Mættir: Karólína Gunnarsdóttir, Sif Sigurðardóttir, Róbert Freyr Jónsson, Jón Hlöðver Áskelsson, Kristín Sigfúsdóttir og Friðrik Einarsson.
Karólína setti fundinn , sem er fyrsti fundur vetrarins.
Fundarefni var aðallega að skipuleggja veturinn, setja niður málefni sem þarf að taka fyrir og finna fundardaga fyrir veturinn, ásamt efni sem óskað hafði verið að tekið yrði fyrir.
1. Rætt um sundlaugar og aðgengi fyrir fatlaða. Jón Hlöðver Áskelsson var málshefjandi. Hann sagði að erfitt væri að fá tíma í sundlaug sem væri með góðu aðgengi og væri 29C° heit að minnsta kosti. Hann sagði að aðsókn í Kristnessundlaugina væri mikil og að ekki væri hægt að komast í sundlaugina á Kristnesi eftir klukkan 16,00 á daginn. Starfsliðið annar ekki því að hafa opið fyrir fólk með fötlun sem vill koma í þjálfun eftir þann tíma, enda þótt það hafi með sér aðstoðarmanneskju. Síðustu 12 ár hafa hópar verið í sundi á Kristnesi, en nú er aðeins helmingur af þeim tíma sem veittur var í boði. Þau Ingvar Þóroddsson læknir og Helga Sigfúsdóttir sjúkraþjálfari sögðu að aðstaðan hefði batnað í Akureyrarlaug fyrir fatlaða og þeir yrðu að snúa sér þangað. Nú er það svo að heit laug a.m.k. 29C° er ekki í boði fyrir þá sem eru með fötlun og þurfa þjálfun í heitri laug. Jón Hlöðver sagðist vilja kanna hversu mikill tími í Sundlaug Akureyrar væri í boði fyrir fólk sem vildi til dæmis koma tvisvar í viku í sund í innilauginni? Innilaugin er aðeins opin fyrir almenning um helgar en er ekki mikið notuð þá. Eins mætti athuga hvort úthluta mætti tímum í Glerárlaug ef mætti hita hana upp á stuttum tíma til úthlutunar á virkum dögum tvisvar í viku. Jón benti á að Akureyrarbær hefði lagt fé í Kristneslaug til að Akureyringar sem þyrftu á að halda gætu þjálfað sig þar. Sjúkrahúsið á Akureyri rekur Kristneslaugina og ætti að kanna hvort hægt sé að auka opnunartíma fyrir fólk með fötlun. Annað er skerðing á réttindum fatlaðs fólks á svæðinu. Þess má geta að innilaugin í Akureyrarsundlaug er að jafnaði 31,5-31,7C°. Innilaugin er afar upptekin alla virka daga fyrir mismunandi hópa.
2. Friðrik spurði um staðsetningu smáhýsa sem hýsa eiga heimilislaust fólk í neyslu eða með annan vanda. Karólína og Róbert sögðu að búið væri að ákveða staðsetningu húsa á Norðurtanga. Þar yrðu líklega sett tvö smáhýsi til skamms tíma (tveggja – þriggja ára) og væri neyðarráðstöfun. Friðrik spurði hvort hefði verið athugað með staðsetningu í Lækjargili. Upplýst var að gera ætti úttekt á fjölda og aðstæðum utangarðsfólks á Akureyri, en hér virðist því fara fjölgandi eins og í Reykjavík.
3. Karólína sagði að stöðugt væri verið að leysa húsnæðisvanda fólks með fötlun. Verið er að byggja þjónustukjana fyrir fólk með þroskahömlun, sem leysa mun Jörvabyggðina af hólmi.
4. Rætt var um að halda næsta fund 28.nóvember og taka þá fyrir kynningu á hjálpartækjum og hjálpartækjaþjónustu, svo sem aðstoð iðjuþjálfa. Einnig yrði um að ræða frekari kynningu á uppbyggingu húsnæðis hjá Akureyrararbæ.
Notendaráð samþykkir eftirfarandi bókun og beinir henni til stjórnar SAk og Frístundaráðs Akureyrarbæjar.
Notendaráð fyrir fatlað fólk beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnar SAk og frístundaráðs Akureyrarbæjar að kanna þörf fyrir aukið framboð á sundtímum fyrir fólk með fötlun sem þarf að þjálfa sig í a.m.k. 29C°heitri laug. Tveir tímar á virkum dögum, seinnipart dags í heitum laugum annað hvort á Kristnesi eða í innilaug Akureyrarsundlaugar, eða Glerárlaugar gætu leyst úr brýnni þörf ákeðinna einstaklinga. Má huga að því að gefa tíma í upphafi ársins 2018.
Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 17.25
Fundargerð ritaði Kristín Sigfúsdóttir