Öldungaráð

2. fundur 27. maí 2019 kl. 09:00 - 10:20 Rósenborg - fundarsalur 3. hæð
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Arnrún Halla Arnórsdóttir
  • Elías Gunnar Þorbjörnsson
  • Sigríður Stefánsdóttir fulltrúi ebak
  • Valgerður Jónsdóttir fulltrúi ebak
  • Hallgrímur Gíslason varafulltrúi ebak
  • Eva Björg Guðmundsdóttir fulltrúi hsn
Starfsmenn
  • Kristinn Jakob Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Kristinn Jakob Reimarsson sviðsstjóri
Dagskrá
Hallgrímur Gíslason fulltrúi EBAK mætti í forföllum Halldórs Gunnarssonar.

1.Akstursþjónusta Akureyrarbæjar - reglur

Málsnúmer 2019040309Vakta málsnúmer

Á fundi velferðarráðs þann 24. apríl sl. voru lögð fram drög að reglum um akstursþjónustu Akureyrarbæjar. Samþykkt var að óska eftir umsögn öldungaráðs.

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar sat fundinn undir þessum lið.
Öldungaráð gerir ekki athugasemd við að reglurnar taki gildi. Nokkur ákvæði í þeim eru til bóta miðað við fyrri reglur t.d. skýrari ákvæði um undanþágur frá meginreglum (grein 3.2.)

Ráðið bendir aftur á móti á að reglurnar eru byggðar á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og að hvergi er minnst á þjónustu við eldri borgara í þeim, þrátt fyrir að þeim hópi sé einnig sinnt. Ráðið telur mikla þörf á að skoðað verði hvernig þessum hópi er best sinnt með akstursþjónustu og almenningssamgöngum til að ná markmiðum í velferðarstefnu bæjarins og lögunum sem byggt er á og geta einnig átt við aldraða. Ráðið óskar eftir samstarfi í þessari vinnu.

2.Fjárhagsáætlun 2020 - samráð öldungaráðs og bæjarráðs

Málsnúmer 2019050217Vakta málsnúmer

Farið yfir helstu áhersluatriði öldungaráðs vegna samráðsfundar með bæjarráði um fjárhagsáætlun ársins 2020.

Eitt af áhersluatriðum öldungaráðs er að gerð verði könnun á högum aldraðra, þjónustu og viðhorfi þeirra til þjónustu Akureyrarbæjar.

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar sat fundinn á meðan þetta atriði var rætt og fór yfir þær kannanir sem nú þegar hafa verið gerðar á landsvísu á meðal eldri borgara.
Öldungaráð þakkar Halldóri fyrir góða kynningu.

Öldungaráð felur formanni og varaformanni að fylgja þessum áhersluatriðum eftir á fundinum með bæjarráði.

3.Ályktun aðalfundar EBAK 2019 um heilsueflingu eldri borgara

Málsnúmer 2019040163Vakta málsnúmer

Ellert Örn Erlingsson deildarstjóri íþróttamála mætti á fundinn og kynnti verkefnið heilsueflandi samfélag.

Óskað er eftir að ráðið tilnefni fulltrúa í stýrihóp um heilsueflandi samfélag sbr. bókun frístundaráðs frá 11. apríl sl.



Á aðalfundi Félags eldri borgara á Akureyri sem haldinn var 1. apríl 2019 var samþykkt ályktun þar sem lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem hafi það verkefni að undirbúa aðgerðaáætlun sem feli í sér aukna almenna heilsueflingu og hreyfingu eldri borgara í bæjarfélaginu.



Ályktunin var til umfjöllunar á fundi frístundaráðs þann 11. apríl sl. og var eftirfarandi bókað:

Frístundaráð vekur athygli á því að nú þegar er starfandi starfshópur um heilsueflandi samfélag og sér ekki ástæðu til að stofnaður verði annar starfshópur. Ráðið samþykkir að bjóða öldungaráði að tilnefna fulltrúa í starfshóp um heilsueflandi samfélag.
Öldungaráð þakkar Ellerti Erni fyrir kynninguna.

Ráðið tilnefnir Halldór Gunnarsson sem fulltrúa í stýrihóp um heilsueflandi samfélag og Valgerði Jónsdóttur til vara.

Ráðið leggur áherslu á að í stýrihópnum verði fjallað um tillögu frá aðalfundi Félags eldri borgara 2019 um aðgerðaáætlun.

Fundi slitið - kl. 10:20.