Liður 4 í fundargerð umhverfis- og mannvirkjaráðs dagsettri 19. desember 2023:
Lagt fram minnisblað dagsett 15. desember 2023 varðandi gerð brunaflóttastiga við Ráðhúsið á Akureyri.
Ævar Guðmundsson verkefnastjóri nýframkvæmda sat fundinn undir þessum lið.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir að taka tilboði frá lægstbjóðanda Vélsmiðju Steindórs í brunastigann að upphæð kr. 19.278.578. Heildarkostnaðaráætlun fyrir verkið er kr. 35 milljónir og óskar umhverfis- og mannvirkjaráð eftir því við bæjarráð að áætlun fyrir verkefnið verði færð frá árinu 2023 til 2024.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Sindri Kristjánsson S-lista óska bókað:
Sú ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar sl. haust að fella út af framkvæmdaáætlun endurbætur og viðbyggingu við ráðhúsið er nú fallin um sjálfa sig á innan við hálfu ári miðað við þá mynd sem dregin er upp í þessu máli. Sú framkvæmd hefði haft í för með sér hagræðingu og sparnað til lengri tíma og ákjósanlegur kostur í núverandi efnahagsástandi og afar óheppilegt að fallið hafi verið frá henni.