Mætt: Emilía Baldursdóttir, Valdimar Gunnarsson, Ólafur Kjartansson
Dagskrá:
1. Erindi afgreitt milli funda
Lögð fram bókun vegna tölvupóstsamskipta við Friðriku Marteinsdóttur hjá EFLU f.h. Landsnets.
Erindi afgreitt milli funda
Þann 22. febrúar 2019 barst tölvupóstur frá Friðriku Marteinsdóttur hjá EFLU f.h. Landsnets vegna lagningar jarðstrengs fyrirhugaðrar Hólasandslínu um Hólmana.
Ekki var haldinn fundur í Óshólmanefndinni vegna þessa heldur var erindið afgreitt með tölvupóstsamskiptum nefndarmanna. Þann 28. febrúar var eftirfarandi svar sent í tölvupósti til Friðriku:
Svar við erindi frá EFLU varðandi lögn Hólasandslínu um óshólma Eyjafjarðarár
Óshólmanefnd tekur undir þá hugmynd sem gerir ráð fyrir að verktími við strenglögn yfir óshólmasvæði Eyjafjarðarár verði á bilinu frá miðjum september til aprílloka í síðasta lagi. Í sambandi við þessa framkvæmd minnir nefndin á að mikilvægt er að eðlilegri vatnshæð votlendissvæðanna verði náð áður en byrjar að gróa og farfuglar koma til sumardvalar á svæðinu. Þess ber að geta að vatnsstaða Hvamms og Kjarnaflæða hefur enn ekki verið leiðrétt eftir síðustu lengingu flugbrautarinnar þrátt fyrir loforð um slíkt í undirbúningi þess verkefnis. Áætlanir um viðskilnað strenglagnarinnar verða að gera ráð fyrir efndum á því loforði. Fulltrúi ISAVIA í Óshólmanefndinni vill koma því á framfæri að vel verði samt gætt að því hvort hækkun vatnsstöðu frá því sem nú er kunni að hafa neikvæð áhrif á flugöryggi.
Óshólmanefndin leggur áherslu á að eftir að framkvæmdum lýkur verði aðeins 1 vegslóði samnýttur fyrir aðkomu að lögninni og göngu-og reiðleið. Á það sérstaklega við um svæðið sunnan flugvallar og í hólmanum austan við vestustu kvísl þar sem gera þarf nýjan slóða út að gömlu þverbrautinni. Við leiðarval þar verði leitast við að raska sem minnst búsetusvæði fugla. Þá er rétt að minna á áður framkomna ábendingu um nauðsyn þess að halda opinni göngu- og reiðleiðinni meðan á framkvæmdum stendur og að sjálfsögðu einnig að henni lokinni.
2. Deiliskipulag óshólmasvæðisins
Emilía lagði fram ýmis gögn varðandi deiliskipulagstillögur sem unnar voru árið 2004 og afgreiddar 2007 til skipulagsnefnda en fengu aldrei staðfestingu.
Óshólmanefnd skorar á sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og bæjarstjórn Akureyrarbæjar að láta hið fyrsta ljúka deiliskipulagi óshólmasvæðisins.
3. Framkvæmdir vegna flugleiðsögubúnaðar
Leitað hefur verið tilboða í hönnun nýrrar brúar yfir vestustu kvísl Eyjafjarðarár. Ennfremur er unnið að undirbúningi uppsetningar nýs flugleiðsögubúnaðar. Óshólmanefnd treystir því að leiðin yfir kvíslina verði ætíð opin.
4. Náttúruvöktun
Þar sem fyrir liggur skuldbinding beggja sveitarfélaganna og Isavia um fuglatalningu á hverfisverndarsvæðinu árið 2020 minnir Óshólmanefnd á að undirbúningur verksins þarf að hefjast á þessu ári. Auk þess þarf að ætla þessu verkefni sérstaka fjárveitingu á komandi fjárhagsári.
5. Upplýsinga- og fræðsluskilti
Óshólmanefnd mælist til þess að sem fyrst verði komið á varanlegan stað þeim upplýsinga- og fræðsluskiltum um hverfisverndarsvæðið sem gerð hafa verið í Eyjafjarðarsveit.
6. Önnur mál
Óshólmanefnd minnir enn á að hún telur nokkuð skorta á viðbrögð við þeim erindum sem nefndin hefur sent til viðkomandi sveitarstjórna. Nefndin ítrekar óskir um að erindi hennar verði tekin formlega fyrir eftir efnum og ástæðum hverju sinni og málalok kynnt nefndinni.
Fleira gerðist ekki.
Fundargerð ritaði Valdimar Gunnarsson