Rætt um símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar.
Málshefjandi er Gunnar Már Gunnarsson B-lista og leggur fram svofellda tillögu ásamt Sunnu Hlín Jóhannesdóttur B-lista:
Fræðslu- og lýðheilsuráði er falið í samstarfi við ungmennaráð og fulltrúa skólasamfélagsins, skólastjórnenda, kennara og nemendaráð grunnskóla, að setja reglur um notkun síma í grunnskólum Akureyrarbæjar. Reglurnar munu taka gildi í síðasta lagi um næstu áramót og gilda þar til mennta- og barnamálaráðherra hefur lokið vinnu við mótun reglna um notkun síma í grunnskólum landsins.
Til máls tóku Hlynur Jóhannsson og Heimir Örn Árnason.
Heimir Örn Árnason D-lista og formaður fræðslu- og lýðsheilsuráðs leggur fram eftirfarandi tillögu fyrir hönd meirihlutans:
Skipaður verði starfshópur þegar niðurstöður úr könnunum fræðslu- og lýðsheilsusviðs liggja fyrir um símanotkun/reglur í grunnskólum. Hópurinn yrði samsettur af einum úr meirihluta fræðslu- og lýðheilsuráðs, einum úr minnihluta, einum náms- og starfsráðgjafa, einum skólastjórnanda, fulltrúa foreldra grunnskólabarna, fulltrúa ungmennaráðs, starfsmanni fræðslu- og lýðheilsusviðs og honum gert að rýna niðurstöðurnar og koma með tillögur um framhaldið.
Næst tóku til máls Hulda Elma Eysteinsdóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Heimir Örn Árnason.
Þá voru greidd atkvæði um tillögu meirihlutans. Ellefu greiddu atkvæði með tillögunni. Tillagan var samþykkt.
Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Heimir Örn Árnason D-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista, Andri Teitsson L-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, óska bókað:
Nú þegar eru í gildi símareglur í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar, hins vegar er í skoðun hvort að æskilegt sé að innleiða samhæfðar reglur allra skóla sveitarfélagsins. Við teljum farsælast að beðið verði eftir niðurstöðum úr þeirri könnun sem liggur fyrir og að í framhaldinu verði unnið að tillögum með öllum hlutaðeigandi.