Starfshópur sem hafði það hlutverk að móta tillögur um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna hefur skilað skýrslu til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Í skýrslunni eru gerðar tillögur um breytingar á fyrirkomulagi innanlandsflugs og rekstri flugvalla og að innanlandsflug verði hagkvæmur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
Skýrslan er aðgengileg á vef stjórnarráðsins:
https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=33713415-f7dc-11e8-942f-005056bc530cMálshefjendur eru Halla Björk Reynisdóttir L-lista og Eva Hrund Einarsdóttir D-lista.
Halla Björk Reynisdóttir tók til máls og fór yfir tillögur sem settar eru fram í skýrslunni. Næst tók Eva Hrund Einarsdóttir til máls og rakti meðal annars mikilvægi uppbyggingar flugvalla utan Keflavíkur.
Í umræðum tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Gunnar Gíslason, Hilda Jana Gísladóttir (í annað sinn), Ingibjörg Ólöf Isaksen og Guðmundur Baldvin Guðmundsson
Bæjarstjórn Akureyrar fagnar nýútkominni skýrslu um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs. Að koma varaflugvöllum landsins inn í efnahagsreikning ISAVIA og að breyta eigendastefnu ISAVIA á þann hátt að hún taki mið að byggðamálum, eflingu ferðaþjónustunnar og atvinnuuppbyggingar um allt land er stórt og mikilvægt skref í uppbyggingu vallanna. Þá telur bæjarstjórn að jöfnun aðgengis landsmanna að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum með niðurgreiðslum á fargjöldum í innanlandsflugi geti verið ein stærsta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í á síðari árum. Bæjarstjórn hvetur Alþingi til þess að veita tillögunum framgang, svo að þær komist til framkvæmda hið fyrsta.