Það er frábært að búa á Akureyri. Þjónusta er mikil og fjölbreytt, vegalengdir eru stuttar og nóg til af húsnæði.
Á Akureyri er fjölbreytt atvinnulíf og gífurlegt framboð afþreyingar. Auk þess eru óvíða betri aðstæður til að lifa umhverfisvænum lífsstíl.
Akureyri er fjölskyldubær, menningarbær, íþróttabær, grænn bær og svo margt fleira.
Komdu fagnandi – við tökum vel á móti þér!
Hér eru helstu upplýsingar fyrir þá sem ætla að flytja til Akureyrar:
Ráðhús
Þjónustuver sveitarfélagsins í Ráðhúsi, Geislagötu 9, er opið virka daga kl. 9-15. Símanúmer Akureyrarbæjar er 460-1000.
Hér er hægt að senda fyrirspurn eða ábendingu til sveitarfélagsins.
Íbúaskrá/flutningstilkynning
Tilkynna skal flutning til Þjóðskrár Íslands innan sjö daga eftir að flutt er. Það er hægt að gera rafrænt eða í afgreiðslu Þjóðskrár á Akureyri, Hafnarstræti 107.
Ef verið er að flytja til landsins þarf að mæta í eigin persónu í afgreiðslur Þjóðskrár í Reykjavík eða hjá næsta lögreglustjóra (hér á Akureyri er það á Lögreglustöðinni, Þórunnarstræti 138).
Munið að láta Póstinn vita um breytt heimilisfang, því Íslandspóstur fær ekki sjálfvirkar tilkynningar um flutning frá Þjóðskrá.
Þjónustugáttin
Akureyrarbær leggur áherslu á rafræna stjórnsýslu. Þjónustugáttin sem er aðgengileg hér á heimasíðunni er meginfarvegur erinda. Þar er hægt að sækja um ýmsa þjónustu og leyfi, skoða reikninga og fylgjast með afgreiðslu sinna mála. Þar er einnig hægt að sjá yfirlit yfir nýtingu frístundastyrks barna á aldrinum 6-17.
Húsnæði og heimili
Viltu byggja? Á kortavef Akureyrarbæjar er hægt sjá myndrænt yfirlit yfir lausar byggingarlóðir. Sótt er um lóðir í gegnum þjónustugáttina. Hér eru frekari upplýsingar um lóðaúthlutanir, gjaldskrá o.fl.
Leigjendur. Á Akureyri er virkur leigumarkaður. Á Facebook-síðunni "Leiguíbúðir á Norðurlandi" eru reglulega auglýstar íbúðir til leigu á almennum markaði. Akureyrarbær útvegar leiguhúsnæði til handa einstaklingum og fjölskyldum sem hafa ekki kost á að afla sér húsnæðis með öðrum hætti og úthlutar einnig sérstökum húsnæðisstuðningi. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um húsnæðisúrræði og stuðning sveitarfélagsins.
Kaupendur. Á Akureyri eru starfandi hátt í 10 fasteignasölur og er yfirleitt nóg af alls konar húsnæði til sölu, hvort sem þú leitar að gömlu eða nýju, sérbýli eða fjölbýli. Þótt fasteignaverð hafi á undanförnum árum þokast uppávið á Akureyri, líkt og víðast hvar annars staðar, þá er það lágt í samanburði við höfuðborgarsvæðið.
Hér eru ýmsar upplýsingar um húsnæði fyrir leigjendur og húseigendur.
Hiti og rafmagn
Norðurorka sér um vinnslu og dreifingu á heitu vatni, neysluvatni og raforku til heimila og fyrirtækja. Norðurorka sér einnig um uppbyggingu og rekstur fráveitu. Á heimasíðu fyrirtækisins er að finna ýmsan fróðleik og upplýsingar um þjónustuna. Viðskiptavinir geta nálgast nánari upplýsingar er þá varða á "mínum síðum" á heimasíðunni.
Þjónustuver Norðurorku er upplýsingaveita fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Hægt er að hafa samband við þjónustuverið í síma 460-1300 eða með tölvupósti á no@no.is.
Umhverfismál og sorphirða
Akureyrarbær leggur mikla áherslu á umhverfismál og eru óvíða betri innviðir til að lifa umhverfisvænt. Vegalengdir eru stuttar, auðvelt að ganga eða hjóla milli staða, auk þess sem alltaf er frítt í strætó. Þá er metanafgreiðslustöð á Akureyri og nokkrar hleðslustöðvar fyrir rafbíla.
Á heimasíðu sveitarfélagsins eru ýmsar upplýsingar og fróðleikur um umhverfismál.
Akureyringar flokka úrgang og leggja sig fram við að urða sem minnst. Hér eru upplýsingar um sorphirðu, gámasvæðið, klippikort, grenndarstöðvar og fleira.
Börn og unglingar
Möguleikar ungmenna til að þroskast og vaxa í leik og starfi eru nær óþrjótandi á Akureyri. Skólakerfið byggir á traustum grunni, stutt er á milli staða og nálægð við náttúruna mikil.
Hér má nálgast upplýsingar um barnavernd, þjónustu við fötluð börn, forvarnir, sumarnámskeið, frístundastyrk, útivistarreglur og æskulýðs- og tómstundastarf.
Akureyrarbær vinnur markvisst að því að verða barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF. Verkefnið snýst um að innleiða Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og alla starfsemi Akureyrarbæjar.
Menntun
Dagforeldrar er starfandi í öllum hverfum Akureyrar. Þeim sem leita að dagforeldri fyrir börn sín er bent á að hafa samband beint við þá og skrá sig á biðlista. Einnig er hægt að hafa samband við fræðslu- og lýðheilsusvið og fá aðstoð og ráðleggingar. Hér eru ýmsar upplýsingar um þessa þjónustu og listi yfir dagforeldra.
Akureyrarbær rekur níu leikskóla og styrkir einn einkarekinn leikskóla, Hólmasól, sem er starfræktur af Hjallastefnunni. Leikskólaval er í gildi á Akureyri, sem þýðir að leikskólar eru ekki hverfaskiptir heldur byggja þeir á mismunandi stefnum og aðferðum og geta foreldrar valið þann sem þeim líst best á. Hér eru allar upplýsingar um leikskóla
Grunnskólar Akureyrarbæjar eru tíu og er boðið upp á frístund fyrir nemendur í 1.-4. bekk. Hér eru allar helstu upplýsingar um grunnskóla og hér eru allar helstu upplýsingar um skólafæði leik- og grunnskóla.
Sótt er um leik- og grunnskóla í þjónustugáttinni.
Framhaldsskólarnir eru tveir, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Þetta eru öflugir skólar sem byggja á traustum grunni, annars vegar bóknámsskóli með ríka hefð og bekkjakerfi og hins vegar verknámsskóli í fremstu röð sem býður einnig upp á bóknám og leggur sérstaka áherslu á einstaklingsmiðaða nálgun og námsleiðir við hæfi.
Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Norðurlandi og sá stærsti utan höfuðborgarsvæðisins. Skólinn er í stöðugri sókn. Boðið er upp á fjölbreytt námsframboð á öllum stigum háskólanáms. Mikil áhersla er lögð á sveigjanlegt nám. Meðal námsgreina í HA eru fjölmiðlafræði, hjúkrunarfræði, lögreglufræði, sálfræði, sjávarútvegsfræði og tölvunarfræði.
Tónlistarskólinn á Akureyri er einn elsti og rótgrónasti tónlistarskóli landsins. Við skólann starfa um 40 fagmenntaðir kennarar sem kenna um 400 nemendum að leika á ýmis hljóðfæri, söng og ýmsar tónfræðigreinar.
Heilbrigðisþjónusta
Heilbrigðisstofnun Norðurlands starfrækir heilsugæslu að Hafnarstræti 99 á Akureyri. Upplýsingar um opnunartíma og vaktþjónustu lækna.
Sjúkrahúsið á Akureyri veitir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu, þar sem áhersla er lögð á bráðaþjónustu og helstu sérgreinameðferðir. Sjúkrahúsið á Akureyri er annað tveggja sérgreina-sjúkrahúsa á landinu, gegnir lykilhlutverki í almannavörnum en er um leið kennslusjúkrahús og þekkingarmiðstöð og einn af stærstu vinnustöðum á Norðurlandi.
Læknastofur Akureyrar er einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu og veitir ýmiss konur sérfræðiþjónustu.
Eldri borgarar
Það er gott að eldast á Akureyri. Þjónusta við aldraða er mjög fjölbreytt og miðar að því að þeir geti búið sem lengst heima með viðeigandi stuðningi. Boðið er upp á margs konar félagsstarf, heimaþjónustu, dagþjálfun, tímabundnar dvalir o.fl.
Heilsuvernd rekur öldrunarheimili eru á tveimur stöðum á Akureyri, hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð og hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð.
Hér má nálgast upplýsingar um þjónustu og aðstoð í boði fyrir eldri borgara.
Fatlað fólk
Málefni fatlaðs fólks heyra undir velferðarsvið Akureyrarbæjar. Kappkostað er að mæta þörfum fatlaðra eins og kostur er. Sérhæft húsnæði, félagsleg liðveisla, akstursþjónusta, heimaþjónusta, ráðgjöf og styrkir er meðal þess sem Akureyrarbær býður upp á, en auk þess starfrækir sveitarfélagið vinnustaði fyrir fatlað fólk.
Nánari upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk hér.
Íþrótta- og tómstundastarf
Fyrsta flokks aðstæður eru til íþróttaiðkunar á Akureyri, hvort sem það eru keppnisíþróttir og skipulagðar æfingar eða hreyfing á eigin forsendum.
Akureyrarbær niðurgreiðir þátttökugjöld barna og unglinga vegna íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfs á Akureyri með Frístundastyrk sem hægt er að sækja um á þjónustugátt bæjarins.
Boðið er upp á fjölbreytt og innihaldsríkt æskulýðs- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni. Forvarna- og félagsmálaráðgjafar bera ábyrgð á faglegu félagsmiðstöðvastarfi.
Menning
Akureyri er menningarbær og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Menningarhúsið Hof býður upp á mikla og fjölbreytta möguleika og er heimahöfn Menningarfélags Akureyrar. Bærinn státar af eina atvinnuleikhúsi utan höfuðborgarsvæðisins, Sinfóníuhljómsveit, fjölmörgum söfnum og einum vinsælasta tónleikastað landsins. Hér má sjá yfirlit yfir það helsta.
Endalaus afþreying
Hvort sem þú vilt skoða áhugaverða staði, heimsækja söfn, fara í leikhús eða sund, njóta útivistar á göngu, hlaupum, hjóli eða skíðum, borða á alls konar veitingahúsum eða eitthvað allt annað – möguleikarnir eru endalausir á Akureyri.