Sigyn Blöndal.
Hið nýstofnaða félag JCI Norðurland stóð nýverið fyrir leitinni að "Framúrskarandi ungum Norðlendingi" 2013 og veitti Sigyn
Blöndal Kristinsdóttur viðurkenninguna við hátíðlega athöfn laugardaginn 18. maí síðastliðinn í Ungmennahúsinu í
Rósenborg. Samtals voru 19 framúrskarandi einstaklingar tilnefndir í gegnum heimasíðu JCI en dómnefnd ákvað hver myndi hljóta titilinn
þetta árið.
Í dómnefnd sátu Svava Arnardóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir og Erlingur Kristjánsson. Viðurkenningunni er ætlað að
vera hvatning til ungs fólks á Norðurlandi sem skarar fram úr. Auk Sigynjar hlutu Valdís Eiríksdóttir og Kristján Guðmundsson
viðurkenningar fyrir góða frammistöðu hvort á sínu sviði.
Sigyn er fædd 1982. Hún stofnaði Point dansstúdíó á Akureyri og hefur rekið það síðastliðin 8 ár. Hún hefur
haft mikil áhrif á líf nemenda sinna og reynst góð fyrirmynd. Sigyn stundar nám í Englandi og stóð nýlega fyrir söfnun svo
hún gæti farið í sjálfboðaliðastarf til Úganda í haust. Í þeim tilgangi rakaði hún meðal annars af sér allt
hárið fyrir framan áhorfendur á Glerártorgi. Sigyn er frábært dæmi um unga konu sem lætur hendur standa fram úr ermum og nær
árangri sem byggist á eigin frumkvæði og dugnaði. Hún á stóran þátt í að byggja upp danslíf Akureyrar og
sjálfstraust barna og ungs fólks.