Leikfélag Akureyrar - staða rekstrar

Málsnúmer 2011080046

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3282. fundur - 18.08.2011

Farið yfir stöðu rekstrar Leikfélags Akureyrar.
Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu mætti á fundinn undir þessum lið.

Bæjarráð þakkar Þórgný fyrir yfirferðina.

Bæjarráð Akureyrar telur starfsemi Leikfélags Akureyrar mikilvæga í menningarlífi bæjarins og mikilvægt að rekstur þess verði tryggður til framtíðar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra, formanni bæjarráðs og Guðmundi Baldvini Guðmundssyni bæjarráðsmanni að vinna áfram að málinu.

Bæjarráð - 3283. fundur - 25.08.2011

Tekið fyrir að nýju. Staða rekstrar LA.

Bæjarráð samþykkir að greiða Leikfélagi Akureyrar fyrirfram allt að kr. 30 milljónir af væntanlegum framlögum næsta árs og óskar eftir við stjórn Akureyrarstofu að hún tilnefni tvo fulltrúa með fulltrúum bæjarráðs vegna frekari vinnu varðandi fjárhagsmál félagsins.

Stjórn Akureyrarstofu - 103. fundur - 25.08.2011

Farið yfir stöðuna í fjármálum Leikfélags Akureyrar. Á fundi bæjarráðs í morgun var samþykkt að greiða Leikfélagi Akureyrar fyrirfram allt að kr. 30 milljónir af væntanlegum framlögum næsta árs og óskað eftir því við stjórn Akureyrarstofu að hún tilnefni tvo fulltrúa með fulltrúum bæjarráðs vegna frekari vinnu varðandi fjárhagsmál félagsins

Stjórn Akureyrarstofu skipar Höllu Björk Reynisdóttur og Sóleyju Björk Stefánsdóttur fyrir sína hönd í hópinn.

Stjórn Akureyrarstofu leggur áherslu á að í vinnu hópsins verði farið vandlega yfir hvernig hallarekstur LA gat átt sér stað án þess að við yrði brugðist og hvar ábyrgðin liggur. Jafnframt að óháður aðili fari yfir það sem úrskeiðis fór.

Stjórn Akureyrarstofu - 104. fundur - 08.09.2011

Farið yfir drög að samkomulagi við LA um 30 mkr. fyrirframgreiðslu á væntanlegu framlagi ársins 2012.

Stjórn Akureyrarstofu gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi drög eða skilyrði fyrirframgreiðslunnar. Jafnframt samþykkir stjórnin að almennt verði gert að skilyrði í öllum samningum sem Akureyrarstofa gerir og þar sem fjárframlög eru hærri en 15 milljónir króna á ári, skili samningsaðilar árituðu milliuppgjöri og endurskoðuðu ársuppgjöri.

Bæjarráð - 3298. fundur - 24.11.2011

Þegar hér var komið vék Petrea Ósk Sigurðardóttir B-lista af fundi kl. 11:05.
Lagt fram minnisblað dags. 16. nóvember 2011 frá Karli Guðmundssyni verkefnastjóra og Jóni Braga Gunnarssyni hagsýslustjóra um úttekt sem gerð var á fjárhagsstöðu Leikfélags Akureyrar.

Bæjarráð þakkar Jóni Braga og Karli fyrir skýrsluna.

Jafnframt lítur bæjarráð svo á að vinnuhópur sem stofnaður var í september 2011 hafi lokið störfum og málið sé í höndum stjórnar Akureyrarstofu.

Stjórn Akureyrarstofu - 110. fundur - 01.12.2011

Lögð fram til kynningar og umræðu úttekt á rekstri Leikfélags Akureyrar sem gerð var í kjölfar fjárhagsvandræða þess.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar skýrsluhöfundum góða vinnu við úttektina. Ljóst er að ábyrgð á því hvernig fór í rekstri LA liggur víða og mikilvægt er að nýta úttektina til þess að draga af henni lærdóm. Stjórn Akureyrarstofu hefur þegar tekið ákvörðun um að gera breytingar á öllum samningum sem gerðir verða sem snúast um verulega fjárhagslega hagsmuni, þannig að eftirlit verði skýrara og öruggara.

Stjórn Akureyrarstofu - 110. fundur - 01.12.2011

Eiríkur Haukur Hauksson framkvæmdastjóri LA kom á fundinn og fór yfir rekstrarstöðu félagsins eins og hún er nú.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar Eiríki greinargóða upplýsingagjöf og umræður.

Stjórn Akureyrarstofu - 112. fundur - 12.01.2012

Framkvæmdastjóri Akureyrarstofu fór yfir stöðuna í málefnum Leikfélags Akureyrar eftir þá vinnu sem fram hefur farið í samstarfi bæjarins og stjórnar félagsins undanfarið. Áfram er leitað lausna á vanda LA þannig að framtíðarrekstur verði tryggður.

Bæjarráð - 3304. fundur - 19.01.2012

Eiríkur Haukur Hauksson framkvæmdastjóri LA og Saga Jónsdóttir stjórnarmaður LA mættu á fund bæjarráðs og fóru yfir stöðu rekstrar og framtíðaráform félagsins.

Bæjarráð þakkar Eiríki Hauki og Sögu fyrir yfirferðina.

Stjórn Akureyrarstofu - 116. fundur - 08.03.2012

Farið yfir stöðuna í viðræðum fulltrúa Akureyrarbæjar og stjórnar LA um lausn á rekstrarvanda félagsins. Rætt hefur verið um tvær megin leiðir til að koma rekstri félagsins á réttan kjöl. Svonefnd skemmri leið sem felur í sér að félagið fer í umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir á næsta leikári sem ásamt aðgerðum Akureyrarbæjar duga til þess að félagið verði því sem næst skuldlaust haustið 2013 og geti starfað af fullum krafti. Þessi leið gerir ráð fyrir mikilli og samningsbundinni samvinnu LA, Borgarleikhússins og Menningarfélagsins Hofs til að tryggja ásættanlegt framboð og framleiðslu á leiklist á Akureyri á næsta leikári. Hin leiðin sem nefnd hefur verið lengri leiðin felur í sér að LA fær lán fyrir öllum skuldum félagsins sem greitt yrði til baka á 5 árum með niðurskurði í rekstri á samningstímanum og árangurstengdum niðurfærslum á láninu.
Stjórn Akureyrarstofu tekur að sinni ekki afstöðu til þeirra leiða sem kynntar voru á fundinum en felur formanni stjórnar og framkvæmdastjóra að halda áfram viðræðum við stjórn LA og ítarlegri könnun á báðum kostum.

Stjórn Akureyrarstofu - 117. fundur - 16.03.2012

Farið yfir stöðuna í málefnum Leikfélags Akureyrar og þeirra leiða sem til skoðunar eru til lausnar á rekstrarvanda félagsins. Formaður stjórnar Akureyrarstofu kynnti hugmynd sem felur í sér mikla samvinnu milli LA og Menningarfélagsins Hofs jafnframt því að listrænn ráðunautur verði ráðinn fyrir næsta leikár á meðan reksturinn er réttur við.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að áfram verði unnið á grunni þeirra hugmynda sem kynntar voru á fundinum og að málið verði tekið fyrir að nýju á næsta fundi.

Stjórn Akureyrarstofu - 118. fundur - 21.03.2012

Farið yfir stöðuna í viðræðum stjórnar LA og fulltrúa Akureyrarbæjar.

Bæjarráð - 3314. fundur - 29.03.2012

Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi L-lista og formaður stjórnar Akureyrarstofu greindi frá viðræðum við LA um rekstur atvinnuleikhúss.

Stjórn Akureyrarstofu - 119. fundur - 30.03.2012

Farið yfir stöðuna í viðræðum LA og Akureyrarbæjar vegna endurnýjunar á samningi bæjarins og félagsins.

Stjórn Akureyrarstofu felur formanni stjórnar og framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að halda áfram samningagerðinni á þeim forsendum sem ræddar voru á fundinum.

Stjórn Akureyrarstofu - 121. fundur - 26.04.2012

Farið yfir drög að nýjum samningi við LA.

Meirihluti stjórnar Akureyrarstofu samþykkir samninginn fyrir sitt leyti með þeim athugasemdum sem fram komu á fundinum.

 

Helena Þ. Karlsdóttir S-lista óskar bókað:

Mikilvægt er að á Akureyri sé starfandi atvinnuleikhús. Leikfélag Akureyrar hefur verið lyftistöng menningarlífs í bænum og laðað til sín mikinn fjölda áhorfenda, bæði bæjarbúa sem og gesti. Því tel ég að taka verði hinn mikla fjárhagsvanda LA föstum tökum, rétta eigi af fjárhag félagsins á sem stystum tíma og fara í árangursríkar aðgerðir. Það er mín skoðun að semja hefði átt við LA á grundvelli tillagna sem gerðu ráð fyrir að leikfélagið yrði skuldlaust eftir eitt ár. Samkvæmt fyrirliggjandi samningi er gert ráð fyrir lengri björgunartíma, meiri óvissu og meiri hætta er á að markmiðin náist ekki. Ég tel að bærinn sé í raun að taka á sig skuldir LA án þess að tryggt hafi verið að rekið verði metnaðarfullt atvinnuleikhús í bænum til framtíðar og greiði því ekki atkvæði með samningnum.

Bæjarráð - 3318. fundur - 03.05.2012

1. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 26. apríl 2012:
Farið yfir drög að nýjum samningi við LA.
Meirihluti stjórnar Akureyrarstofu samþykkir samninginn fyrir sitt leyti með þeim athugasemdum sem fram komu á fundinum.

Helena Þ. Karlsdóttir S-lista óskar bókað:
Mikilvægt er að á Akureyri sé starfandi atvinnuleikhús. Leikfélag Akureyrar hefur verið lyftistöng menningarlífs í bænum og laðað til sín mikinn fjölda áhorfenda, bæði bæjarbúa sem og gesti. Því tel ég að taka verði hinn mikla fjárhagsvanda LA föstum tökum, rétta eigi af fjárhag félagsins á sem stystum tíma og fara í árangursríkar aðgerðir. Það er mín skoðun að semja hefði átt við LA á grundvelli tillagna sem gerðu ráð fyrir að leikfélagið yrði skuldlaust eftir eitt ár. Samkvæmt fyrirliggjandi samningi er gert ráð fyrir lengri björgunartíma, meiri óvissu og meiri hætta er á að markmiðin náist ekki. Ég tel að bærinn sé í raun að taka á sig skuldir LA án þess að tryggt hafi verið að rekið verði metnaðarfullt atvinnuleikhús í bænum til framtíðar og greiði því ekki atkvæði með samningnum.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir samninginn.

Hermann Jón Tómasson S-lista sat hjá við afgreiðslu.

Hermann Jón Tómasson S-lista óskar bókað:

Ég tek undir bókun fulltrúa S-lista í stjórn Akureyrarstofu og greiði því ekki atkvæði með samningnum.

Stjórn Akureyrarstofu - 123. fundur - 10.05.2012

Stjórn Leikfélags Akureyrar hefur boðið stjórn Akureyrarstofu að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum stjórnar LA fram að næsta aðalfundi félagsins og á meðan undirbúnar eru tillögur um að breyta LA í sjálfseignarstofnun.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að skipa Helenu Þ. Karlsdóttur sem áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnar LA.

Stjórn Akureyrarstofu - 128. fundur - 05.09.2012

Ragnheiður Skúladóttir listrænn stjórnandi og Eiríkur Haukur Hauksson framkvæmdastjóri LA komu á fundinn undir þessum lið og fóru yfir starfsemina á komandi vetri og stöðu rekstrarins.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar þeim Ragnheiði og Eiríki fyrir komuna á fundinn og óskar Leikfélaginu til hamingju með metnaðarfulla vetrardagskrá.

Bæjarráð - 3408. fundur - 03.04.2014

Soffía Gísladóttir formaður, Ragnheiður Skúladóttir leikhússtjóri og Eiríkur Haukur Hauksson framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar mættu á fund bæjarráðs og fóru yfir stöðu Leikfélagsins.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Guðmundur Baldvin Guðmundsson áheyrnarfulltrúi B-lista á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarráð og var það samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum. Guðmundur Baldvin Guðmundsson vék af fundi við umræðu málsins.

Bæjarráð þakkar þeim Soffíu, Ragnheiði og Eiríki Hauki fyrir komuna.

Stjórn Akureyrarstofu - 160. fundur - 03.04.2014

Soffía Gísladóttir formaður, Ragnheiður Skúladóttir leikhússtjóri og Eiríkur Haukur Hauksson framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar mættu á fund stjórnarinnar og fóru yfir stöðu Leikfélagsins. Fram kom að stjórn félagsins óskar eftir því að samningur þess við Akureyrarbæ verði tekinn upp til endurskoðunar.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að fela formanni og framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að ræða við félagið um þær óskir.

Bæjarráð - 3409. fundur - 10.04.2014

Erindi dags. 7. apríl 2014 frá stjórn Leikfélags Akureyrar þar sem óskað er eftir því við bæjarráð að það taki til skoðunar tillögu sem miðar að því að verja stöðu leiklistar sem atvinnugreinar á Akureyri.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarráð og var það samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Bæjarráð frestar afgreiðslu.

Bæjarráð - 3410. fundur - 15.04.2014

Tekið fyrir að nýju, erindi dags. 7. apríl 2014 frá stjórn Leikfélags Akureyrar þar sem óskað er eftir því við bæjarráð að það taki til skoðunar tillögu sem miðar að því að verja stöðu leiklistar sem atvinnugreinar á Akureyri. Áður á dagskrá bæjarráðs 10. apríl sl.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarráð og var það samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Bæjarráð samþykkir að flýta greiðslum ársins 2014 til þess að greiða skuldir og að standa við skuldbindingar sem þegar hefur verið stofnað til vegna leikárs 2013-2014.

Bæjarráð getur hinsvegar ekki fært fjármagn frá árinu 2015 til ársins 2014, þar sem að það verður ekki í þess höndum að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir það ár.

Með þessu er bæjarráði ljóst að Leikfélag Akureyrar getur ekki staðið við skuldbindingar um framleiðslu á leiklist það sem eftir lifir ársins 2014.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með að viðræður um samrekstur Leikfélags Akureyrar, Menningarfélagsins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, séu komnar á fullt skrið. Ljóst er að í nýju sameinuðu félagi gefast aukin tækifæri til þess að standa fyrir metnaðarfullri leiklistarframleiðslu á Akureyri undir merkjum Leikfélags Akureyrar.

Logi Már Einarsson S-lista sat hjá við afgreiðslu.

Sigurður Guðmundsson A-lista óskar bókað:

Ég tel eðlilegt í ljósi þessa að framkvæmdastjóri og stjórn LA í heild sinni víki eigi síðar en 1. júní nk.