Málsnúmer 2015060128Vakta málsnúmer
Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:
Aflið - samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi hefur starfað á Akureyri frá árinu 2002. Starfsemin hefur ávallt byggt á ósérhlífni hugsjónafólks og er það samdóma álit þeirra sem til þekkja að þar hafi verið unnið ómetanlegt starf í gegnum tíðina. Aflið hefur átt í góðu samstarfi við þá aðila sem koma að þjónustu við þolendur ofbeldis, svo sem Akureyrarbæ, lögregluna á Akureyri, slysa- og bráðamóttöku SAk, geðdeild SAk, Kvennaathvarfið í Reykjavík og Símey.
Fyrir marga er það mjög stórt skref að leita sér hjálpar. Það skiptir því máli að aðgengið að þjónustunni sé gott, en Aflið hefur opinn síma allan sólarhringinn, auk þess að taka við beiðnum í tölvupóstum og á samskiptamiðlum. Ráðgjafar eru í viðbragðsstöðu og stökkva til með litlum fyrirvara ef nauðsyn krefur. Mikilvægt er að þolendur geti unnið úr reynslu sinni í heimabyggð óháð efnahag.
Fjárframlög af hálfu hins opinbera hafa verið af mjög skornum skammti. Starfsemi Aflsins hefur liðið fyrir fjárskort og allt of mikill tími og orka hefur farið í fjáröflun til að standa undir brýnustu verkefnum. Aflið hefur því reglulega sent út neyðarkall sem félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki víðs vegar á Norðurlandi hafa svarað með fjárframlögum. Þrátt fyrir að framlög til Aflsins hafi aukist lítillega á undanförnum árum er staðan sú að starfsemi samtakanna er í uppnámi. Aflið hefur ekki efni á að ráða starfsmann, þó ekki væri nema í hálft starf. Öll umsýsla og fjáröflun hvílir því á herðum sjálfboðaliða.
Aflið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki á Akureyri og á Norðurlandi öllu, ef ekki víðar. Þótt það sé jákvætt að þjónusta við þolendur sé efld með ráðningu sálfræðings á SAk kemur það ekki í stað þeirrar þjónustu sem Aflið veitir. Rannsóknir hafa sýnt að jafningjastuðningur við úrvinnslu ofbeldisreynslu er afar mikilvægur í bland við faglegan stuðning. Þar gegna félagasamtök mjög mikilvægu hlutverki.
Fyrir hönd samfélagsins og þolenda ofbeldis óskum við þess að félagsmálaráðherra tryggi Aflinu nauðsynlegt fjármagn til að standa vörð um sambærilega þjónustu á landsbyggðinni og veitt er á höfuðborgarsvæðinu.
Því næst leitaði 1. varaforseti afbrigða til að taka á dagskrá málin "Kaup á listaverki til heiðurs Vilhelmínu Lever" sem verði 1. liður á dagskrá og "Bæjarstjórn Akureyrar - breytingar í nefndum" sem verði 2. liður á dagskrá og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
Einnig leitaði 1. varaforseti afbrigða til að skipa Evu Hrund Einarsdóttur D-lista fundarstjóra til vara á þessum bæjarstjórnarfundi og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.