðu um þriggja ára fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar leggur bæjarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til að fylgt verði markaðri stefnu ríkisins og horft til áhrifa ráðstöfunar fjármuna á konur og karla og tekin upp vinnubrögð kynjaðrar fjárlagagerðar. Kynjuð fjárhagsáætlanagerð sem þessi kallar á breytingar í hugsun og ekki síður í verki en slíkar breytingar eru nauðsynlegar til að auka jafnrétti kynjanna, en tilgangurinn er að tryggja að allir bæjarbúar sitji við sama borð óháð kyni eins og lög gera ráð fyrir. Kynjuð fjárlagagerð horfir á fjárhagsáætlanaferlið út frá áhrifum á kynin. Þannig er tekju- og gjaldahlið fjárhagsáætlunar endurskipulögð til að tryggja að ráðstöfun fjármuna hafi jöfn áhrif á konur og karla. Á tímum niðurskurðar líkt og blasa við okkur nú er mjög mikilvægt að greina áhrif hagræðingaraðgerða á karla og konur og ekki er síður mikilvægt að auka gagnsæi í fjármálum sveitarfélagsins og gera enn betur sýnilegt hvernig opinberu fé er varið, en kynjuð fjárhagsáætlanagerð stuðlar einmitt að þeim markmiðum.
Bæjarráð þakkar Jóni Braga kynninguna.
Bæjarráð telur bæði sjálfsagt og eðlilegt að hugmyndafræði kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar sé höfð til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar og að samfélags- og mannréttindaráð taki málið upp og skoði hvort og hvernig þessi aðferðarfræði getur gagnast bæjarfélaginu.
Bæjarráð vill ennfremur leggja áherslu á að fyrirkomulag við fjárhagsáætlanagerð, ásamt jafnréttisáætlun bæjarins, sem og fjölmargar vinnureglur, samþykktir og lög sem unnið er eftir séu vel til þess fallin að tryggja jafnan rétt íbúa sveitarfélagsins, óháð kyni, efnahag, kynþætti eða þjóðerni.