Erindi dagsett 8. desember 2016 þar sem Anton Örn Brynjarsson f.h. Fallorku ehf., kt. 600302-4180, sækir um deiliskipulagsbreytingu vegna Glerárvirkjunar II við stöðvarhús.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst frá 8. mars með athugasemdafresti til 19. apríl 2017.
Ein athugasemd barst:
1) AVH f.h. Fallorku, dagsett 4. apríl 2017.
Óskað er eftir að hámarksbyggingarmagn hækki úr 150 í 160 m². Grunnflötur og rúmmál hússins breytast ekki heldur verður möguleiki á að hafa millihæð inni í stöðvarhúsinu stærri og tryggja þar með nægjanlegt rými fyrir stjórnherbergi, snyrtingu og rofaherbergi.
Þrjár umsagnir bárust:
1) Norðurorka, dagsett 20. mars 2017.
Bent er á að lagnaendi á yfirfalli og tæmingu aðal neysluvatnstanka Akureyrar er við veg niður að stöðvarhúsinu. Sömuleiðis er þar farvegur fyrir yfirborðsvatn.
Nauðsynlegt er að framkvæmdir á svæðinu taki mið af þessu og tryggt sé að umrætt vatn, yfirfallsvatn, tæmingarvatn og yfirborðsvatn eigi greiða leið meðfram veginum og síðan út í Glerá hér eftir sem hingað til.
Þetta kallar á ræsi og öruggan frágang við fallpípu virkjunarinnar og göngustíg sem liggja á upp með Gleránni.
Rétt er að þetta komi fram í greinargerð með deiliskipulaginu og eftir atvikum á deiliskipulagsuppdrætti.
2) Minjastofnun Íslands, dagsett 21. mars 2017.
Ekki eru gerðar athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna en vakin er athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Hafa ber í huga að skammt sunnan skipulagssvæðisins eru friðaðar fornminjar en þeim má ekki raska á nokkurn hátt samkvæmt 21. grein sömu laga.
3) Umhverfisstofnun, dagsett 19. apríl 2017.
Engar athugasemdir eru gerðar en bent er á mikilvægi þess að vel sé staðið að framkvæmdum svo nærri Gleránni og að ekki verði neitt óþarfa rask við framkvæmdir.