Félagsmiðstöðvar

Málsnúmer 2025031058

Vakta málsnúmer

Ungmennaráð - 61. fundur - 25.03.2025

Ólöf Berglind Guðnadóttir ræddi um mikilvægi félagsmiðstöðva og hvernig við getum eflt þær þannig að þær þjóni betur ungmennum í samfélaginu okkar. Félagsmiðstöðvar eru mikilvægur vettvangur fyrir félagslega og persónulega þróun ungs fólks. Ein stærsta áskorunin sem félagsmiðstöðvar standa frammi fyrir er aðstöðuleysi; takmarkað rými, skortur á fjármagni og úreltur búnaður. Nauðsynlegt er að styrkja félagsmiðstöðvar svo að þær geti betur þjónað ungmennum sveitarfélagsins.


Jón Hjaltason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Benti á að stundum ganga hlutirnir hægt fyrir sig þó að hlutirnir geti litið þannig út að einfalt ætti að vera að laga þá. Það sem skiptir máli er að ná saman. Það eru öfl í heiminum sem reyna að einangra okkur. Félagsmiðstöðvar eru mikilvæg tól til að draga okkur inn í samfélagið aftur. Velti fyrir sér hvort unnt væri að nýta grunnskólana eftir klukkan 16 fyrir félagsmiðstöðvar og þannig nýta rýmið sem til staðar er. Það þarf að gera betur og þetta verður rætt í fræðsluráði og vonandi mun verða ráðið bót á þessu.


Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason. Nefndi hann strák sem leið alltaf mjög illa og fann sig aldrei þar til hann byrjaði að mæta í félagsmiðstöðvarnar á Akureyri og hann fann fólk sem skildi hann og hlustaði. Þetta snýst ekki bara um peninga heldur virkilega um hvernig krökkunum líður.


Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi tók til máls og þakkaði fyrir umræður um félagsmiðstöðvar. Tók undir með Ólöfu og Heimi um að þetta er mjög mikilvægt starf sem þarna fer fram. Þurfum að horfa til þess hverjir það eru sem eru að leita til félagsmiðstöðvanna, það eru kannski þau sem eru félagslega sterk fyrir. Þurfum að finna leiðir til að virkja þau sem standa ekki jafn vel að vígi. Kannski þarf að hugsa félagsmiðstöðvarnar upp á nýtt. Tók heilshugar undir það að efla þurfti félagsmiðstöðvastarf í sveitarfélaginu.

Ungmennaráð - 61. fundur - 25.03.2025

París Anna Bergmann Elvarsdóttir fór yfir mikilvægi þess að auka starfsemi á miðstigi í félagsmiðstöðvum Akureyrar með auknum opnunartíma og meiri þjónustu við börn á miðstigi. Opnunartíminn núna er á mjög óhentugum tíma og stór hluti ungmenna hefur ekki raunhæfan möguleika á að mæta. Þó að það séu bara nokkrir krakkar sem mæta þá á það ekki að skipta máli því að stuðningur við hvert ungmenni sem þarf á því að halda skiptir alltaf máli. Það þarf að tryggja nægjanlega og góða aðstöðu. Börnin eru ekki bara framtíðin heldur líka nútíðin.


Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Vakti athygli á því að ekki væri nóg að það sé opið einn dag í viku í félagsmiðstöð. Um opnunartímann sagði bæjarfulltrúi að íþróttaæfingar og aðrar tómstundir eru á öllum tíma og enginn tími sem er fullkominn fyrir starfsemi félagsmiðstöðva. Sá tími sem er núna var valinn til að fá samfellu í dag ungmenna. Lára ítrekar að hún telur að það þurfi að skoða félagsmiðstöðvar upp á nýtt og hvernig eigi að haga starfi innan þeirra og efla. Ef sveitarfélaginu er alvara að halda utan um ungmenni þá þarf að efla félagsmiðstöðvar.


Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og þakkaði Láru Halldóru fyrir svarið. Spurði af hverju það væri ekki prófað að breyta opnunartímanum ef nemendur væru að kalla eftir því.


Til máls tók Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi og tók heilshugar undir að við vitum ekki nema að prófa. Benti á að það væri ekki pólitísk ákvörðun. Starfsfólk félagsmiðstöðva er treyst fyrir því að skipuleggja starfið.


Til máls tók Sunna Hlín Jóhannesdóttir og benti á að við verðum að huga betur að miðstiginu.


Til máls tók París Anna Bergmann Elvarsdóttir og benti á að starfsfólk félagsmiðstöðva hefur óskað eftir frekara fjármagni en var synjað.


Til máls tók Heimir Sigurpáll Árnason og benti á þær félagsmiðstöðvar sem eru til staðar í sveitarfélaginu. Til dæmis ein í Hrísey sem vantar líka aukið fjármagn.