Rætt um ráðningu í starf sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Njáll Trausti Friðbertsson D-lista óskar bókað vegna ráðningar í starf sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar sem samþykkt var í bæjarstjórn í seinna sinn 17. mars 2015, segir í 50. gr. um ráðningar í æðstu stjórnunarstöður: "Bæjarstjóri, í umboði bæjarstjórnar og að fenginni umsögn viðkomandi fagnefnda, ræður embættismenn sem heyra beint undir hann í skipuriti svo og framkvæmdastjóra fyrirtækja með sjálfstæðan fjárhag sem eru í eigu bæjarsjóðs og veitir þeim lausn frá starfi." Í ljósi þessa ákvæðis geri ég alvarlega athugasemd við þá ákvörðun bæjarstjóra að leita ekki eftir umsögn stjórnar framkvæmdaráðs við ráðningu í stöðu sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs.
Formaður framkvæmdaráðs óskar bókað eftirfarandi svar við athugasemdum Njáls eftir að hafa haft samráð við bæjarstjóra;
Samkvæmt 50 gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar segir að bæjarstjóri, í umboði bæjarstjórnar og að fenginni umsögn viðkomandi fagnefnda, ráði embættismenn sem heyra beint undir hann í skipuriti. Samkvæmt nánari skilgreiningu á hverjir teljist embættismenn segir í 9. gr. samþykktar fyrir framkvæmdaráð að bæjarstjóri ráði deildarstjóra framkvæmdadeildar og framkvæmdastjóra Fasteigna Akureyrarbæjar að fenginni umsögn framkvæmdaráðs.
Bæjarráð sem stjórnsýslunefnd bæjarins samþykkti samhljóða á fundi sínum 29. september 2016 að leggja niður störf deildarstjóra framkvæmdadeildar og framkvæmdastjóra Fasteigna Akureyrarbæjar. Bæjarstjórn staðfesti bókunina samhljóða 4. október sl.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 13. október sl. eftirfarandi bókun um nýjar stöður sviðsstjóra hjá Akureyrarbæ; Bæjarráð samþykkir framlagðar starfslýsingar. Jafnframt felur bæjarráð bæjarstjóra og aðgerðahópi umboð til að auglýsa stöður sviðsstjóra lausar til umsóknar og ganga frá ráðningum í samráði við bæjarráð.
Umræður urðu um tíðar bilanir á svifryksmælunum og hvernig þau mál standa. Mælarnir eru báðir bilaðir og er Umhverfisstofnun sem eigandi að skoða hvort gera eigi við þá.
Umræður um bókun hverfisráðs Grímseyjar um ástand gámasvæðis. Bæjartæknifræðingur upplýsti fundinn um að farið verði í framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru á síðasta ári og komust ekki til framkvæmda.
Einnig var upplýst um íbúafund um nýtt leiðakerfi strætó sem halda á 2. maí nk. í Hofi.
Sæbjörg Sylvía vekur athygli á snjómokstri og upphitun kirkjutrappanna sem er í ólestri. Einnig telur hún ótækt að almenningssalernin undir kirkjutröppunum séu lokuð og að finna þurfi lausn á salernismálum ferðamanna.