Málsnúmer 2019020276Vakta málsnúmer
Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 31. október 2019:
Lögð fram drög að fjárhagsáætlun.
Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Eva Hrund Einarsdóttir og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2020-2023 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson fór yfir helstu þætti áætlunarinnar.
Í umræðum tóku til máls Gunnar Gíslason, Sóley Björk Stefánsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Halla Björk Reynisdóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Andri Teitsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Hlynur Jóhannsson og Þórhallur Jónsson.
Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Gunnar Gíslason D-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Þórhallur Jónsson D-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram eftirfarandi bókun:
Á undanförnum árum hefur ítrekað verið gagnrýnt við afgreiðslu á fjárhagsáætlun að bæta þyrfti vinnubrögð, setja fram rauntölur um áætlaðan kostnað en ekki óskir, leggja meiri vinnu í 3 ára áætlunina og leggja fyrir allar nefndir, vinna og samþykkja 10 ára áætlun með skýrri forgangsröðun verkefna og auka raunverulegt samráð við gerð áætlunarinnar við minnihlutann ef ætlunin er að fá samþykki hans.
Nú er það svo að ýmislegt hefur verið fært til betri vegar s.s. gagnavinnsla ýmiskonar sem skýrir forsendur og breytingar á áætluninni. Þarna skiptir greinargerðin og starfsáætlanir miklu máli. Það má því segja að gagnrýnin hafi skilað einhverju hvað þetta varðar. Hins vegar er það svo enn að vinnubrögðin og vinnuferlið er ekki nægjanlega markvisst og gegnsætt og lítil sem engin vinna lögð í langtímaáætlanir. Það var ekki boðað til fundar með lykilstjórnendum og pólitískum fulltrúum í vor þar sem farið er yfir faglegar og pólitískar forsendur áætlunar og þess gætt að allt sem fyrir liggur sé hluti af fjárhagsramma næsta árs.
Þá liggur enn og aftur fyrir fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir verulegum halla á A-hlutanum sem er í sjálfu sér óásættanlegt með öllu. Á síðasta kjörtímabili var farið í mikla vinnu við að leita leiða til hagræðingar í rekstri. Í kjölfarið tókst að halda rekstri í sæmilegu jafnvægi en árið 2018 er bætt við tæplega 40 stöðugildum sem ekki var til fjármagn fyrir og því þurfti m.a. að grípa til hagræðingaraðgerða í fyrirliggjandi áætlun sem náðust þó ekki að fullu. Þessi fjármálastjórn er mjög sveiflukennd og gerir alla áætlanagerð erfiðari og á margan hátt neikvæðari fyrir allt starfsfólk og íbúa ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem fylgir í kjölfarið. Þetta styður þá skoðun okkar enn frekar að það er full þörf á að gera vandaða langtímaáætlun og leggja þannig upp stefnu til lengri tíma.
Af þessum sökum getum við engan veginn samþykkt fjárhagsáætlun 2020 og hvað þá 2020-2023.