Vinnu við tunnuskipti lýkur á næstu vikum

Útskipti á sorptunnum við heimili á Akureyri ganga að mestu leyti samkvæmt áætlun. Verið er að ljúka við tunnuskipti í Lundarhverfi og á Suður-Brekku. Stefnt er að því að tunnum verði skipt út í Naustahverfi í fyrstu viku nýs árs og Hagahverfi fylgir í kjölfarið.
 
Sorphirða ekki að fullu komin í fastar skorður en kemst á rétt ról þegar ný sorpílát verða komin í allar íbúðargötur bæjarins. Losunartíðni á hinum svokölluðu endurvinnslutunnum, sem eru fyrir óflokkaðan pappír og plast, hefur ekki verið sem skyldi undanfarið í syðstu hverfum bæjarins. Fyrirtækin sem eiga endurvinnslutunnurnar munu fjarlægja þær og flokka upp úr þeim á næstu dögum og vikum hafi það ekki nú þegar verið gert. Í þessu sambandi er rétt að komi skýrt fram að þessar endurvinnslutunnur eru ekki á vegum sveitarfélagsins heldur sorphirðuaðila samkvæmt samningum þar að lútandi við eigendur íbúðarhúsnæðis. Ekki hefur verið rukkað fyrir losun endurvinnslutunnanna frá maímánuði á þessu ári.
 
Með nýju sorphirðukerfi verður öll sorphirða við heimili á vegum Akureyrarbæjar, þar með talin ílát undir pappír og plast. Ef endurvinnslutunnur hafa verið fjarlægðar frá heimahúsum en nýjar tvískiptar tunnur fyrir pappír og plast ekki komið í staðinn, verða íbúar sjálfir að flokka pappír og plast í grenndargámum sem eru á nokkrum stöðum í bæjarlandinu (sjá hér). Hafi gömlu ílátin ekki verið fjarlægð þá verða þau fjarlægð og losuð í síðasta lagi þegar nýjar tunnur berast.
 
Samkvæmt nýju fyrirkomulagi verður pappír og plast sótt á fjögurra vikna fresti en lífrænt og almennt sorp hálfsmánaðarlega. Á Akureyri.is er að finna sorphirðudagatal en því miður sýnir það ekki réttar upplýsingar um allar götur bæjarins og er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem það kann að valda. Unnið er að lagfæringum á virkni dagatalsins.
 
Terra veitir upplýsingar um sorphirðu og má hafa samband í síma 414 0200 eða með tölvupósti á nordurland@terra.is. Á vefsíðu Terra er einnig að finna gagnlegar leiðbeiningar um flokkun úrgangs og endurvinnsluefni í tengslum við jólahátíðina.
 
Hér eru frekari upplýsingar breytingarnar og nýja flokkunarkerfið.
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan