Óshólmanefnd

11. fundur 28. mars 2022 kl. 15:00 - 16:30 Flugstöðin á Akureyri
Nefndarmenn
  • Emilía Baldursdóttir
  • Hjördís Þórhallsdóttir
  • Gunnfríður Hreiðarsdóttir
  • Ólafur Kjartansson
  • Valdimar Gunnarsson
Fundargerð ritaði: Valdimar Gunnarsson
  1. Farið var yfir þau verkefni sem fallist hafa til frá því fundur var haldinn 9. des 2021.

A)    Erindi barst frá Jónasi Valdimarssyni hjá Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar vegna hönnunar á göngu- og hjólastíg norðan Leiruvegar. Óshólmanefnd ítrekaði mikilvægi leirusvæðanna fyrir fuglalíf og benti á nokkur atriði sem huga þarf að. Svarbréf nefndarinnar er í fskj. 1

B)    25. febrúar var Óshólmanefnd boðið á fund með Umhverfis- og Mannvirkjaráði Akureyrarbæjar. Þar var fjallað um erindi Óshólmanefndar frá 9. des um frágang eftir lögn Hólasandslínu og endurheimt votlendis sunnan flugvallar. Tekið var jákvætt í erindið svo sem má sjá í fundargerð sbr. fskj. 2

C)    17. mars var haldinn fundur með starfsmönnum Umhverfis og mannvirkjasviðs auk fulltrúa frá Skipulagsdeild, Isavia, Landsneti og Verkís. Farið var yfir stöðu á frágangi eftir línulög. Varðandi endurheimt votlendis á Kjarnaflæðum var málinu vísað til frekari úrvinnslu af þeim sem eiga hlut að málinu. Sjá fundargerð í fskj. 3.

D)    Þann 24. mars var farin vettvangsferð að Brunnánni ásamt fulltrúa Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar og Sverri Thorstensen. Athugun leiddi í ljós að hækka þarf þröskuldinn í ánni meir en gert hefur verið til að standa við áður gert samkomulag. Fulltrúi Umhverfis- og mannvirkjasviðs tók að sér að láta hæðarmæla svæðið áður en verkið hefst.  Sjá minnisblað fskj. 4.

  1. Óshólmanefnd telur að sú byrjunarhækkun sem Landsnet lét setja í Brunnána 18. mars sl. hafi að einhverju leyti mistekist og telur eðlilegt að bætt verði úr sem allra fyrst, þótt ekki verði haldið áfram með verkið til loka fyrr en á haustdögum.

  2. Óshólmanefnd telur brýnt að gerð verði víðtæk athugun á ástandi flæðanna sunnan flugvallar og metið hvaða aðgerða þarf að grípa til svo náð verði markmiðum um endurheimt vatnsstöðu svæðisins. Eðlilegt er að Akureyrarbær hafi frumkvæði að slíku verki.

  3. Óshólmanefnd vekur athygli á því að í skýrslu um fuglatalningu árið 2020 kemur fram ábending um að friðlýsa hluta óshólmasvæðisins. Nefndin leggur áherslu á að unnið verði að slíkri friðlýsingu í samráði við alla landeigendur.  Einnig bendir nefndin á að eðlilegt mætti telja að stækka hverfisverndarsvæðið til norðurs eins og leirur ná.