Mættir voru Ólöf, Sif, Róbert, Jón Hlöðver, Friðrik og Kristín
Kynning á Verkefninu Stuðningur við fólk með skerta starfsgetu (AMS). Starfsmenn verkefnisins Atvinna með stuðningi eða stuðningur við fólk með skerta starfsgetu þær Hulda Steingrímsdóttir og Kristín Óladóttir kynntu starfsemina og röktu ferlið frá hugmynd til framkvæmdar. Þær ásamt Soffíu Gísladóttur forstöðumanni Vinnumálastofnunar sögðu frá ferlinu þegar einstaklingur með fötlun sækir um vinnu, þegar einstaklingur er metinn, fyrirtæki er valið og starfsmanni fylgt á vinnustað, ásamt eftirfylgni og stuðningi við þróun og aðlögun að starfi og vinnustað. Hægt er að gera vinnusamning um mjög lítið starfshlutfall og jafnvel örlítið starf á jafnvel þremur stöðum. Alltaf er miðað við að vinna með styrkleika hvers einstaklings. Mesti munur er að nú sækja allir um atvinnu hjá Vinnumálastofnun í sömu gátt, einnig þegar sótt er um á Hæfingarstöðinni við Skógarlund eða starfsþjálfun á Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi. AMS byggir á 5 meginþrepum sem fylgt er eftir af fremsta megni og alltaf er gripið strax inn í til að leiðrétta misskilning sem getur orðið og eins lagfæra vankanta sem upp koma í samskiptum eða starfi. Sveitafélögin bera alla ábyrgð á málaflokknum.
Kynningin var fróðleg og gaf tilefni til ýmissa spurninga og umræðna, svo sem hvernig verður staðan eftir 10 ár hver verður þróunin? Sif varpaði fram þeirri hugmynd að boða háskólarektor á fund og ræða um diplomanám fyrir fólk með fötlun við Háskólann á Akureyri og var vel tekið í að kanna það.
Soffía, Hulda og Kristín Óladóttir viku af fundi um klukkan 17.20.
Annað sem tekið var fyrir á fundinum var:
1. Spurt var hvort hefði borist viðbrögð við ályktuninni sem notendaráð sendi bæjarstjórn frá síðasta fundi. Þar var lýst áhyggjum vegna yfirfærslu málefna fatlaðra barna frá fjölskyldudeild yfir til skóladeildar sem fram fer í mars á þessu ári. Lítil viðbrögð bárust, Sif fékk í netpósti svar sem ekki þótti taka undir áhyggjur ráðsins.
2. Rætt var um að velferðarstefna Akureyrarbæjar sé i vinnslu og að gott væri á réttum tímapunkti að fá þau Guðrúnu Pálmadóttur umboðsmann fatlaðra á Norðulandi og Jón Hróa Finnsson til að koma og kynna hana fyrir ráðinu á fundi.
3. Skýrt var frá því að Karolína Gunnarsdóttir hefði sagt að húsnæðisbótakerfið yrði tekið til endurskoðunar og agnúar sniðnir af því þar sem sýnt væri að einhverjir þyftu leiðréttingu til jafnræðis við aðra.
4. Samþykkt var að reyna að hafa síðasta miðvikudag í mánuði sem fundardag, þá ættu flestir að geta mætt. Gera má ráð fyrir að minnsta kosti fundi ársfjórðungslega, oftar ef þurfa þykir.
Önnur mál voru engin.
Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 18.00