Aldís Ósk Arnaldsdóttir ræddi mikilvægi þess að bæta strætósamgöngur í sveitarfélaginu sérstaklega með þarfir barna, ungmenna og umhverfisins í huga. Það vantar fleiri strætóferðir um helgar. Mikilvægt er að tryggja að strætó sé á réttum tíma. Það verður að horfa til framtíðar og fjárfesta í rafmagnsstrætóum. Mikilvægt er að virðing sé borin fyrir farþegum og að þau fái þá þjónustu sem þeim ber óháð aldri, fötlun eða öðrum aðstæðum. Öll börn eru jöfn og eiga rétt á að ferðast örugglega og af virðingu.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir að þetta mál væri sett á dagskrá. Hrósaði Akureyrarbæ fyrir að það væri búið að vera ókeypis í strætó síðan árið 2006. Benti á að verið væri að færa jöfnunarstöð strætó og það hefur áhrif á áreiðanleika og hversu gott leiðanetið er. Varðandi fleiri ferðir um helgar þá er það spurning um fjármagn og hingað til hefur ekki verið vilji til þess að auka fjármagnið. Það að fá fleiri rafmagnsstrætóa þýðir að það þurfi að gera stefnumörkun til framtíðar um hvað við ætlum að gera með strætóflotann því metan er einnig til skoðunar. Ef metanið gengur ekki þá er rafmagnið klárlega framtíðin. Mikilvægt að tekið sé á því ef ekki er borin virðing fyrir ungmennum sem nota strætó.