Skipulagsráð

270. fundur 16. ágúst 2017 kl. 08:00 - 10:20 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Anna Bragadóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Stefanía G Sigmundsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
Dagskrá
Helgi Snæbjarnarson L-lista mætti í forföllum Evu Reykjalín Elvarsdóttur.

1.Grænhóll - fjölgun lóða, breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017080029Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs þann 14. júní 2017 var sviðsstjóra skipulagssviðs falið að láta endurskoða deiliskipulag athafnasvæðisins við Grænhól með það að markmiði að færa það til fyrra horfs. Sjafnargötu 7 verður skipt upp í fjórar lóðir eins og upphaflegt deiliskipulag frá 2006 sýndi.
Skipulagsráð leggur til að lóðin Sjafnargata 2 sem merkt er sem verslunar- og þjónustulóð verði merkt sem athafnasvæði.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan, þannig breytt, verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Glerárvirkjun II - lóð undir stíflu og hæð stíflu, umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2017080025Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. ágúst 2017 þar sem Bergur Steingrímsson fyrir hönd Fallorku ehf, kt. 600302-4180, sækir um heimild til að breyta deiliskipulagi Glerárvirkjunar II til að skilgreina lóð undir stíflu og ákvarða hámarks hæð stíflu. Með erindinu er lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi, dagsett 16. ágúst 2017 unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi.
Einungis er um að ræða minniháttar breytingar er varða umsækjanda og Akureyrarkaupstað. Þess vegna leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 2. málslið, 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar.

3.Hafnarstræti 67-69 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2016020105Vakta málsnúmer

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu þar sem Jón Hrafn Hlöðversson fyrir hönd Hótels Akureyrar, kt. 640912-0220, óskar eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnarstræti 67-69. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu er dagsett 12. apríl 2017 og unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi ehf. Byggingarreitur er stækkaður, vegghæð og mænishæð hækkuð og hluti byggingar til vesturs verði með flötu þaki.

Tillagan var auglýst frá 24. maí með athugasemdafresti til 5. júlí 2017. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagssviðs.



Engar athugasemdir bárust.



Tvær umsagnir bárust.

1) Minjastofnun Íslands, dagsett 9. júní 2017.

Minjastofnun gerir ekki athugasemd við breytinguna. Æskilegt er að byggingar hverskonar á þessum slóðum samræmist götumynd m.t.t. hlutfalla og útlits. Minnt er á að hafin er vinna við að gera þetta svæði að verndarsvæði í byggð. Jafnframt skal viðhafa aðgát ef fornminja verður vart.



2) Hverfisnefnd Brekku og Innbæjar 4. júlí 2017

a) Gæta þarf þess að nýbyggingin (69) verði ekki hærri en hin glæsilega bygging Hótel Norðurlands. Þá ætti ný bygging að standa örlítið aftar en gamla húsið þar sem svo stór bygging myndi skyggja á eldri bygginguna.

b) Til samræmis við húsin í kring væri eðlilegt að gera ráð fyrir 3 og 1/2 hæð frekar en 4 hæðum.

c) Bent er á að ef bílastæði verða utan lóðar þarf Akureyrarbær að fjölga stæðum í bæjarlandinu á svæðinu.

d) Setja þyrfti ákvæði um mögulega aðkomu fólksflutningabíla í deiliskipulagið af svæðinu í heild.

e) Ekki er á hvers manns færi að gera sér grein fyrir hvað "svokallað flutningshús" er. Þetta þyrfti að skýra betur út og koma fram í grenndarkynningum.

Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 12. júlí 2017.
Svör við umsögnum:

1) Minjastofnun Íslands, dagsett 9. júní 2017.

Gefur ekki tilefni til svars.



2) Hverfisnefnd Brekku og Innbæjar 4. júlí 2017

a) Hér mun vera átt við Hótel Akureyri en ekki Hótel Norðurland, þ.e. Hafnarstræti 67. Þar sem Hafnarstræti 67 stendur mun hærra í götu en Hafnarstræti 69, og vegghæð götuhliðar og mænishæð miðast við gólfkóta jarðhæðar/götuhæð, mun hæðarmunur Hafnarstrætis 67 og 69 í raun verða minni en tölurnar í töflunni hér að neðan sýna. Mænishæðin er þó meiri en eldri húsa norðar í götunni, en mun minni en gildandi deiliskipulag leyfir fyrir næsta hús norðan við, Hafnarstræti 71. Ekki er tekið undir að nýbyggingin ætti að standa aftar í götumyndinni, þar sem það skerðir götumyndina/húsalínuna í heild sinni.

Hús nr.
- Vegghæð langhliða - Mænishæð

H67 - 7,50 - 12,20

H69 - gildandi 8,70 - 12,50

H69 - tillaga 9,75 - 14,35

H71 - 8,20 - 10,20 kvistur

H71 - leyfil. skv. gildandi deilisk. 10,20 - 14,80

H73 - u.þ.b. 8,40 - 10,8

H75 - leyfil. skv. gildandi deilisk. 8,70 - 14,80

H77 - 8,30 - 11,45 turn

b) Taka má undir þá athugasemd að nokkru leyti, en 4. hæðin verður ekki fullnýtt, og hluti hennar er falinn bak við mæni hússins og sést ekki frá götunni.

c) Ábendingunni er vísað til uppfærslu deiliskipulags miðbæjar.

d) Ábendingunni er vísað til uppfærslu deiliskipulags miðbæjar.

e) Textinn er tekinn úr gildandi deiliskipulagi og ekki gerð breyting varðandi Hafnarstræti 75. Flutningshús er gamalt hús sem flutt er á nýjan stað.



Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

4.Melgerðisás - deiliskipulag

Málsnúmer 2015050023Vakta málsnúmer

Drög að deiliskipulagi Melgerðisáss voru kynnnt í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Stefnt er að því að nýta óbyggð svæði innan núverandi byggðar undir íbúðarbyggð eftir því sem kostur er. Fyrst og fremst er litið til svæða, sem ekki eru í notkun, og svæða sem þjóna ekki lengur upphaflegu hlutverki sínu á viðunandi hátt eða þarfnast endurnýjunar og endurbyggingar.

Auglýsing var birt í Dagskránni þann 14. júní 2017 og voru skipulagsgögn aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagssviðs. Kynningarfundur var haldinn í Glerárskóla þann 15. júní 2017. Breytingin kallar á breytt mörk deiliskipulags Hlíðahverfis - suðurhluta.



Fjórar ábendingar bárust:

1) Sigríður Sigurðardóttir, dagsett 16. júní 2017.

Fagnar því að ekki eigi að sprengja klappir, rífa gömul hús eða byggja háhýsi sem skyggja á klappir og gömlu byggðina sem fyrir er.



2) Jónas Valdimarsson, dagsett 21. júní 2017.

a) Óskar eftir að byggingarreitur bílskúrs við Melgerði verði færður suður að lóðamörkum og mun nær götunni.

b) Staðsetning bílastæða er óásættanleg. Núverandi bílastæði eru við inngang hússins.

c) Lóðamörk að sunnan eru of norðarlega, óskað er eftir að minnsta kosti 17 metra fjarlægð.



3) Eyþór Jósepsson, dagsett 24. júní 2017.

a) Setja ætti niður hús austan megin á Melgerðisásnum. Einfaldast og ódýrast væri að setja húsin niður um það bil á núverandi götu og hafa bæði götu og stíg vestast á svæðinu.

b) Húsin eru full vestarlega í tillögunni, of nálægt skólanum.

c) Nýta þarf plássið betur, þétta meira og fá útsýni úr húsunum.

d) Grisja þarf trjágróður.

e) Íbúðirnar í blokkunum ættu ekki að vera með bílakjallara þannig að þær verði of dýrar fyrir ungt fólk.

f) Svæðið hefur mun fleiri möguleika en búið er að leggja fram.



4) Helga Aðalgeirsdóttir, dagsett 18. júní 2017.

a) Sárlega vantar upphækkaða gangbraut yfir Skarðshlíðina á móts við göngustíg sem liggur milli Áshlíðar og Skarðshlíðar.

c) Mikilvægt er að gerð verði gangstétt meðfram Undirhlíðinni að norðanverðu milli Hörgárbrautar og Skarðshlíðar.



Ein umsögn barst:

1) Vegagerðin, dagsett 6. júlí 2017.

Bílastæðin eru, samkvæmt þessu, utan tvöfalds öryggissvæðis ( 2x4 m ) fyrir leyfðan hraða 50 km/klst. og umferð yfir 3000 bíla. Það eru lágmarkskröfur samkvæmt veghönnunarreglum.

Vegagerðin gerir því ekki athugasemdir við skipulagið.



Áður lagt fram kostnaðarmat á stíg neðan við Melgerðisás.
Svör við ábendingum og umsögnum:

1) Sigríður Sigurðardóttir, dagsett 16. júní 2017.

Gefur ekki tilefni til svars.



2) Jónas Valdimarsson, dagsett 21. júní 2017.

a) Í lagi er að færa byggingarreit bílskúrsins nær götunni. Ef byggingarreitur bílskúrs er færður að lóðamökum skal ákvæði 5. mgr. 9.7.5 gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 uppfyllt: "Ef bílgeymsla minni en 100 m² er nær lóðamörkum en 3,0 m skal veggur sá er snýr að lóðamörkum vera REI 90 en REI 120-M ef fjarlægðin er undir 1,0 m. Veggurinn skal vera án opa og ná upp að ystu þakklæðningu".

b) Eðlilegt er að bílastæði séu framan bílskúrs.

c) Lóðamörk til suðurs teljast vel rúm, og færsla til suðurs kæmi niður á lóðabreidd annarra húsa í götunni.



3) Eyþór Jósepsson, dagsett 24. júní 2017.

a) Ekki er tekið undir þessa ábendingu vegna kostnaðar sem hlýst af færslu götunnar.

b) Hugsanlegt væri að færa húsin austar, en myndu þá lenda á klöpp.

c) Gefur ekki tilefni til svars.

d) Gefur ekki tilefni til svars, ekki deiliskipulagsmál.

e) Bílakjallarar eru nauðsynlegir til að uppfylla bílastæðakröfur innan lóða fjölbýlishúsanna og eru auk þess hagkvæmir vegna jarðvegsdýptar.

f) Gefur ekki tilefni til svars.



4) Helga Aðalgeirsdóttir, dagsett 18. júní 2017.

a) Tekið er undir athugasemd varðandi öryggi skólabarna. Upphækkuð gangbraut er sýnd nokkru norðar, mætti vel færast til móts við stíginn við Kvenfélagsreitinn, en fellur þá utan skipulagssvæðisins. Hraðatakmarkandi aðgerðir verða á fjórum stöðum í Skarðshlíðinni innan skipulagssvæðisins.

c) Skipulagstillagan gerir ráð fyrir gangstétt á þessum stað.



1) Vegagerðin, dagsett 6. júlí 2017.

Gefur ekki tilefni til svars.



Skipuagsráð leggur til að gert verði ráð fyrir stíg vestan við fyrirhugaðar einbýlishúsalóðir við Melgerðisás og þær minnkaðar sem því nemur, sem mögulega getur komið til framkvæmdar á síðari stigum.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan, þannig breytt, verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagið verður auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi. Jafnframt verða auglýst breytt mörk deiliskipulags Hlíðahverfis - suðurhluta.

Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi Æ-lista, Ólína Freysteinsdóttir S-lista og Sigurjón Jóhannesson D-lista lögðu fram bókun:

Ekki er ráðlegt að svo stöddu að breyta deiliskipulagi í íbúarbyggð á nyrsta hluta Þórssvæðisins (núverandi kastsvæði). Ekki er enn búið að ákveða hver næstu skref verða í þróun íþróttasvæðisins svo sem hvar gervigrasvöllur verður og hvar hugsanlegt frjálsíþróttahús verður staðsett. Á meðan slíkt er óljóst er óskynsamlegt að þrengja að íþróttasvæðinu.

Edward Hákon Huijbens V-lista óskaði bókað að hann styðji tillöguna eins og hún er auglýst. Mikilvægt er að efla skólahverfi Glerárskóla og íþróttastarf Þórs og UFA með þeim 90 nýju íbúðum sem mundu rísa á þessum reit við hlið Bogans. Telur Edward með öllu ótækt að fórna uppbyggingu á reitnum fyrir óljósar kröfur um frjálsíþróttahús sem engar haldbærar hugmyndir liggja fyrir um. Sjálfsagt er að taka tillit til þarfa kastíþróttafólks og ekki úthluta lóðum á reit norðan Bogans fyrr en ný aðstaða er komin fyrir kastíþróttir, hvort sem sú aðstaða verði norðan eða sunnan við Bogann á núverandi lóð Þórs.

5.Íþróttasvæði Þórs, kastsvæði - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2016100138Vakta málsnúmer

Skipulagsráð samþykkti á fundi 15. febrúar 2017 að senda til umsagnar uppfærðan uppdrátt af deiliskipulagi íþróttasvæðis Þórs sem breyta á samhliða deiliskipulagi Melgerðisáss. Nýtt svæði fyrir kastíþróttir verður skilgreint. Tillagan er dagsett 13. febrúar 2017 og unnin af Gísla Kristinssyni arkitekt.

Þrjár umsagnir bárust.

1) UFA, dagsett 28. febrúar 2017.

Stjórn UFA er sátt við drögin í núverandi mynd og gerir ekki athugasemd.

2) Íþróttafélagið Þór, dagsett 21. febrúar 2017.

Íþróttafélagið er mótfallið því að taka allt svæðið norðan Skarðshlíðar undir íbúðarbyggð. Í tillögunni er ökuleið áfram inni en nokkur hæðarmunur er á núverandi hæð ökuleiðar og knattspyrnuvalla sunnan hennar. Nauðsynlegt er fyrir íþróttafélagið að sjá hvernig á að útfæra þetta. Möguleiki er að leggja af þann hluta ökuleiðar sem er á milli merkts knattspyrnuvallar og Bogans. Hugmyndin gengur aðeins upp ef samstarf Þórs og UFA er náið og hnökralaust.

3) Frístundaráð, dagsett 23. febrúar 2017.

Ekki er gerð athugasemd en áhersla er á að tillagan verði unnin í góðri samvinnu við stjórnir Þórs og UFA.

Ekki bárust umsagnir frá Íþróttabandalagi Akureyrar og Hverfisnefnd Holta- og Hlíðahverfis. Óskað var eftir kostnaðarmati á fyrirhuguðum framkvæmdum og barst það 4. apríl 2017. Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 12. apríl 2017. Tillagan sem nú er lögð fram er dagsett 20. apríl 2017 og unnin af Gísla Kristinssyni arkitekt. Skipulagsráð frestaði afgreiðslu á fundi 14. júní 2017.
Svör við umsögnum:

1) Gefur ekki tilefni til svars.

2)

a) Tilheyrir deiliskipulagi Melgerðisáss.

b) Við gerð ökuleiðar verður haft náið samráð við íþróttafélagið Þór og UFA.

c) Skipulagsráð vonar að samstarf Þórs og UFA verði náið og hnökralaust.

3) Gefur ekki tilefni til svars.



Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi Æ-lista lagði fram bókun:

Of þröngt er fyrir kastsvæði á nýjum stað. Hætta er á því að það nýtist illa sökum þess. Ennfremur er útfærslan á svæðinu gölluð. Gera þarf ráð fyrir kasthringjum vestast á svæðinu, til að kastæfingar barna séu nær öðrum iðkendum á aðalvelli. Einnig er líklega ekki þörf á kúluvarpshring inni á svæðinu þar sem tveir kúluvarpshringir með geirum eru inni á aðalvelli sem ekki verða notaðir til annars.

6.Hesjuvellir landnr. 212076 - deiliskipulag

Málsnúmer 2015080002Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 10. október 2012 að leggja fram tillögu að deiliskipulagi eignarlandsins Hesjuvellir landnúmer 212076. Heimilt verði að reisa eitt íbúðarhús ásamt bílgeymslu, allt að 350 fermetrar að flatarmáli. Skipulagslýsing var auglýst 14. október 2015 og send til umsagnar. Skipulagsnefnd vísaði þann 11. nóvember 2015 athugasemdum sem þá bárust til umsækjanda til frekari skoðunar og úrvinnslu við gerð deiliskipulagsins. Tillaga að deiliskipulagi er dagsett 6. júní 2017 og unnin af Ágústi Hafsteinssyni hjá Form og einnig er lögð fram athugun á fornleifum í sama landi dagsett í október 2016 og unnin af Katrínu Gunnarsdóttur fornleifafræðingi.

Sviðsstjóri gerði grein fyrir viðræðum við landeiganda, lagt fram minnisblað sviðsstjóra varðandi staðsetningu reiðstígs og uppkaup af landi.
Skipulagsráð tekur jákvætt í að reiðstígur verði utan girðingar jarðarinnar og að Akureyrarkaupstaður eignist það land sem er vestan girðingarinnar að miðju vegar.

7.Oddeyri - rammahluti aðalskipulags

Málsnúmer 2015080022Vakta málsnúmer

Skipulagstillagan var auglýst frá 26. apríl með athugasemdafresti til 7. júní 2017. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagssviðs.

Þrjár athugasemdir bárust:

1) Ragnar Sverrisson, móttekið 17. maí 2017.

Lagt er til að hringtorg komi á mótum Glerárgötu og Gránufélagsgötu. Auk þess verði hægt að aka niður Eiðsvallagötu þegar komið er sunnan Glerárgötu. Þannig ætti að vera hægt að tengja Oddeyrina aftur og hún verði ekki áfram einangruð frá miðbænum og efri hluta bæjarins. Áréttað er við kjörna bæjarfulltrúa og nefndarmenn í skipulagsráði að það eru þeir, en ekki bæjarstarfsmenn eða undirverktakar, sem bera ábyrgðina þegar til kastanna kemur.

2) Útgerðarfélag Akureyringa, dagsett 7. júní 2017.

Gerðar eru athugasemdir vegna skerðingar lóðar Útgerðarfélagsins vegna breyttrar legu Laufásgötu, lagningu þjónustugötu meðfram viðleguköntum og að blönduð byggð verði nærri ÚA.

3) BS kreppa ehf., dagsett 31. maí 2017.

Samkvæmt uppdráttum virðist sem opna eigi fyrir Eiðsvallagötu niður að Laufásgötu. Því er mótmælt þar sem það er mikil eignaskerðing fyrir lóðarhafa. Lagt er til að Kaldbaksgata 6 og 8 verði heldur sameinaðar í eina lóð, Laufásgötu 7.

Átta umsagnir bárust:

1) Isavia, dagsett 8. maí 2017.

Engar athugasemdir eru gerðar en bent er á að Samgöngustofa ætti að fá tillöguna til umsagnar.

2) Hafnasamlag Norðurlands, dagsett 9. maí 2017.

Ítrekaðar eru fyrri athugasemdir Hafnasamlagsins. Mikilvægt er að settar séu kvaðir vegna Kelduhverfis um að íbúar geri sér grein fyrir að menn séu í nálægð við atvinnustarfsemi sem getur leitt af sér hávaða eða annað sem tengist viðkomandi starfsemi.

3) Vegagerðin, dagsett 30. maí 2017.

Engar athugasemdir eru gerðar.

4) Norðurorka, dagsett 31. maí 2017.

Í ljósi mikilvægi veitna sem hluta grunninnviða samfélagsins teljum við æskilegt að í tillögunni séu dregnir fram í stuttu máli framangreindir þættir og þar með að tekinn sé út textinn um að ekki sé fjallað um veitukerfi. Við lítum svo á að beinlínis sé skylt að vekja athygli á þessum þjónustukerfum, þó í stuttu máli sé og þannig minnt á að ævinlega er nauðsynlegt að taka mið af þeim á öllum stigum skipulagsvinnunnar enda eru þessir innviðir forsenda annarrar uppbyggingar og þeirrar þjónustu sem nútíma samfélag kallar á. Samráð og samvinna um þessa þætti er því mikilvæg í áframhaldandi skipulagsvinnu.

5) Minjastofnun Íslands, dagsett 6. júní 2017.

Minjastofnun fer fram á að gerð sé grein fyrir lögum um menningarminjar í skipulaginu og hver lagaleg staða þeirra húsa sé sem þar falla undir. Í aðalskipulagi skal gera grein fyrir húsum og mannvirkjum sem falla undir lög um menningarminjar í húsaskrá. Æskilegt er að einnig fylgi skrá yfir hús sem verða 100 ára á skipulagstímanum.

6) Umhverfisstofnun, dagsett 2. júní 2017.

Ekki er gerð athugasemd við tillöguna. Stofnunin fagnar að opin svæði fái aukið notagildi og þeirri stefnu sem felur í sér áherslu á sjálfbærni.

7) Samgöngustofa, dagsett 18. maí 2017.

Vegna nálægðar við flugvöllinn verður bærinn að vera í nánu sambandi við Isavia um hæðir mannvirkja þegar kemur að nánara skipulagi. Mikilvægt er að farið sé að kröfum laga og reglugerða um loftferðir.

8) Skipulagsstofnun, dagsett 1. júní 2017.

Gerðar eru athugasemdir við framsetningu skipulagsgagna og að skýra þurfi betur ákveðna þætti.

9) Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, dagsett 15. júní 2017.

Engar athugasemdir eru gerðar.



Áður lögð fram tillaga skipulagshöfundar að viðbrögðum við umsögnum og athugasemdum.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan, þannig breytt, verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar.

8.Lækjargata 18a - lóðamörk

Málsnúmer 2017080017Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. ágúst 2017 þar sem Skarphéðinn Reynisson og Júlía Margrét Guðbjargardóttir fyrir hönd Múrfags ehf., kt. 570196-2519, óska eftir því við Akureyrarkaupstað að gerðar verði ráðstafanir fyrir bílastæði og aðgengi að Lækjargötu 18a.
Skipulagsráð samþykkir að kannað verði hvort hægt sé að tryggja aðgengi að Lækjargötu 18a. Einnig verði athugað að gera almenn bílastæði ofar í götunni.

9.Forgangsröðun umferðaröryggisaðgerða á þjóðvegum um Akureyri

Málsnúmer 2016010071Vakta málsnúmer

Unnið er að umferðaröryggisaðgerðum á þjóðvegum í landi Akureyrarkaupstaðar og er það samstarfsverkefni milli Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins. Sviðsstjóri skipulagssviðs leggur til að unnið verði deiliskipulag fyrir gatnamót Glerárgötu, Borgarbrautar, Hörgárbrautar og Tryggvabrautar. Áður lögð fram frumdrög að greinargerð vegna bætts umferðaröryggis á gatnamótum Glerárgötu, Tryggvabrautar, Hörgárbrautar og Borgarbrautar dagsett 22. maí 2017 ásamt svörum við athugasemdum ráðsins frá 31. maí 2017.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu á fundi 12. júlí 2017.
Skipulagsráð leggur til að ljósastýrð gatnamót verði enn um sinn fyrsti valkostur við gatnamót Glerárgötu, Borgarbrautar, Hörgárbrautar og Tryggvabrautar.

10.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2017

Málsnúmer 2017010027Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 1. ágúst 2017. Lögð var fram fundargerð 641. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum.
Lagt fram til kynningar.

11.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2017

Málsnúmer 2017010027Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 7. júlí 2017. Lögð var fram fundargerð 638. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum.
Lagt fram til kynningar.

12.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2017

Málsnúmer 2017010027Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 13. júlí 2017. Lögð var fram fundargerð 639. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 8 liðum.
Lagt fram til kynningar.

13.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2017

Málsnúmer 2017010027Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 21. júlí 2017. Lögð var fram fundargerð 640. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 11 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:20.