Málsnúmer 2012060063Vakta málsnúmer
1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 16. janúar 2013:
Tillaga að aðalskipulagsbreytingunni var auglýst í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga þann 17. október með athugasemdafresti til 28. nóvember 2012. Auglýsingar birtust í Dagskránni, Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu. Gögnin voru aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar, í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og hjá Skipulagsstofnun.
Tvær athugasemdir bárust:
1) Landslög f.h. SS-Byggis ehf, dags. 28. nóvember 2012.
Skipulagsbreytingunni er mótmælt þar sem með henni er leitast við að klæða ólögmæta innheimtu gatnagerðargjalda í lögmætan búning hvað varðar byggingarsvæði Hálanda. Sjá nánar í bréfi.
2) Hörgársveit, dags. 28. nóvember 2012.
Ekki er gerð athugasemd við breytingartillöguna að öðru leyti en því að sveitarfélagamörk Akureyrarkaupstaðar og Hörgársveitar séu ekki rétt dregin á uppdráttum.
Innkomnar umsagnir:
Bréf Umhverfisstofnunar dags. 9. október 2012 vegna skipulagslýsingar og aðalskipulagsbreytingar. Ekki eru gerðar athugasemdir við skipulagslýsingu og auglýsingu aðalskipulagsbreytingar.
Í bréfi Skipulagsstofnunar dags. 3. október 2012 er ekki gerð athugasemd við að breytingin verði auglýst en vakin athygli á að skoða þarf samræmi við lög nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.
Ekki barst umsögn frá Eyjafjarðarsveit.
Svör við athugasemdum:
1) Sjá svar við athugasemdinni í meðfylgjandi skjali merktu "Landslög, SS-Byggir - svör við athugasemdum dags. 16.1.2013".
2) Samkvæmt upplýsingum í minnisblaði dags. 15. mars 2010 frá Landmælingum Íslands eru sveitarfélagamörk Hörgársveitar og Akureyrarkaupstaðar leiðrétt í samræmi við ákvæði er koma fram í lögum nr. 107/1954 en þar er tilgreint að mörkin skulu vera við norðurmörk jarðanna Ytra-Krossaness, Grænhóls, Mýrarlóns og Hrappstaða (sjá viðhengi "Hörgársveit_11032010.pdf"). Á grundvelli þessara gagna samþykkir skipulagsnefnd breytingu á sveitarfélagamörkunum.
Eftir auglýsingartíma voru þéttbýlismörk norðan Hlíðarfjallsvegar færð að hluta til ofar í hlíðina þannig að þau fylgja nú fjallsgirðingu til norðurs.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Í upphafi fundar leitaði forseti afbrigða til að taka á dagskrá málið "Bæjarstjórn Akureyrar og borgarstjórn Reykjavíkur - samstarfsvettvangur" og var það samþykkt samhljóða. Málið verður nr. 2 á dagskránni.