Bæjarstjórn

3462. fundur 05. nóvember 2019 kl. 16:00 - 20:01 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Heimir Haraldsson
  • Hlynur Jóhannsson
  • Andri Teitsson
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Gunnar Gíslason
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2020-2023

Málsnúmer 2019020276Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 31. október 2019:

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Eva Hrund Einarsdóttir og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2020-2023 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson fór yfir helstu þætti áætlunarinnar.

Í umræðum tóku til máls Gunnar Gíslason, Sóley Björk Stefánsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Halla Björk Reynisdóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Andri Teitsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Hlynur Jóhannsson og Þórhallur Jónsson.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að vísa fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2020-2023 til frekari yfirferðar í bæjarráði og síðari umræðu í bæjarstjórn.

Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Gunnar Gíslason D-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Þórhallur Jónsson D-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram eftirfarandi bókun:

Á undanförnum árum hefur ítrekað verið gagnrýnt við afgreiðslu á fjárhagsáætlun að bæta þyrfti vinnubrögð, setja fram rauntölur um áætlaðan kostnað en ekki óskir, leggja meiri vinnu í 3 ára áætlunina og leggja fyrir allar nefndir, vinna og samþykkja 10 ára áætlun með skýrri forgangsröðun verkefna og auka raunverulegt samráð við gerð áætlunarinnar við minnihlutann ef ætlunin er að fá samþykki hans.

Nú er það svo að ýmislegt hefur verið fært til betri vegar s.s. gagnavinnsla ýmiskonar sem skýrir forsendur og breytingar á áætluninni. Þarna skiptir greinargerðin og starfsáætlanir miklu máli. Það má því segja að gagnrýnin hafi skilað einhverju hvað þetta varðar. Hins vegar er það svo enn að vinnubrögðin og vinnuferlið er ekki nægjanlega markvisst og gegnsætt og lítil sem engin vinna lögð í langtímaáætlanir. Það var ekki boðað til fundar með lykilstjórnendum og pólitískum fulltrúum í vor þar sem farið er yfir faglegar og pólitískar forsendur áætlunar og þess gætt að allt sem fyrir liggur sé hluti af fjárhagsramma næsta árs.

Þá liggur enn og aftur fyrir fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir verulegum halla á A-hlutanum sem er í sjálfu sér óásættanlegt með öllu. Á síðasta kjörtímabili var farið í mikla vinnu við að leita leiða til hagræðingar í rekstri. Í kjölfarið tókst að halda rekstri í sæmilegu jafnvægi en árið 2018 er bætt við tæplega 40 stöðugildum sem ekki var til fjármagn fyrir og því þurfti m.a. að grípa til hagræðingaraðgerða í fyrirliggjandi áætlun sem náðust þó ekki að fullu. Þessi fjármálastjórn er mjög sveiflukennd og gerir alla áætlanagerð erfiðari og á margan hátt neikvæðari fyrir allt starfsfólk og íbúa ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem fylgir í kjölfarið. Þetta styður þá skoðun okkar enn frekar að það er full þörf á að gera vandaða langtímaáætlun og leggja þannig upp stefnu til lengri tíma.

Af þessum sökum getum við engan veginn samþykkt fjárhagsáætlun 2020 og hvað þá 2020-2023.

2.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2019 - viðauki

Málsnúmer 2018050147Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 31. október 2019:

Lagður fram viðauki 8.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir framlagðan viðauka að upphæð 7,5 milljónir króna og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista situr hjá við afgreiðslu.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti efni viðaukans.
Meirihluti bæjarstjórnar staðfestir ákvörðun bæjarráðs.

Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.

3.Starfs- og fjárhagsáætlun frístundaráðs 2020 - gjaldskrá Hlíðarfjalls

Málsnúmer 2019050307Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 31. október 2019:

Liður 3 í fundargerð frístundaráðs dagsettri 23. október 2019:

Gjaldskrá Hlíðarfjalls fyrir árið 2020 lögð fram til samþykktar.

Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður Hlíðarfjalls sat fundinn undir þessum lið.

Meirihluti frístundaráðs samþykkir framlagða gjaldskrá og vísar henni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarráði.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir D-lista og Viðar Valdimarsson M-lista sátu hjá.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir að hækkun gjaldskrár Hlíðarfjalls verði að jafnaði um 2,5%. Frítt verði í Hólabraut. Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Andri Teitsson kynnti málið.
Meirihluti bæjarstjórnar staðfestir ákvörðun bæjarráðs.

Þórhallur Jónsson D-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.
Forseti bar upp tillögu um að liðir 4, 5 og 6 á dagskrá yrðu kynntir í einu lagi og síðan greidd atkvæði um dagskrárliðina hvern fyrir sig. Var það samþykkt samhljóða.

4.Hólasandslína 3 - aðalskipulagsbreyting vegna tilfærslu

Málsnúmer 2019090345Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 30. október 2019:

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi í samræmi við bókun skipulagsráðs frá 25. september 2019 sem felur í sér breytingu á legu Hólasandslínu 3 á tveimur stöðum. Annars vegar á svæði sunnan flugvallar og hins vegar á svæði meðfram reiðvegi norðan frístundasvæðis við Kjarnalund. Meðfylgjandi er umsögn Isavia dagsett 16. október 2019, Minjastofnunar dagsett 23. október 2019 og Umhverfisstofnunar dagsett 21. október 2019.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að breytingu á aðalskipulagi verði samþykkt. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem hún hefur hvorki verulegar breytingar á landnotkun í för með sér né sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða áhrif á stór svæði.

Ingibjörg Ólöf Isaksen kynnti tillögur skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Akureyrarflugvöllur - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2019030397Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 30. október 2019:

Erindi dagsett 28. mars 2019 þar sem Gísli Kristinsson fyrir hönd Landsnets hf., kt. 580804-2410, sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir Akureyrarflugvöll vegna Hólasandslínu 3. Er breytingin til samræmis við tillögu að breytingu á aðalskipulagi sem einnig er til afgreiðslu.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Breiðholt - umsókn um breytt deiliskipulag vegna Hólasandslínu 3

Málsnúmer 2019100360Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 30. október 2019:

Erindi dagsett 21. október 2019 þar sem Árni Ólafsson fyrir hönd Landsnets hf., kt. 580804-2410, leggur inn tillögu að breyttu deiliskipulagi í hesthúsahverfi Breiðholts vegna Hólasandslínu 3. Meðfylgjandi er uppdráttur.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Rangárvellir 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2018010252Vakta málsnúmer

Liður 7 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 30. október 2019:

Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis á Rangárvöllum sem nær til lóða 3, 4 og 6 ásamt innkomnum athugasemdum og umsögnum. Þá er einnig lögð fram tillaga að umsögn um efnisatriði athugasemda og umsagna, dagsett 25. október 2019 auk álits fyrrverandi skipulagsfulltrúa, Bjarka Jóhannessonar, dagsett 17. maí 2019 á samræmi deiliskipulagsbreytingarinnar við gildandi aðalskipulag. Eins og bókað var á fundi skipulagsráðs 9. október 2019 er gert ráð fyrir að lóð nr. 3 verði utan skipulagsmarka.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt, ásamt tillögu að umsögn um athugasemdir, með þeirri breytingu að textinn "Lóðarstækkun fyrirhuguð síðar" verði felldur út auk þess sem afmörkun stækkunar verði tekin út og gróðurbeltið aðlagað að því.

Ingibjörg Ólöf Isaksen kynnti gögn málsins og tillögur skipulagsráðs.

Í umræðum tóku til máls Sóley Björk Stefánsdóttir og Þórhallur Jónsson.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir tillögu skipulagsráðs.

Eva Hrund Einarsdóttir D-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins.

8.Hafnarstræti 34 - umsókn um breytt deiliskipulag

Málsnúmer 2019090300Vakta málsnúmer

Liður 8 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 30. október 2019:

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi á lóðinni Hafnarstræti 34 til samræmis við bókun skipulagsráðs frá 9. október 2019. Í breytingunni felst að lóðinni er breytt í íbúðarhúsalóð, gert ráð fyrir að fjarlægja megi núverandi atvinnuhúsnæði og byggja í staðinn tvö íbúðarhús með allt að 8 íbúðum. Eru afmörkuð 8 ný stæði á lóðinni. Þá er einnig gert ráð fyrir að lóð spennistöðvar minnki þannig að núverandi gata og bílastæði verði utan hennar.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar gerðar hafa verið minniháttar lagfæringar á gögnum í samráði við skipulagssvið.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

9.Reglur um leikskólaþjónustu

Málsnúmer 2018020315Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð fræðsluráðs dagsettri 28. október 2019:

Endurskoðaðar reglur um leikskólaþjónustu hjá Akureyrarbæ lagðar fram til staðfestingar.

Fræðsluráð samþykkir framlagðar tillögur um breytingar á reglum um leikskólaþjónustu.

Ingibjörg Ólöf Isaksen kynnti breytingatillögurnar.

Í umræðum tóku til máls Eva Hrund Einarsdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Eva Hrund Einarsdóttir (í annað sinn), Hlynur Jóhannsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Gunnar Gíslason, Hlynur Jóhannsson (í annað sinn), Halla Björk Reynisdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Eva Hrund Einarsdóttir (í þriðja sinn).

Borin upp tillaga Evu Hrundar Einarsdóttur D-lista um að vísa reglunum aftur til frekari úrvinnslu í fræðsluráði.

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að vísa reglum um leikskólaþjónustu til frekari úrvinnslu í fræðsluráði.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins.

10.Flugstefna Íslands - drög

Málsnúmer 2019110002Vakta málsnúmer

Rætt um drög að flugstefnu Íslands sem lögð voru fram með drögum að samgönguáætlun 2020-2034.

Halla Björk Reynisdóttir reifaði málið frá og kynnti loks bókun bæjarstjórnar.

Í umræðum tóku til máls Gunnar Gíslason, Hilda Jana Gísladóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Þórhallur Jónsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Hilda Jana Gísladóttir (í annað sinn), Þórhallur Jónsson (í annað sinn), Gunnar Gíslason (í annað sinn), Hilda Jana Gísladóttir (í þriðja sinn), Guðmundur Baldvin Guðmundsson (í annað sinn), Eva Hrund Einarsdóttir (í annað sinn), Ingibjörg Ólöf Isaksen og Hlynur Jóhannsson.
Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun með 11 samhljóða atkvæðum:

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með tillögu að flugstefnu og samgönguáætlun til næstu 5 ára sem lagðar hafa verið fram af stjórnvöldum.

Í samgönguáætluninni er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli næstu fimm árin.

Miklum kröftum og fjármunum hefur verið varið til að byggja upp ferðaþjónustu, afþreyingu, hótel og innviði á Norðurlandi á síðustu árum. Enn fremur er markaðssetning heimamanna undanfarin ár farin að skila árangri með auknum áhuga erlendra flugrekenda. Þá hefur flestum flugtæknilegum hindrunum verið rutt úr vegi á Akureyrarflugvelli. Umferð millilandaflugs hefur verið að aukast síðustu misseri og áform um að sú umferð aukist enn frekar. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun virðist vera nánast ógjörningur að fá samþykki fyrir stækkun flugstöðvarinnar þannig að hægt sé að taka með sómasamlegum hætti á móti þeim erlendu ferðamönnum sem hingað koma með flugi. Forsvarsmenn erlendra ferðaskrifstofa hafa bent á að þarna sé pottur brotinn sem geti haft veruleg áhrif á getu þeirra til að selja ferðir til Akureyrar.

Í mörg ár hefur verið beðið eftir að flughlað Akureyrarflugvallar verði stækkað án þess að því verki hafi verið lokið. Nú er búið að keyra umtalsverðu magni af efni í hlaðið en enn vantar að ljúka verkinu þannig að það geti nýst starfsemi á vellinum. Formaður öryggisnefndar atvinnuflugmanna hefur bent á að núverandi staða á flughlaðinu á Akureyrarflugvelli hamli raunverulega daglegum rekstri vallarins og lítið þurfi að bregða út af til þess að flugvöllurinn teppist vegna plássleysis. Þá er flughlaðið forsenda þess að hægt sé að byggja upp atvinnulóðir á flugvellinum, en fyrirtæki á svæðinu hafa viljað byggja allar götur síðan 2013.

Bæjarstjórn væntir þess að stjórnvöld gangi sem fyrst til verka og leggi til nægt fjármagn til þess að sú vinna sem hefur verið unnin og það fjármagn sem hefur nú þegar verið sett í uppbyggingu fari ekki í súginn heldur nýtist samfélaginu til heilla. Ítrekað hefur komið fram hjá stjórnvöldum, ráðherrum og þingmönnum að nauðsynlegt sé að bregðast við ástandinu á Akureyrarflugvelli og því er með öllu óskiljanlegt að ekki skuli vera búið að fjármagna þessi verkefni.

11.Snjómokstur í bæjarlandinu

Málsnúmer 2018120024Vakta málsnúmer

Umræða um snjómokstur á Akureyri að ósk Gunnars Gíslasonar D-lista. Óskað er eftir svörum frá meirihlutanum um stefnu hans í snjómokstri. Hefur stefnan breyst frá því sem verið hefur undanfarin ár? Ef svo er, þá hvernig? Ef stefnan hefur ekki breyst, hvað olli þá því að mokstri var svo illa sinnt sem raun bar vitni undanfarnar vikur?

Gunnar Gíslason hóf umræðuna. Auk hans tóku til máls Andri Teitsson og Sóley Björk Stefánsdóttir.
Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Gunnar Gíslason D-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Þórhallur Jónsson D-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Þegar upplýsingar um snjómokstur og hálkuvarnir á heimasíðu Akureyrarbæjar eru skoðaðar verður ekki annað séð en að það skuli vandað til verka og þar er forgangsröðunin skýr með hagsmuni barna í brennidepli. Það kemur hins vegar ekkert fram um það hvenær sé eðlilegt að byrja verkið þegar snjóar, sem hlýtur að vera frekar til vansa í ljósi þess hvernig snjómokstri var sinnt eða ekki sinnt í síðastliðinni viku. Það er skoðun okkar að snjómokstur og hálkuvarnir séu hluti af grunnþjónustu sveitarfélagsins og það hljóti alltaf að vera krafa um að öryggi vegfarenda, gangandi, hjólandi og akandi sé tryggt að teknu tilliti til aðstæðna. Öryggi í umferðinni felst í því að gangandi og hjólandi vegfarendur og þá sérstaklega börn haldi sig á gangstígum og gangstéttum meðfram akbrautum. Til þess að svo sé er grundvallar atriði að hreinsa og hálkuverja göngustíga og gangstéttir. Það á ekkert síður við um göturnar þar sem hætta á árekstrum og ákeyrslum vex mikið ef götur eru ekki ruddar og hálkuvarðar þar sem við á. Það getur aldrei verið réttlætanlegt að setja líf, limi og eignir íbúa í þá hættu sem skapaðist í síðustu viku vegna þess að ekki var staðið eðlilega að snjómokstri og hálkuvörnum. Það getur aldrei verið réttlætanlegt að spara fjármuni á þennan hátt fyrir Akureyrarbæ en auka útgjöld og þjáningar þeirra íbúa sem verða fyrir slysum og eignatjóni. Af þessu má ljóst vera að það er nauðsynlegt að skerpa á stefnu Akureyrarbæjar svo þetta ástand skapist ekki aftur hér í bæ.

12.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 17. október 2019
Bæjarráð 17., 24. og 31. október 2019
Fræðsluráð 9. og 23. október 2019
Skipulagsráð 30. október 2019
Stjórn Akureyrarstofu 10. og 24. október 2019
Umhverfis- og mannvirkjaráð 11. október 2019
Velferðarráð 16. október 2019

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 20:01.