Gunnar Kvaran og Bach á Þórshöfn og Akureyri

Gunnar Kvaran er yfirmaður strengjadeildar Tónlistarskólans í Reykjavík og kennir einnig við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Gunnar er löngu kunnur fyrir sellóleik sinn og stundar auk fastra starfa umfangsmikið tónleikahald bæði heima og erlendis.  Hann hefur haldið einleiks- og kammertónleika í mörgum Evrópulöndum, auk Bandaríkjanna og Kanada.  Hann hefur m.a. komið fram í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York, í Beethoven Haus í Bonn og í desember árið 2001 var Gunnari boðið að koma fram ásamt Hauki Guðlaugssyni organista á sérstökum hátíðartónleikun í Vendrell á Spáni, fæðingarbæ Pablo Casals. Þann dag voru 125 ár liðin frá fæðingu meistarans.  Gunnar hefur margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og allmargar hljómplötur og hljómdiskar hafa verið gefnir út með leik hans. 

Á tónleikunum á Þórshöfn og Akureyri mun Gunnar leika einleiksverk eftir J.S. Bach, annars vegar svítu nr. 1 í G-dúr og hins vegar svítu nr. 3 í C-dúr.  Tónleikarnir eru samvinnuverkefni Félags íslenskra tónlistarmanna, sveitarfélaganna tveggja og Listvinafélags Akureyrarkirkju.  Miðasla fer fram við innganginn á báðum stöðum, aðgangur fyrir börn er ókeypis og mun aðgangseyrir fullorðinna á Þórshöfn renna í viðhaldssjóð kirkjunnar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan