Beiðni um álit varðandi ósk um framkvæmdaleyfi fyrir landfyllingu í Hvammi.
Þann 25. nóv s.l. óskar Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar álits Óshólmanefndar varðandi fyrirliggjandi erindi Heimavallar, þ.e. landeigenda í Hvammi, um að þeim verði heimilað að hækka land og rækta tún á Hverfisverndarsvæðinu á samtals tæplega 20 ha. Lauslega áætlað nær þessi beiðni til ca 75% af því sem eftir er af því óræktaða landi jarðarinnar sem tilheyrir Hverfisverndarsvæðinu og fellur verulegur hluti þess undir votlendi. Áður hefur tæplega 8 ha af verndarsvæðinu verið breytt í tún.
Óshólmanefnd telur þessi áform ganga gegn markmiðum hverfisverndarinnar. Einnig minnir hún á að auk hverfisverndar er svæðið á Náttúruminjaskrá Íslands og leita þarf álits Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar varðandi allar framkvæmdir eða röskun (sbr. Náttúruverndarlög frá 2015).
Óshólmanefnd telur æskilegast að verndarsvæðið fái að haldast óskert en verði talið nauðsynlegt að koma til móts við landeigendur mun nefndin ekki leggjast gegn því að heimiluð verði ræktun á þurrasta hlutanum meðfram Eyjafjarðará svo fremi að ofangreindar stofnanir gefi leyfi til þess.
Þessa afstöðu sína skilyrðir Óshólmanefnd við:
- að votlendi verði viðhaldið á Hvamms- og Kjarnaflæðum með þröskuldi í Brunná eða öðrum nauðsynlegum ráðstöfunum í samráði við landeigendur
- að ekki verði gerðar neinar ráðstafanir til frekari þurrkunar á Hvammsflæðum s.s. með ræsagerð eða skurðum
- að ekki verði gengið frekar á óræktað land á Hvammsflæðum
Nánari skýring á afstöðu Óshólmanefndar:
Þann 5. júní 1998 var undirritað samkomulag milli Eyjafjarðarsveitar, Akureyrarbæjar og ISAVIA um Hverfisverndarsvæði. Sá hluti svæðisins sem tilheyrir Eyjafjarðarsveit er allur í einkaeign. Landeigendur sýndu mikla framsýni og skilning á mikilvægi verndunar með því að skuldbinda sitt land undir þessa hverfisvernd. Auk hverfisverndarinnar gilda Náttúruverndarlög um votlendi og svæðið er á Náttúruminjaskrá Íslands.
Samsvarandi erindi frá Heimavelli um landfyllingu og ræktun var tekið fyrir í Óshólmanefnd árið 2017 og þá farin vettvangsferð um svæðið með landeigendum. Á fundi nefndarinnar 2. nóv. 2017 var gerð eftirfarandi bókun:
“Eftir vettvangsferðina ítrekar Óshólmanefnd bókun sína frá 19. okt. um að gerð verði fuglatalning á hverfisverndarsvæðinu vor/sumar 2018. Einnig telur nefndin nauðsynlegt að Akureyrarbær, Isavia og Eyjafjarðarsveit, í samráði við landeigendur, geri fyrir 15. apr 2018 ráðstafanir til þess að fyrri vatnsstaða náist á Kjarna- og Hvammsflæðum. Bent skal á að vatnsvegum á svæðinu hefur verið breytt, bæði með dýpkun og ræsagerð. Óshólmanefndin leggur til að erindi Heimavallar verði frestað um sinn en tekið til afgreiðslu þegar niðurstöður liggja fyrir varðandi ofangreind atriði. Þá verður metið hvort Óshólmanefnd telur unnt að koma til móts við óskir Heimavallar án þess að ganga gegn markmiðum hverfisverndarinnar.”
Fuglatalning fór fram sumarið 2020. Talningin staðfesti að fuglum á Hvamms- og Kjarnaflæðum hefur fækkað verulega og ljóst að framkvæmdir á vegum ISAVIA við lengingu flugbrautar og veglagningu meðfram aðflugsljósum (2008-2009) hafa haft mjög neikvæð áhrif á fæðusvæði þeirra en fleira kemur þar til s.s. skurðgröftur fram í Eyjafjarðará. Í forsendum að framkvæmdaleyfum til ISAVIA útgefnum af Akureyrarbæ er skilyrt að vatnsstaða verði óbreytt eftir að framkvæmdum lýkur. Bæði Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun töldu nauðsynlegt að vakta áhrif framkvæmdanna á Kjarna- og Hvammsflæðar og fuglalífið og grípa til mótvægisaðgerða ef áhrifin yrðu meiri en framkvæmdaaðilar töldu líkur á. Var það í raun skilyrði fyrir því að framkvæmdin færi ekki í umhverfismat. Framkvæmdaaðilar skuldbundu sig til mótvægisaðgerða ef með þyrfti til að standa við þetta (sjá nánari upplýsingar í erindi frá Óshólmanefnd til Landsnets og ISAVIA sent 10. des 2021, afrit sent á umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar og Eyjafjarðarsveit).
S.l. sumar var loks gerð tilraun til að endurheimta a.m.k. hluta fyrri vatnsstöðu með því að hækka þröskuld í farvegi Brunnár þar sem hún rennur í Eyjafjarðará. Áhrifa af þessu gætti inn á Hvammsflæðar eins og vænta mátti og Óshólmanefndin tekur undir það að eðlilegt hefði verið að hafa samband við landeigendur í Hvammi þegar þetta var gert. Óshólmanefnd hefur ekki fengið upplýsingar um hverju þessi aðgerð skilaði varðandi endurheimt votlendisins né heldur hvort fyrirhugaðar eru frekari aðgerðir og þá hverjar. Niðurstaða í þessu máli er því ekki fengin og því telur nefndin seinni lið ofangreindrar bókunar ósvarað. Nefndin telur að Akureyrarbær, ISAVIA og Eyjafjarðarsveit þurfi að gera grein fyrir afstöðu sinni og áætlunum varðandi það mál sem og hverfisverndina í heild því hugsanlega koma í framtíðinni fleiri erindi sem ganga gegn markmiðum hennar.