Stjórn Akureyrarstofu

102. fundur 30. júní 2011 kl. 08:00 - 09:30 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Helga Mjöll Oddsdóttir
  • Þórarinn Stefánsson
  • Guðrún Þórsdóttir
  • Helena Þuríður Karlsdóttir
Dagskrá

1.Skipulagsbreytingar í Listagili - hugmyndavinna 2011

Málsnúmer 2011040137Vakta málsnúmer

Framhald umræðna af síðasta fundi stjórnar. Farið var yfir stöðu mála og formaður lagði fram tillögu um næstu skref í skipulagsbreytingunum. Tillagan er eftirfarandi:
Lagt er til að Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðin í Listagili verði sameinuð í eina stofnun. Markmið breytinganna er að efla Listagilið sem miðstöð sjónlista utan höfuðborgarsvæðisins þar sem meðal annars verði lögð aukin áhersla á grasrótarstarf og fræðslu- og uppeldisstarf. Starf forstöðumanns sameiginlegrar stofnunar verði auglýst laust til umsóknar og rekstur hennar verði á höndum bæjarins.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir tillöguna og felur framkvæmdastjóra að fara í þær skipulagsbreytingar sem lagðar eru til. Stjórnin telur að með þessari breytingu náist það markmið að Gilið birtist sem ein heild sem styrkir aftur ímynd Akureyrar.

Helena Karlsdóttir fulltrúi Samfylkingar óskar bókað:
Listagilið þjónar mikilvægu hlutverki sem staður viðburða, sköpunar og tilrauna. Ég samþykki fyrirliggjandi tillögu um sameiningu Listasafnsins á Akureyri og Menningarmiðstöðvarinnar í Listagilinu í eina stofnun á þeim forsendum og í trausti þess að unnið verði í samræmi við niðurstöðu skýrslu grasrótarhóps listamanna í Gilinu "Skapandi sókn í Listagilinu", að áformum um menningar-, fræðslu- og uppeldisstarf á sviði sjónlista verði fylgt eftir og að ná megi fram hagræðingu með sameiningunni. Ég legg áherslu á að hin nýja stofnun verði á vegum Akureyrarbæjar og að öll störf verði auglýst og faglega staðið að ráðningum. Listagilið býður upp á mikla möguleika og er mikilvægur þáttur í ferðamannabænum Akureyri. Ég treysti því að með sameiningu stofnananna muni starfsemin eflast og dafna og vera bakhjarl starfandi listafólks á Akureyri.

2.Icelandair Hótel Akureyri - atvinnu- og ferðamál

Málsnúmer 2011070020Vakta málsnúmer

Icelandair Hótel Akureyri er nýtt hótel sem opnaði á Akureyri þann 10. júní 2011. Hótelið mun bjóða upp á 101 herbergi alls og hafa um 25 manns hafið þar störf.

Stjórn Akureyrarstofu óskar Icelandair Hotels til hamingju með nýja hótelið og fagnar fjölgun stöðugilda á Akureyri.

Fundi slitið - kl. 09:30.