Dagskrá fundarins:
Eitt mál var á dagskrá fundarins, tölvupóstur frá Jóni Birgi Gunnlaugssyni á Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrar til formanns nefndarinnar, dagsettur 30. mars s.l. Í tölvupóstinum er greint frá því að til standi að setja þröskuld í Brunnána í hönnunarhæð skv. teikningum Verkíss. Er þetta hluti af frágangi eftir lagningu Hólasandslínu gegnum svæðið. Tölvupóstinum fylgdu einnig tvö minnisblöð um málið, annað frá 19/1 2022 og hitt frá 19/8 2022.
Afgreiðsla nefndarinnar - fundarsamþykkt:
Óshólmanefnd telur að þegar gengið hefur verið frá þröskuldi í útrennsli Brunnár við Eyjafjarðará í samræmi við tölvupóst frá Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar 30. mars 2023 hafi Landsnet skilað svæðinu eins og það var áður en framkvæmdir við lagningu jarðstrengsins hófust.
Eftir standa vanefndir á loforðum sem gefin voru áður en flugbrautin var lengd og vegur lagður meðfram aðflugsljósum suður Kjarna- og Hvammsflæðar. Óshólmanefnd hefur áður rakið það mál ítarlega í erindi frá fundi nefndarinnar 9. desember 2021 sem sent var Landsneti og ISAVIA og samrit til Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar og Sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar. Erindi þetta er sent aftur hér með í fylgiskjali til upprifjunar, (fylgiskjal 1).
Framkvæmdir við lengingu flugbrautarinnar hófust snemma vors 2008. Miðað við dagsetningu á teikningunni frá Verkís er hún unnin í endaðan júlí 2008 (?) og í minnisblaðinu frá Akureyrarbæ dagsett 19.08.2022 segir “ … er gert ráð fyrir þröskuldi í Brunná til að halda uppi grunnvatnsstöðu á svæðinu.” Þarna er ekki tilgreint eða gefið neitt viðmið um hver vatnshæð flæðanna er og ekki kemur fram hvort yfirborð flæðanna var hæðarmælt áður en nokkrar framkvæmdir hófust. Þar af leiðandi er því miður óljóst við hvaða grunnvatnsstöðu er miðað.
Hins vegar kemur fram í skýrslu vegna fuglatalningar á Óshólmasvæðinu sem framkvæmd var árið 2010 af sérfræðingum á því sviði að fuglalífi á Kjarna- og Hvammsflæðum hafi hrakað verulega frá árinu 2000 vegna framkvæmda við lengingu flugbrautarinnar og vegarlagningu meðfram aðflugsljósum og að flæðarnar hafi nánast þornað upp. Þarna er af þeim sem gjörþekkja svæðið staðfest að vatnsstaðan hefur breyst verulega utan þeirra svæða sem fóru beint undir framkvæmdir. Það er því augljóst að mun neikvæðari áhrif hafa orðið vegna þessarra framkvæmda heldur en ráð var fyrir gert. Því hefði verið eðlilegt að strax væri gripið til mótvægisaðgerða eins og fyrirheit voru gefin um en það var ekki gert.
Óshólmanefnd hefur ítrekað óskað eftir að ráðstafanir verði gerðar til að endurheimta votlendi á svæðinu eins og nokkur kostur er og þar með gróðurfar og lífríki og þannig endurheimta að nokkru hið mjög mikilvæga fæðusvæðis fugla sem flæðarnar voru. Nefndin telur ekki að þröskuldur í farvegi Brunnár eins og hann er sýndur á teikningu Verkís nægi til þess.
Formanni nefndarinnar var falið að svara tölvupósti Jóns Birgis og gera þannig grein fyrir afstöðu nefndarinnar með eftirfarandi erindi:
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Erindi til Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar
frá fundi Óshólmanefndar 4. apríl 2023
Óshólmanefnd telur fullvíst að sá þröskuldur sem Umhverfis og mannvirkjasvið
Akureyrarbæjar áformar að setja í útrennsli Brunnár samkvæmt tölvupósti frá Jóni Birgi
Gunnlaugssyni 30. mars s.l., sem er allnokkru lægri en var síðasta sumar, nægi ekki til að
endurheimta votlendi á Kjarna- og Hvammsflæðum. Póstinum fylgja 2 minnisblöð frá árinu
2022 en ekki kemur fram nein tilvísun í fund hjá Umhverfis- og mannvirkjasviði þar sem
þessi ákvörðun hafi verið tekin.
Óshólmanefnd óskar eindregið eftir að þessi ákvörðun Umhverfis- og mannvirkjasviðs
verði endurskoðuð og í samráði við landeigendur í Hvammi verði þröskuldurinn í
útrennsli Brunnár settur að einhverju marki hærrri en teikningin frá Verkís sýnir.
Svæðið verði svo vaktað í sumar og skoðað hverju þetta skilar og staðan endurmetin.
Sjá nánari rökstuðning í fylgiskjali I
Fylgiskjöl:
I Fundarsamþykkt Óshólmanefndar
II Erindi Óshólmanefndar frá 9. desember 2021
Samrit sent Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og landeigendum í Hvammi
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitil kl. 18:45