5. fundur í Notendaráði fatlaðs fólks 7.júní árið 2017 í fundarsal á fjórðu hæð í Glerárgötu 26 klukkan 16.00-18.00
Fundinn sátu Karólína Gunnarsdóttir, Róbert Freyr Jónsson, Friðrik Einarsson, Sif Sigurðardóttir og Kristín Sigfúsdóttir.
1. Karólína upplýsti að fundargerðir fastanefnda væru settar á heimasíðu bæjarins þar sem þær eru aðgengilegar almenningi, en svo hefði ekki verið með aðrar nefndir og fellur Notendaráð undir þá skilgreiningu.
2. Lagabreytingar á lögum fyrir fatlað fólk sem lágu fyrir Alþingi fengu ekki umfjöllun fyrir þinglok svo umsögnin frá Notendaráði er ekki aðkallandi. Fjölskyldudeild var búin að senda sína umsögn sem nýtist síðar.
3. Hæfingarstöðin verður lokuð í mánuð í sumar í stað tveggja vikna undanfarin ár. Búsetusvið ætlar samt sem áður að nýta húsnæðið við Skógarlund fyrir opna félagsmiðstöð eða sumarskóla hálfan daginn þennan tíma. Fjölbreytt afþreying og viðfangsefni verða tekin fyrir. Það eru Rósenborg, búsetu-og samfélagssvið sem standa að þessari starfsemi og búið er að manna sumarið ágætlega.Sumarvistun fyrir börn á aldrinum 7-10 ára sem ekki hentar að vera í leikjaskólanum verður í húsnæði skólavistunar Brekkuskóla. Þessi vistun verður allan daginn frá klukkan 8.00-16.00. Þetta starf verður fjármagnað af félagslegri liðveislu og þjónar aðallega drengjum með einhverfu. Alls verða 12 börn í vistuninni og stendur hún í átta vikur. Vonandi reynist þetta fyrirkomulag vel, en þetta er í fyrsta sinn sem þessi tilhögun er reynd.
4. Guðrún Soffía Viðarsdóttir hefur unnið meistaraprófritgerð og gefið út bók með rannsóknum á tómstudaiðju barna með fötlun. Þetta er áhugverð rannsókn og væri fengur að því fyrir Notendaráð að fá Guðrúnu á fund í haust til kynningar og samræðu um málefnið.
5. Rætt var um hvernig kynna megi Notendaráð og skýra hlutverk þess fyrir almenningi og stofnunum. Sérstaklega var rætt um samskipti við Háskólann á Akureyri og hvernig nýta mætti rannsóknir og nám sem þar fer fram til framdráttar fólki með fötlun.
6. Umræður urðu um húsnæðismál fatlaðra og kom í ljós að byggja á sex íbúða hús við Klettaborg fyrir fimm einstaklinga sem búið hafa við Jörvabyggð. Rætt var um hversu langur biðlistinn sé eftir búsetuúrræði. Um það bil átta mikið fötluð ungmenni bíða eftir úrræði í búsetumálum. Tvær lóðir eru fráteknar fyrir byggingu húsnæðis fyrir fatlaða til viðbótar við Klettaborgina.
7. Sif útskýrði að sent hefði verið bréf til bæjarstjóra með fyrirspurn um sérkennslu barna í Giljaskóla og hefði Menntamálaráðuneytið svo úrkurðað að leyfilegt væri að skilgreina hádegishléið sem kennslustund þarsem kennarar væru með börnunum á matmálstímum.
8. Sjúkrakennsla fyrir langveikan dreng sem þarf að fá heimakennslu. Þetta mál var til umræðu í Notendaráði á síðasta fundi. Samkvæmt úrskurði Menntamálaráðuneytisins á nemandi kost á heimakennslu eftir viku veikindi heima hjá sér. Leggja þarf fram læknisvottorð. Málið hefur ekki verið leyst enn þar sem ber á milli um hvenær á deginum eigi að kenna drengnum. Öll sjúkrakennsla þarf að taka mið af þörfum og getu hins veika.
Önnur mál:
Notendaráð biður Karólínu að skila innilegum kveðjum til Ólafar Leifsdóttur sem er forfölluð vegna veikinda.
Til næsta fundar verður boðað í september og bað Kristín um það að fundartíminn yrði ekki á miðvikudögum, alla vega ekki tvo síðustu miðvikudaga í mánuði vegna fasts fundartíma í stjórn Sjálfsbjargar á Akureyri.
Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 17.15