Viðstaddir voru: Emilía Baldursdóttir, Valdimar Gunnarsson, Ólafur Kjartansson, Dagbjört Pálsdóttir, Arnar Sigurðsson og Jón Birgir Gunnlaugsson.
1. Aldursforseti setti fund og var síðan gengið til kosninga formanns og ritara. Emilía Baldursdóttir var kosin formaður og Valdimar Gunnarsson ritari.
2. Borist hafa svör við þeim spurningum sem fram komu á síðasta fundi nefndarinnar varðandi nýtt deiliskipulag Akureyrarflugvallar.
3. Samkvæmt svari frá Isavia eru sáralítil áhrif frá sendunum á dýr og plöntulíf. Þar sem möguleiki er á umferð ökutækja úr málmi um árbakkann frá suðurenda flugvallar norður að brú – en slík umferð gæti truflað sendinn - verður ekki gerð krafa um að hinni gömlu leið verði haldið opinni.
Að fengnum þessum upplýsingum um öryggissjónarmið sem gera færslu girðingar við suðausturhorn flugbrautarinnar nauðsynlega setur nefndin sig ekki á móti henni enda framkvæmdin öll talin falla undir almannaheill. Hins vegar verður að tryggja að ný brú fyrir gangandi og ríðandi umferð verði sett á vestustu kvísl Eyjafjarðarár og stígur lagður til tengingar við gömlu þverbrautina. Mikilvægast er að öllum þessum framkvæmdum verði hagað þannig að þær trufli fuglalíf á svæðinu sem minnst, bæði til lengri og skemmri tíma.
Augljóst er að samanlagðar breytingar á flugvallarsvæðinu skerða búsetu- og fæðusvæði fugla allnokkuð. Því ítrekar Óshólmanefndin fyrri bókun sína um nauðsyn þess að endurheimta fyrri vatnsstöðu á Kjarna- og Hvammsflæðum, þ.e. áður en Brunnáin var dýpkuð 2008, og að fuglatalning verði gerð á öllu óshólmasvæðinu eigi síðar en 2020. Undirbúningur fyrir slíka talningu þarf að hefjast á næsta ári.
4. Önnur mál.
Önnur mál reyndust engin og sleit formaður fundi kl. 18:10
Fundargerð ritaði Valdimar Gunnarsson