Bæjarráð

3754. fundur 13. janúar 2022 kl. 08:15 - 09:20 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Andri Teitsson
  • Gunnar Gíslason
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Sóley Björk Stefánsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Andri Teitsson L-lista mætti í forföllum Höllu Bjarkar Reynisdóttur.
Hlynur Jóhannsson M-lista boðaði forföll fyrir sig og varamann sinn.

1.EES samstarfsverkefni með pólsku borginni Jelenia Góra

Málsnúmer 2021120573Vakta málsnúmer

Kynning á EES samstarfsverkefni með pólsku borginni Jelenia Góra.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri mannauðssviðs, Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssviðs og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð telur rétt að skoða möguleika á þátttöku í samstarfsverkefninu og felur bæjarstjóra ásamt starfsmönnum að eiga fjarfund með borgarstjóra og fulltrúum Jelenia Góra um málið.

2.Eyjafjarðarsveit - beiðni um leigu á spildu úr landi Botns

Málsnúmer 2021101241Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. október 2021 frá Finni Yngva Kristinssyni sveitarstjóra Eyjarfjarðarsveitar þar sem óskað er eftir að Akureyrarbær leigi Eyjafjarðarsveit 10.000 fermetra landspildu út landi Botns fyrir gámasvæði.

Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 21. október sl. og var bæjarstjóra þá falið að ræða við bréfritara.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir erindið með þeim skilyrðum að Eyjafjarðarsveit nýti gámasvæðið til að fræða ungmenni um nýtingu, endurvinnslu og flokkun í anda skilyrða gjafaafsals um Botn og felur bæjarstjóra að ganga frá samningi við Eyjafjarðarsveit.

3.Hlíðarfjall og Strýta - Ghost mountain ehf. - beiðni um umsögn - rekstrarleyfi

Málsnúmer 2022010459Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. janúar 2022 frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra þar sem óskað er umsagnar vegna umsóknar Sölva Antonssonar f.h. Ghost mountain ehf. um rekstrarleyfi samkvæmt flokki II fyrir veitingastað í Hlíðarfjalli og Strýtu, Akureyri.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarlögmanni að senda inn umsögn vegna rekstrarleyfis.

Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég tel sölu áfengis í Hlíðarfjalli ganga harðlega gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar og á engan hátt viðeigandi á þessu svæði þar sem ungt fólk, börn og fjölskyldur hafa hingað til notið útivistar og samveru sem er að mínu mati mikilvægur þáttur í þjónustu við íbúa bæjarins. Þessi ákvörðun samræmist á engan hátt því ákvæði í samstarfssáttmála bæjarstjórnar að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Vert er að benda á að mikil hætta getur skapast í brekkunum sé skíðafólk ekki með fulla stjórn á hreyfingum sínum.

4.Áform um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 (íbúakosningar um einstök mál) í samráðsgátt

Málsnúmer 2022010249Vakta málsnúmer

Lögð fram áform um frumvarp til breytinga á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (íbúakosningar um einstök mál) sem hafa verið birt í Samráðsgátt. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskar eftir umsögnum um áformin eigi síðar en 14. janúar 2022.

Áformin má finna á slóðinni: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3107

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð Akureyrarbæjar telur mjög mikilvægt að endurskoða lagaumhverfi íbúakosninga til þess að þær gagnist sem hluti af íbúasamráði. Bæjarráð fagnar því fyrirhuguðum áformum um breytingu á X. kafla sveitarstjórnarlaga um samráð við íbúa.

5.Byggðakvóti handa Hrísey og Grímsey - fiskveiðiárið 2021-2022

Málsnúmer 2021121088Vakta málsnúmer

Rætt um tillögu um sérreglur vegna byggðakvóta.

Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 6. janúar sl. og var bæjarstjóra og Gunnari Gíslasyni bæjarfulltrúa þá falið að ræða við hagaðila og leggja tillögur fyrir bæjarráð.
Bæjarráð óskar eftir að veitt verði undanþága í 6. gr. reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Óskað er eftir því að vinnsluskylda á byggðakvóta verði felld niður í sérreglum Akureyrarbæjar um úthlutun byggðakvóta í Grímsey.

Rökin fyrir beiðninni eru einkum eftirfarandi: Grímsey hefur verið skilgreind sem brothætt byggð og er hluti af samnefndu verkefni á vegum Byggðastofnunar. Í dag er engin vinnsla starfandi í Grímsey en landaður afli er umtalsverður og er hann fluttur í burtu til vinnslu í landi.

Ekki hefur verið talinn grundvöllur til að reka vinnslu í eyjunni með það magn sem þar kemur á land í dag. Í dag eru nánast allir þeir sem stunda sjósókn og landa í Grímsey búsettir í eyjunni og allar útgerðirnar sem þar landa eru með lögheimili í eyjunni. Það þjónar hagsmunum byggðarinnar í Grímsey að vinnsluskyldan verði felld niður í ljósi núverandi stöðu annars yrði engum byggðakvóta úthlutað í eyjunni.

Ekki er óskað eftir breytingum á reglugerð um úthlutun byggðakvóta í Hrísey.

Fundi slitið - kl. 09:20.