Dagskrá fundarins:
- Erindi til Eyjafjarðarsveitar varðandi Hvamms- og Kjarnaflæðar.
- Þröskuldur í Brunná
Afgreiðsla nefndarinnar – fundarsamþykkt:
1. Erindi til Eyjafjarðarsveitar varðandi Hvamms- og Kjarnaflæðar.
Beiðni landeigenda í Hvammi um landfyllingu og endurræktun hluta Hvammsflæða hefur nú verið samþykkt í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar. Samþykktin grundvallaðist að verulegu leyti á miðlunartillögu Óshólmanefndar, sem lagði hana fram til að viðhalda jákvæðum samskiptum við landeigendur. Tillagan og afstaða nefndarinnar var skilyrt við aðgerðir sem tryggt gætu til frambúðar votlendi á því sem eftir er af Hvamms- og Kjarnaflæðum. Þessi atriði voru ekki tekin með í afgreiðslu skipulagsnefndar og sveitarstjórnar og eru það veruleg vonbrigði.
Við framkvæmdir við lengingu flugbrautar 2008 var Brunnáin grafin út fram í Eyjafjarðará og fleiri atriði við framkvæmdina leiddu til verulegrar lækkunar vatnsstöðu. Loforð voru gefin um mótvægisaðgerðir til að endurheimta fyrri vatnsstöðu en af því hefur ekki orðið enn (sjá nánari umfjöllun í fundargerðum Óshólmanefndar 9. desember 2021 og 7. desember 2022).
Í umsögn Umhverfisstofnunar varðandi fyrirhugaða landfyllingu kemur fram að stofnunin leggi áherslu á varðveislu þess votlendis sem eftir er í samræmi við lög um verndun votlendis.
Óshólmanefndin telur að Eyjafjarðarsveit beri hér umtalsverða ábyrgð. Til þess að endurheimta og viðhalda votlendinu þarf að stýra vatnshæð á flæðunum fyrst og fremst með þröskuldi/hindrun á útrennsli Brunnár í Eyjafjarðará. Hæð á þröskuldi og þar með vatnshæð á flæðunum þarf að ákveðast í samráði við landeigendur í Hvammi, Akureyrarbæ og ISAVIA.
Óshólmanefndin óskar eftir því að skipulagsnefnd og/eða sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi, í beinu framhaldi af samþykkt um landfyllinguna, frumkvæði að því að slíkt samkomulag verði gert. Nefndin er jafnframt tilbúin til að taka þátt í gerð slíks samkomulags.
Jafnframt gerir nefndin ráð fyrir að framkvæmd landfyllingarinnar fari eftir þeim reglum sem um slíkt gilda.
2. Þröskuldur í Brunná
Þröskuldurinn í Brunná var lækkaður í vetur frá því sem var s.l. haust og er í raun horfinn. Ekki liggur fyrir hver gaf fyrirmæli um það. Nefndin hvetur hlutaðeigandi aðila til að bregðast strax við svo lífríkið beri ekki meiri skaða af.
Formanni nefndarinnar falið að senda Eyjafjarðarsveit erindi skv. 1. lið fundargerðarinnar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.30