Málsnúmer 2016100062Vakta málsnúmer
Rætt um stuðning ríkisins við skáldahús á Íslandi.
Brynhildur Pétursdóttir alþingismaður hefur beint fyrirspurnum til menntamálaráðherra vegna þeirrar staðreyndar að sum skáldahús á landinu njóta beins stuðings menntamálaráðuneytisins en önnur ekki. Þannig fær Skriðuklaustur 34 mkr. frá ríki skv. fjárlögum ársins 2016, Snorrastofa 36 mkr., Gljúfrasteinn 38 mkr. og Þórbergssetur 10 mkr. Samtals fá þessi 4 söfn og setur um 118 mkr. úr ríkissjóði. Á sama tíma fá skáldahúsin þrjú á Akureyri, Davíðshús, Nonnahús og Sigurhæðir engan beinan stuðning frá ríkinu.
Í svörum ráðherra er m.a. nefnt að fyrirkomulagi styrkveitinga hafi verið breytt þegar fjárlaganefnd hætti að veita beina styrki til félaga, samtaka og einstaklinga sem fluttust þá að hluta til ráðuneyta en að hluta til menningarsamninga við landshlutasamtök.
Hér á svæðinu var aðilum bent á að sækja stuðning til Menningarráðs Eyþings en um leið og verkefnið var flutt þangað voru framlög lækkuð. Einnig hefur verið vísað til menningarsamnings Akureyrarbæjar og menntamálaráðuneytisins en skáldahúsin eru ekki hluti af verkefnum hans.
Brynhildur hefur í viðbrögðum sínum fagnað því að sum skáldahús skuli fá beinan stuðning en bent á að rekstur skáldahúsanna á Akureyri sé erfiður og að ekki gangi að það sé tilviljanakennt hvernig stuðningi ráðuneytisins til slíkra verkefna á landinu sé háttað. Hún bendir á að skáldahúsin á Akureyri séu hluti af menningararfleifð þjóðarinnar og ættu því að njóta sömu stöðu og samskonar verkefni annars staðar. Þá hefur hún skorað á ráðherra að breyta þessu.