Bæjarráð hefur á fundi sínum þann 18. október 2018 vísað eftirfarandi úr viðtalstíma bæjarfulltrúa 4. október 2018 til umhverfis- og mannvirkjaráðs:
Eidís Björnsdóttir, Auður Ólafsdóttir, Ágúst Lárusson
og Einar Helgason mættu í viðtalstíma bæjarfulltrúa.
Þau vilja að ráðist verði strax í framkvæmdir við Hörgárbraut áður en dauðaslys verður
þar. Vilja fá undirgöng eða brú í stað gangbrautar og vilja fá grindverk á milli akreina svo ekki sé hægt að ganga hvar sem er yfir götuna. Fólk er mjög hrætt um börnin sín þarna og mikið um slys og árekstra. Vilja fá gönguljósin strax upp og spyrja hvar þau séu. Þau telja að betra sé að loka gangbrautinni alveg heldur en að hafa hana í því ástandi sem hún er í dag. Töluðu um að mikið væri um kappakstur þarna frá ljósunum við Olís og
upp að hringtorgi við Bónus og aftur niðureftir. Vantar að merkja betur göngubrautir í
Glerárhverfi. Nefndu einnig að það mætti vera gangbrautavörður þarna á skólatíma.
Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar hjá umhverfis- og mannvirkjasviði sat fundinn undir þessum lið.
Hörgárbrautin er þjóðvegur og eru allar framkvæmdir gerðar í samstarfi við Vegagerðina. Sumarið 2018 hófst stórt átak á og við þjóðveginn í gegnum bæinn. Ein aðgerð var að bæta við gangbrautarljósum yfir Hörgárbrautina sem tekin voru í notkun í lok október.
Unnið er að gerð deiliskipulags fyrir Tryggvabraut og gatnamót við Hörgárbraut þar sem skoðaðar verða leiðir til þess að þvera Hörgárbraut á sem öruggastan hátt.
Einnig hafa gangbrautir hringtorgsins við Undirhlíð verið lagfærðar með betri lýsingu, upplýstu gangbrautarmerki og blikkandi ljósi.