Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Í dag var tilkynnt á Vorkomu Akureyrarstofu um val á bæjarlistamanni Akureyrar 2017-2018 og varð rithöfundurinn og tónlistarmaðurinn Orri Harðarson þess heiðurs aðnjótandi. Orri á að baki langan feril sem tónlistarmaður en hefur síðustu árin snúið sér að ritlisinni. Hann hefur gefið út nokkrar skáldsögur og er með fleiri í bígerð auk þess sem lagasmíðar fyrir nýja plötu eru hafnar.
Einng var veitt viðurkenning úr Húsverndarsjóði og var hún veitt þeim Kristni Björnssyni og Eddu Friðgeirsdóttur fyrir viðgerðir og endurbætur á Aðalstræti 32 sem er eitt þeirra fallegu húsa sem prýða Innbæinn á Akureyri. Þá voru veitt byggingarlistarverðlaun og féllu þau í hlut Fanneyjar Hauksdóttur arkitekts fyrir hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð sem þykir hafa heppnast afar vel með tilliti til þeirrar starfsemi sem þar fer fram en á heimilinu er unnið eftir svokallaðri Eden-stefnu.
Akureyrarstofa veitir að auki heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs og er hún veitt einstaklingi sem hefur með framlagi sínu stutt við og auðgað menningarlíf bæjarins. Í ár varð fyrir valinu handverkskonan Jenný Karlsdóttir en hún hefur lagt mikið af mörkum við að varðveita og upphefja íslenska menningararfinn. Jenný hefur um langa hríð safnað munstrum og gert þau aðgengileg fyrir almenning. Hún heldur úti heimasíðunni munstur.is þar sem sjá má feiknin öll af heimildum um hverskyns munstur. Hún er einn stofnenda Laufáshópsins sem nú heitir Þjóðháttafélagið Handraðinn og hefur ásamt Oddnýju Magnúsdóttur heimsótt um helming kirkna landsins til að skrásetja og mynda altarisdúka. Jenný hefur viðað að sér þekkingu á jurtalitun og haldið námskeið í því fagi og hún hefur einnig lagt hönd á plóg við að koma á framfæri verkþekkingunni sem notuð er við gerð íslenska þjóðbúningsins.
Ákveðið hefur verið að Menningarfélag Akureyrar bjóði bæjarlistamanni ár hvert að nýta sér Menningarhúsið Hof eða Samkomuhúsið sem vettvang fyrir sýningu eða annars konar uppákomu í lok starfsársins.
Meðfylgjandi mynd var tekin í Hofi í dag. Aftari röð frá vinstri: Fanney Hauksdóttir, Þóra Sif Sigurðardóttir forstöðumaður Lögmannshlíðar, Edda Friðgeirsdóttir og Kristinn Björnsson. Fyrir framan þau sitja Jenný Karlsdóttir og Orri Harðarson.