Málsnúmer 2020030456Vakta málsnúmer
Kynnt erindi dagsett 13. mars 2020 frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) sem ætla hér eftir að senda sveitarfélögum og eftir atvikum öðrum hagaðilum, upplýsingar um mál sem eru til umsagnar hjá stjórnvöldum. Felst það í því að senda reglulega upplýsingar um slík mál, vekja athygli á þeim og fresti til að skila umsögn. SSNE verða einnig til taks til að aðstoða sveitarfélögin við ritun umsagna og samræma slíka vinnu þegar fleiri en eitt sveitarfélag vilja sameinast um umsagnir.
Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á þjónustu leik- og grunnskóla hefur þegar verið brugðist við með breytingu á gjaldtöku þannig að ekki er greitt vegna þjónustu sem ekki er innt af hendi. Engir reikningar verða sendir út vegna skólavistunar og skólamáltíða í grunnskólum fyrir apríl og haldið verður utan um leiðréttingar vegna skertrar þjónustu frá 16.-31. mars 2020. Ekki verður endurgreitt vegna skertar þjónustu heldur horft til þess að inneign gangi upp í þjónustu síðar á skólaárinu.
Leikskólagjöld taka breytingum í samræmi við veitta þjónustu, þ.e. ef barn er annað hvern dag í leikskólanum er innheimt 50% gjald. Þurfi að loka leikskóla fyrir öllum öðrum en forgangshópi er ekki innheimt gjald fyrir þá sem verða fyrir lokun. Þá er ekki innheimt gjald fyrir börn sem foreldrar hafa heima á tímabilinu sem takmörkun á skólahaldi nær til. Niðurfellingin fæst aðeins ef fjarveran er samfelld og/eða reglubundin. Nauðsynlegt er að tilkynna fjarveruna til skólastjórnenda viðkomandi leikskóla. Leiðrétting á skertri þjónustu vegna marsmánaðar fer fram samhliða útgáfu á reikningi vegna aprílmánaðar.
Greiðsluseðlar vegna aprílmánaðar í Tónlistarskólanum verða ekki sendir út fyrr en ljóst er hvernig kennslu verður háttað þar næstu vikurnar. Þá hefur frístundaráð samþykkt að framlengja 6 og 12 mánaða kort í sundlaugar Akureyrar um þann tíma sem laugarnar verða lokaðar.
Bæjarráð staðfestir þessar ákvarðanir og felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna viðauka vegna breytinganna.