Lausaganga katta

Málsnúmer 2021102286

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3501. fundur - 02.11.2021

Rætt um lausagöngu katta.

Eva Hrund Einarsdóttir hóf umræðuna og reifaði ýmsa þætti sem snerta kattahald, ágreining um lausagöngu katta og mögulegar lausnir.

Í umræðum tóku til máls Sóley Björk Stefánsdóttir, Andri Teitsson, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Gunnar Gíslason, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Hlynur Jóhannsson, Eva Hrund Einarsdóttir, Heimir Haraldsson, Halla Björk Reynisdóttir og Lára Halldóra Eiríksdóttir.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að endurskoða samþykkt um kattahald í bænum. Í þeirri endurskoðun felist að lausaganga katta verði ekki heimil en sett svokallað sólarlagsákvæði inn sem er þrjú ár. Lausaganga katta verði þá ekki heimil frá ársbyrjun 2025. Jafnframt verði settur umtalsvert meiri kraftur í að framfylgja samþykktinni, með sérstakri áherslu á ábyrgð eigenda, skráningarskyldu og fræðslu.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista, Heimir Haraldsson S-lista og Halla Björk Reynisdóttir L-lista greiða atkvæði gegn afgreiðslunni.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Heimir Haraldsson S-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Við hörmum þá niðurstöðu bæjarstjórnar að banna alfarið frjálsa útivist hjá kisum. Bæjarfélagið hefur lítið sem ekkert gert til þess að framfylgja þeim samþykktum sem nú þegar eru í gildi, né látið á það reyna að breyta samþykktum í þá veru að sem flestir geti vel við unað. Hægt hefði verið að stíga það skref að heimila ekki frjálsa útivist að næturlagi og yfir varptíma fugla. Mikilvægara hefði verið að leita lausna fremur en að grípa til banns. Fyrst grípa á hins vegar til banns hefði verið eðlilegra að setja sólarlagsákvæði, þannig að þær kisur sem nú þegar eru útikisur fái að vera það út sinn líftíma.

Bæjarstjórn - 3510. fundur - 26.04.2022

Rætt um lausagöngu katta.

Eva Hrund Einarsdóttir hóf umræðuna og lagði fram tillögu að bókun. Auk hennar tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir og Hlynur Jóhannsson.


Bæjarstjórn samþykkir að falla frá samþykkt meirihluta bæjarstjórnar frá 2. nóvember sl., um að lausaganga katta verði alfarið bönnuð frá árinu 2025. Það er ekkert launungarmál og hefur bæði komið fram í umræðu og í könnunum að það eru afar skiptar skoðanir meðal bæjarbúa varðandi lausagöngu katta. Til þess að að ná fram sátt í málinu þá samþykkir bæjarstjórn að samþykkt um kattahald í Akureyrarbæ verði breytt með það að markmiði að sem flestir geti vel við unað. Bæjarstjórn samþykkir því að gerðar verði breytingar á 2. grein samþykktar um kattahald þar sem sett verði inn tilmæli er snúa að varptíma fugla auk þess sem sett er inn að lausaganga katta verði ekki heimil að næturlagi frá kl. 24.00 til kl. 07.00 og taki það ákvæði gildi frá og með næstu áramótum. Jafnframt leggur bæjarstjórn ríka áherslu á að nú þegar verði markviss vinna sett í það að framfylgja samþykktinni með sérstakri áherslu á ábyrgð eigenda og skráningarskyldu. Bæjarstjórn samþykkir framlagðar tillögur um breytingar á samþykkt um kattahald í Akureyrarbæ og vísar til síðari umræðu og endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar.

Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Heimir Haraldsson S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Okkur hefði þótt réttara að fallið hefði verið alfarið frá þeirri ákvörðun sem tekin var á bæjarstjórnarfundi þann 2. nóvember sl. og leggja í kjölfarið áherslu á að fara í fyrsta sinn í það verkefni að framfylgja gildandi samþykkt. Við teljum hins vegar að sú breyting sem lögð er til á samþykktinni vera tilraunarinnar virði í því að sætta sjónarmið, enda til mikils batnaðar frá fyrri ákvörðun.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Heimir Haraldsson S-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir B-lista, Eva Hrund Einarsdóttir D-lista og Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Við felum umhverfis- og mannvirkjasviði að kanna í fullri alvöru hvort að fært sé að koma á samstarfi um rekstur dýraathvarfs í heppilegu húsnæði, enda sé um að ræða þarfa þjónustu er varðar skyldur sveitarfélagsins.

Hlynur Jóhannsson M-lista óskar bókað:

Ég hefði viljað sjá okkur ná meiri sátt í þessu máli til handa þeim sem styðja bann við lausagöngu katta og banna lausagöngu einnig yfir aðal varptíma fugla.

Hlé var gert á fundi frá kl. 16:20 til 16:25