Tjaldsvæðisreitur - endurskoðun deiliskipulags

Málsnúmer 2022061538

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 384. fundur - 06.07.2022

Til samræmis við starfsáætlun skipulagsráðs og stefnu Akureyrarbæjar er lagt til að hafin verði vinna við endurskoðun deiliskipulags fyrir svokallaðan tjaldsvæðisreit til samræmis við skilgreiningu hans sem miðsvæði í gildandi aðalskipulagi. Umræddur reitur afmarkast af Þórunnarstræti, Hrafnagilsstræti, Byggðavegi og Þingvallastræti.


Gert er ráð fyrir að Arkþing/Nordic verði skipulagsráðgjafi í verkefninu og að miðað verði við fyrirliggjandi verkáætlun.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags á tjaldsvæðisreitnum, í samræmi við gildandi aðalskipulag, með það að markmiði að á svæðinu rísi blönduð byggð. Skipulagráð telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á markvisst samráð við íbúa við undirbúning og gerð deiliskipulags á reitnum. Þá telur skipulagsráð mikilvægt í vinnu við gagnasöfnun, þarfagreiningu og undirbúning að ákvörðun verði tekin um íbúðir fyrir eldri borgara, hlutfall félagslegs leiguhúsnæðis og/eða íbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga.


Jón Hjaltason F-lista greiðir atkvæði á móti og óskar bókað:

Ég tel með öllu ótímabært að ráðast í endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit (M2 á korti). Fyrst er að kanna sem best hug bæjarbúa til svæðisins, hvort þar skuli byggja og þá fyrir hverja. Setja þarf væntanlegum deiliskipuleggjendum skýrari skipulags-mörk um það starf sem þeim verður falið sem gæti orðið til að spara þeim vinnu.


Skipulagsráð - 388. fundur - 28.09.2022

Jóhanna Helgadóttir hjá Nordic arkitektastofu kynnti fyrstu drög að lýsingu fyrir endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit sem afmarkast af Þórunnarstræti, Hrafnagilsstræti, Byggðavegi og Þingvallastræti.

Helgi Mar Hallgrímsson og Vilhjálmur Leví Egilsson hjá Nordic arkitektastofu sátu fundinn undir þessum dagskrárlið.
Skipulagsráð þakkar fyrir kynninguna.

Skipulagsráð - 392. fundur - 23.11.2022

Vilhjálmur Leví Egilsson hjá Nordic arkitektastofu kynnti drög að lýsingu deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit sem afmarkast af Þórunnarstræti, Hrafnagilsstræti, Byggðavegi og Þingvallastræti.
Skipulagsráð samþykkir að lýsingin verði kynnt skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

Skipulagsráð - 397. fundur - 01.03.2023

Kynningu á skipulagslýsingu fyrir endurskoðun deiliskipulags á tjaldsvæðisreit við Þórunnarstræti lauk þann 24. febrúar sl.

Um fimmtíu ábendingar bárust við lýsinguna og eru þær lagðar fram til kynningar ásamt umsögnum frá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands og Félagi eldri borgara á Akureyri.

Skipulagsráð - 404. fundur - 14.06.2023

Vilhjálmur Leví Egilsson og Jóhanna Helgadóttir frá Nordic arkitektastofu kynntu drög að tillögu að endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit.

Skipulagsráð - 409. fundur - 27.09.2023

Lögð fram kynningargögn sem varða drög að endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit.

Vilhjálmur Leví Egilsson frá Nordic arkitektastofu sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Skipulagsráð samþykkir að kynna hugmyndir að endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


Jón Hjaltason óskar bókað eftirfarandi:

Unnið er að mótun tjaldsvæðisreits og tel ég fyllilega tímabært að hefja almenna umræðu um þá stefnumörkun. Gagnrýnisatriði eru fjölmörg, meðal annars fjöldi íbúða/bygginga á svæðinu (190 íbúðir í 15 byggingum), hæð bygginga (allt að fjórar hæðir), stærð þjónustu- og verslunarrýmis (2.000 m²). Fleira mætti telja. Ekki síst að forsenda skipulagsins er röng, ég tala nú ekki um ef litið er á hana frá sjónarhóli þéttingarsinna. Á tjaldsvæðinu á ekki að stefna að fjölbreyttri byggð (blandaðri byggð) heldur þvert á móti, hverfið á að vera einsleitt þar sem höfuðmarkmiðið er að barnafólk byggi reitinn.

Skipulagsráð - 413. fundur - 29.11.2023

Lögð fram kynningargögn sem varða drög að endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit auk þess sem lögð eru fram drög að skýrslum er verða BREEAM vottun skipulagsins.
Jón Hjaltason óflokksbundinn óskar bókað eftirfarandi :

Á vestanverðum tjaldsvæðisreitnum, frá Hrafnagilsstræti að núverandi bílastæði við Berjaya hótel, skal koma fyrir neðanjarðar u.þ.b. 270 bílastæðum. Í þessu sambandi fer undirritaður fram á að bæjaryfirvöld láti kanna og svari eftirfarandi:


1. Hver eru möguleg áhrif slíkrar framkvæmdar á byggð vestan Byggðavegar?

Minni á í því sambandi jarðsig sem orðið hefur víða hér í bæ við framræsingu vatns, t.d. í Mýrunum.


2. Um langan aldur hefur jarðvatn leitað um tjaldsvæðið niður af brekkunni.

Mun umræddur bílakjallari stöðva þá framrás og þá með hvaða afleiðingum fyrir nálæga byggð?


3. Lagt verði mat á:

a. hvaða lagnir þarf að færa vegna framkvæmdanna,

b. kostnað við þær framkvæmdir,

c. hver komi til með að bera þann kostnað?


4. Hver er áætlaður kostnaður við að rífa húsin við Þórunnarstræti 97, verslunarhúsið við Byggðaveg 98 og spennistöð við Byggðaveg 98a?

Hverjum er ætlað að bera þann kostnað?


Þórhallur Jónsson D-Lista óskar bókað eftirfarandi :

Ég legg til að skoðað verði með að byggja þéttar og hærra allt að 5-6 hæðir á suðaustur hluta Tjaldstæðisreitsins og nýta betur. Á þeim hluta mætti fjölga íbúðum um allt að 40-60 og setja bílakjallara undir það hús. Skuggavarp af því húsi væri að mestu á bílaplan Íþróttahallarinnar. Þannig mætti gera það enn hagkvæmara að byggja á svæðinu.

Skipulagsráð - 431. fundur - 25.09.2024

Lögð fram drög að tillögu að endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreitinn. Drög að deiliskipulagi voru kynnt á tveimur fundum þann 8. nóvember 2023. Fyrst var haldinn fundur fyrir fagaðila og síðan fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila. Fljótlega á eftir fór málið í bið vegna óvissu um byggingu heilsugæslu á svæðinu.


Er tillagan nú lögð fram með ýmsum breytingum sem gerðar hafa verið til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar sem komu fram á kynningarfundum. Þá er ekki lengur gert ráð fyrir byggingu heilsugæslu við Þingvallastræti og er þar í staðinn gert ráð fyrir byggingu með blandaðri landnotkun.
Skipulagsráð samþykkir að óska eftir umsögn Norðurorku, umhverfis- og mannvirkjasviðs og velferðarsviðs um fyrirliggjandi tillögu að endurskoðun deiliskipulags tjaldsvæðisreits.