Erindi frá stjórn Dagvistunar sem lagt var fram á fundi 16. mars 2011. Þar eru gerðar nokkrar athugasemdir við fyrirkomulag og reglur á greiðslum til dagforeldra vegna niðurgreiðslu Akureyrarbæjar á vistun barna hjá dagforeldrum. M.a. er farið fram á að niðurgreiðslur renni beint til foreldra en ekki dagforeldra eins og nú er. Þá er einnig farið fram á að Akureyrarbær semji við dagforeldra um veikindadaga, þannig að þegar dagforeldri er veikt og getur ekki sinnt starfi sínu fái það niðurgreiðsluna frá bænum.
Sesselja Sigurðardóttir leikskólaráðgjafi á skóladeild sat fundinn undir þessum lið og gerði grein fyrir svörum við athugasemdum sem fram komu í erindinu.
Einnig voru lögð fyrir skólanefnd drög að vinnureglum vegna niðurgreiðslu á daggæslugjöldum.
Skólanefnd samþykkir fyrir sitt leyti þau svör sem lögð voru fram af skóladeild við athugasemdum við fyrirkomulag og reglur á niðurgreiðslum vegna daggæslugjalda. Skólanefnd getur ekki orðið við erindinu um veikindadaga dagforeldra að svo stöddu en samþykkir að taka þjónustusamninga við dagforeldra til endurskoðunar, við gerð fjárhagsáætlunar 2012. Skólanefnd hafnar því að niðurgreiðslur fari til foreldra í stað dagforeldra. Skólanefnd samþykkir fyrirliggjandi drög að vinnureglum vegna niðurgreiðslu á daggæslugjöldum.