Óshólmanefnd

9. fundur 11. mars 2021 kl. 17:00 - 18:00 Flugstöðin á Akureyri
Nefndarmenn
  • Emilía Baldursdóttir
  • Ólafur Kjartansson
  • Hjördís Þórhallsdóttir
  • Valdimar Gunnarsson
  • Gunnfríður Hreiðarsdóttir hafði boðað forföll

1        Rætt var um fyrirhugaðan baðstað við fjöruna sunnan Leiruvegar að austanverðu.

 

Óshólmanefndin fagnar því að horfið hefur verið frá áður ætlaðri landfyllingu við framkvæmdirnar. Einnig er ánægjulegt að sjá að framkvæmdaaðili ætlar sér að hafa sem minnst neikvæð áhrif á náttúrulíf svæðisins og ásýnd.

Þar sem lónið, aðliggjandi skipulagssvæðinu, leirur þess og fjörur eru á náttúruminjaskrá vegna mikilvægi fuglalífs m.a. á hverfisverndarsvæðinu telur Óshólmanefndin það falla undir sitt starfssvið að setja fram eftirfarandi ábendingar um atriði sem enn þarf að huga betur að:

 

A. 

Nefndin telur varhugavert að hleypa frárennsli frá laugunum út í lónið. Jafnvel þótt hitastig verði komið niður í 10-12 gráður þegar vatnið fer út í lónið gæti það valdið breytingum á örverum og trúlega aukið bakteríulíf sem aftur hefði hugsanlega neikvæð áhrif á fuglalífið. Leirurnar framan við lækjarósinn þar sem mætast ferskvatn og saltvatn eru einmitt mjög mikilvægur fæðustaður en þar yrðu neikvæð áhrif útrennslisins hvað mest.

Fullyrðing um að heita vatnið úr Vaðlaheiðargöngum hafi ekki valdið skaða þar sem það rennur nú er órökstudd. Vitað er að örverulíf í læknum hefur breyst en ekki hafa verið gerðar nákvæmar rannsóknir á þessu.

Óshólmanefndin telur því mikilvægt að affall úr laugunum fari ekki út í lónið og vísar til þess að lónið er á náttúruminjaskrá vegna mikilvægi þess fyrir fuglalíf auk þess sem allar leirur eru friðaðar.

 

B.

Einnig er mikilvægt að yfirborðsvatn af bílastæði fari ekki út í lónið þar sem það getur verið verulega mengað. Í deiliskipulagstilögunni er ekki gerð grein fyrir hvernig þessu verður háttað. Hið sama á við um snjómokstur af plani og stígum að varhugavert er vegna hugsanlegrar mengunar að flytja snjóinn út í lónið eða norður fyrir hringveginn nálægt ræsi þar sem gætir flóðs og fjöru inn í lónið.

 

C.

Í deiliskipulagstillögunni er í lið 5 um umhverfisáhrif sagt að fuglalíf sé „ … líklega nokkuð í fjörunni …” Til er skýrsla um fuglalífið á og við lónið unnin 1994-2004 af Sverri Thorsteinssen og Jóni Magnússyni fyrir Björgun ehf. Frá því hún var gerð hefur fuglalíf aukist á svæðinu. Það væri mjög jákvætt að framkvæmdaaðili léti gera nýja fuglatalningu á svæðinu, bæði hvað varðar varp en ekki síður fæðuöflun, nú áður en framkvæmdir hefjast og síðan aftur  eftir að starfsemin er hafin. Það gæti ef vel er að öllu staðið orðið staðfesting á að tilkoma baðstaðarins hafi ekki skaðað fuglalíf á svæðinu.

 

D.

Í skipulagstillögunni er ekki tilgreint hvenær árs hver verkþáttur er áætlaður en mikilvægt er að tímasetning framkvæmdanna taki sem mest tillit til fuglalífsins.

 

 

2        Línulögn Hólasandslínu meðfram gamla hólmaveginum.

Þar sem nú er lokið röralögn í allar kvíslar Eyjafjarðarár er brýnt að ljúka öllum frágangi við farveg og bakka kvíslanna. Mikilvægt er að frágangi farveganna ljúki fyrir vorleysingar í ánni. Óshólmanefndin vill beina þeim eindregnu tilmælum til framkvæmdaaðila að láta þetta verk ekki dragast.

        

3        Lokið er fuglatalningu ársins 2020 og er skýrsla væntanleg á næstunni. Óshólmanefndin mun verða boðuð á kynningu skýrslunnar.

 

4        Rætt var um deiliskipulag hverfisverndarsvæðisins sem ekki hefur verið lokið. Nefndin telur brýnt að þessu verki verði lokið á einn eða annan hátt.

 

         Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 18:00